25.02.1946
Efri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

30. mál, gagnfræðanám

Bjarni Benediktsson:

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingarnar. Það má vera, að þetta ákvæði 10. gr. sé í l., en því hefur aldrei verið beitt og er því dauður bókstafur. En það kemur fram í frv., að fræðslumálastjórn fær úrskurðarvald í mörgum málum, sem ættu að vera samningsatriði milli sveitarstjórnar og ríkisstjórnar. En hæstv. ráðh. hefur ekki skilið þetta sem breyt., heldur endurtekningu á dauðum bókstaf. Viðvíkjandi 12. gr., þá get ég ekki skilið þetta á neinn annan veg en ég hef áður sagt frá. Það getur ekki verið ætlunin að lengja lögin að ástæðulausu og gera þau efnislaus og innihaldslaus með því að taka upp þýðingarlausa bókstafi.