26.02.1946
Efri deild: 72. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

30. mál, gagnfræðanám

Gísli Jónsson:

Áður en þetta frv. fer lengra, vil ég aðeins minnast hér á nokkur atriði, sem ég minntist ekki á hér í gær, og einkum á 38. gr. og benda hv. menntmn. á, hvort hún sæi ekki ástæðu til að leggja til að fella þennan kafla burt úr frv., sem snertir skyldur kennara og laun, sem um ræðir í 38. gr., 39. og jafnvel 40. og 41. gr. Mér finnst, að þessi kafli ætti frekar að eiga heima í l., sem væntanlega yrðu samin um skyldur embættismanna yfirleitt. Gæti það valdið nokkru um fylgi við frv., hvort þessi ákvæði standa í sjálfu fræðslulagafrv., eins og hér er gert ráð fyrir, eða ekki. Ég býst við, að það valdi ágreiningi, hvort rétt er að lögbinda í þessum l., hvort kennarar — auk þess að hafa fullkomin laun, eins og álitið er, að þeir hafi samkv. launal., — skuli hafa þriggja mánaða frí á ári, kenna þó ekki nema 5 stundir á dag og fá auk þess greitt fyrir alla vinnu, sem þeir kynnu að gera heima, og fá þar að auki ákveðið orlof með fullum launum, eins og ákveðið er í frv. Þetta atriði út af fyrir sig kemur hvorki við fræðsluskyldu né því, hvort menn vilja fylgja því, að almenn fræðsluskylda sé lögákveðin í landinu til 16 ára aldurs, og ætti þetta atriði því heima í öðrum lagabálki en þeim, sem hér liggur fyrir.

Þá er í 41. gr. frv. ákveðið, að kennarar skuli vera prófdómarar hver hjá öðrum, en ekkert kemur þar fram um það, hvort þetta skuli greiðast sem aukastarf. Þetta starf hefur verið greitt með fullum launum aukalega, og er rétt, að það sé ákveðið í gr., ef ekki verður samkomulag um, að þessi kafli, sem ég til tók, verði felldur niður úr frv., þar á meðal þessi 41. gr.

Þá vil ég spyrja hv. menntmn., hvort hún sjái ekki ástæðu til þess að fella 45. gr. burt úr frv., þar sem stendur, að fræðsluráð geti með samþykki fræðslumálastjórnar ákveðið, að nú skuli rekið í sambandi við heimavistarskóla gagnfræðastigsins. Hér er það fræðsluráð og fræðslumálastjórnin, sem á að ákveða, hvort þessir baggar verða bundnir annars vegar ríkissjóði og hins vegar og ekki síður sveitarfélögunum, að það séu sett upp bú af ótiltekinni stærð og með ótilteknum rekstrarkostnaði við hvern gagnfræðaskóla á landinu. Ég geri ráð fyrir því, að t. d. Reykjavík yrði ekki neitt undanskilin þessu ákvæði, og er þá vel, að til eru Korpúlfsstaðir, til þess að parta þá niður fyrir gagnfræðaskólana, ef þessi gr. verður samþ. — Ég tel, að þetta ákvæði ætti ekki að standa í 1. Það er líka tekið fram síðar í þessu frv., að stofnkostnaður við þessi bú skuli skiptast hlutfallslega milli aðilanna, sem kosta reksturinn yfirleitt. Gæti þá vel svo farið, að það yrði ekki minni kostnaður við að reka búin en kostnaðurinn af skólunum sjálfum, enda er ekki svo góð reynsla fengin af búrekstri þess opinbera, að ástæða sé þess vegna að fjölga slíkum búum víðs vegar um landið.

Ég hefði nú óskað, að fyrir lægju nokkru nánari upplýsingar en raun er á um þann kostnað, sem hlýtur að leiða af samþykkt þessa frv. En það mun töluvert á huldu, hver hann verður. En væntanlega getur hv. n. þá upplýst eitthvað um það við næstu umr.

Þá vil ég benda hv. n. á 57, gr. frv., þar sem stendur í 2. málsgr., að ef kostnaður fer 15% eða meir fram úr meðalkostnaði, miðað við landið í heild, þá skuli endurgreiða úr ríkissjóði þann kostnað, sem fram yfir er meðalkostnað. Ég tel þessa gr. mjög óheppilega að hafa hana svo í l. Slík lagagr. hlyti að stuðla að því, að engar hömlur séu hafðar á rekstrarkostnaði skólanna. Því að hvenær sem rekstrarkostnaðurinn færi fram úr meðallagi, — væri réttur vís til þess að fá greitt upp í hann úr ríkissjóði. Og mundi þá slíkur kostnaður fara síhækkandi.

Og að síðustu vil ég benda á, hvort ekki væri tiltækilegt að breyta frv. þannig — þeim kafla, sem er um skólaskylduna, — að láta ekki skólaskylduna ná lengra en til barnafræðslunnar, þó að það opinbera geri allt, sem í þess valdi stendur, til þess að búa svo að unglingunum, að þeir geti fengið fræðslu sambærilega við gagnfræðanám eftir þessu frv., ef þeir óska þess. Á þessu annars vegar og hins vegar þeirri skólaskyldu viðkomandi þessum aldri, sem hér er gert ráð fyrir í frv., er mikill munur. Annars vegar er það, að ríkið uppfyllir sínar skyldur, ef það lætur af hendi bæði kennslukrafta og skólahús. En hins vegar er það, sem mér finnst óviðeigandi, að lögbjóða, að menn skuli verða settir á námsbekk allt að 16 ára aldri, þó að hugur þeirra stefni til annars. Þetta síðar talda er ekkert sambærilegt við það, að börn skuli ljúka vissu námi til 13 eða 14 ára aldurs, og mér finnst vera á þessu mjög mikill eðlismunur. — Ég bendi hv. n. á, hvort hún sjái sér ekki fært að breyta þannig frv., að skólaskyldan sé ekki lögfest til hærri aldurs en verið hefur, þó að lögfest sé, að ríkið skuli leggja fram allt, sem til þess þarf, að þeir þegnar þjóðfélagsins, sem það vilja, geti fengið þá fræðslu, sem hér um ræðir í þessu frv.

Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða málið frekar á þessu stigi.