26.02.1946
Efri deild: 72. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (3076)

30. mál, gagnfræðanám

Jónas Jónsson:

Ræða hv. 6. þm. Reykv. var í þá átt, sem ég gat búizt við. Ég gerði fyrirspurn til hans um það, hversu honum litist á fyrir sitt bæjarfélag að standa undir því, sem leiða mundi af þeim breyt. á l., sem hér er stefnt að með þessu frv. Og hann vék sér hjá að svara, vegna þess að ekki væri hægt að svara þessari fyrirspurn, af því að engar heimildir lægju fyrir, sem á væri hægt að byggja slíkt svar. Þetta er einmitt höfuðgalli frv., að það er svo óljóst og illa undirbúið, að það er ómögulegt, að hægt sé að átta sig á því eftir frv., hvern kostnað mundi leiða af samþykkt þess. Það getur verið gert viljandi að hafa frv. svona, til þess að reyna að lokka menn til að taka við málinu, án þess þó að vita, hvað hér er raunverulega á ferð. En á hinn bóginn get ég ekki séð annað en að forráðamenn bæjarmála, eins og t. d. hér í Reykjavík, sem eiga vissulega mest á hættu í þessu sambandi, af því að þeir eru stærstu aðilarnir, sem hér á að lögbjóða um, þeir verði að gera sér grein fyrir því, ef þetta frv. á fram að ganga, hvort hér eigi að lauma á þá helsi, sem þeir vilja ekki bera. Sú aths., sem hv. þm. Barð. gerði hér, er mjög í rétta átt viðvíkjandi aðalatriði málsins. Og það, sem sá hv. þm. fer fram á, er það, sem þjóðfélagið hefur gert frá byrjun, allt fram á þennan dag. Árið 1846 var reistur skóli á Íslandi, og þá var ekki nema einn skóli til í landinu, og ríkið, sem þá var Danmörk, hélt hann og kostaði. Svo hafa hinir skólarnir, sem hér eru til, verið stofnaðir þannig, að það hafa verið stofnaðir skólar, sem ríkið, bæjarfélög og einstakir menn komu upp, til þess að mæta þörf fólksins, en sem frjálsar stofnanir. Og einkum hefur verið gert mikið að því upp á síðkastið að fjölga þessum stofnunum. Um stund voru gagnfræðaskólar aðeins í Flensborg og á Akureyri. Svo komu Austfirðingar og breyttu skóla, sem var hjá þeim, í gagnfræðaskóla. Svo kemur ný alda, þannig að fólkið sjálft og bæjarfélög hafa komið upp 15–16 slíkum skólum alls, þannig að þær stofnanir, sem hér í frv. er átt við, sem annast fræðslu gagnfræðastigsins, eru orðnar þetta margar, en þó hvergi nærri svo, að nægi til þess að standa undir framkvæmd gagnfræðafræðslunnar samkv. þessu frv., ef 13–15 ára unglingar eiga allir að vera skyldaðir til að sækja slíka skóla.

Aðalbreyt., sem í frv. er farið fram á, liggur í þessu að gera tvennt í einu, að leggja skyldur á ríki og bæjar- og sveitarfélög til þess að byggja gagnfræðaskóla með öllu tilheyrandi, þvinga þessa aðila til þess, og á ég þar sérstaklega við bæjar- og sveitarfélögin, og svo að gera hitt, að þvinga nemendur til að sækja skólana. Nú var rætt um þetta atriði hér í gær og reynt að halda því fram af hæstv. ráðh., að það væri svo sem enginn munur á ákvæðum þessa frv. og því, sem verið hefði, því að það hefði verið fram að þessu skólaskylda barna til 14 ára aldurs, — þó að skólaskyldualdurinn væri lengdur um eitt ár, til 15 ára aldurs. En á þessu er þó mikill munur, sérstaklega í dreifbýlinu, því að oft hafa börn þar part úr vetri gengið til kennara, þar sem verið hefur farskóli, og með því móti hafa börnin tiltölulega lítið verið að heiman. En nú er í þessu frv. beinlínis byggt á því, að öll börn 13 ára eru skylduð til þess að vera á þessum skólum í tvo vetur. Og afleiðing þess verður sú, að í sveitum og þorpum verður ekki um annað að gera yfirleitt en að hafa þetta heimavistarskóla. Það getur enginn sagt um það nú, hvort unga fólkið vill svona mikið skólanám á þessum aldri. Enda kemur það fram, að skólarnir standa auðir, ef mönnum líkar ekki við þá. Hefur það komið fyrir hjá okkur um skóla, jafnvel á síðustu tímum, að fólkið sækir þá ekki. Og hæstv. ráðh. hefur ekki áttað sig á því, að þetta kemur allt öðruvísi út, ef allir þessir skólar eiga að taka yfir tveggja ára nám, þar sem öll heimili þessara unglinga á aldrinum 13–15 ára verða þá að vera án þeirra þessi 2 ár og væntanlega lengur, hvernig sem á stendur. Ef unglingarnir mættu hins vegar af frjálsum vilja fara á þessa skóla, þá færu þeir, sem vildu og gætu, og ég vil taka undir það, sem hv. þm. Barð. sagði, enda hef ég sem þm. unnið að því máli, að þjóðfélagið reyni að bæta úr þeirri þörf í þessum efnum, þannig að ekki standi á húsnæði fyrir skólastarfsemina, en jafnvel á þessum góðu tímum hefur staðið á þessu. Hér í Reykjavík hefur t. d. staðið á húsnæði fyrir 2 gagnfræðaskóla, þótt að vísu sé nú verið að byggja myndarlegt hús yfir annan þeirra. En síðan kemur hér annað atriði til greina, eins og ég vék að í gær, og það eru verkstæðin, sem hér er gert ráð fyrir. Ég var að tala við skólastjóra við gagnfræðaskóla í gærkvöld, og hann sagði við mig: „Þegar þið þm. og ríkisstj. hafið þetta mál til meðferðar, er rétt að geta þess, að kostnaðurinn við verkstæðin verður miklu meiri en við bóknámið.“ Nú hefur hæstv. menntmrh. hækkað kaup kennara upp í 20 kr. um tímann, og sagði skólastjórinn, að þar sem hver skólastund væri reiknuð 45 mínútur og færi kennsla í þessari grein fram samfellt, þannig að engin hlé eru milli kennslustunda, og fengi kennarinn því 60 kr. fyrir 3x45 mín. Ég vildi telja það eftir mörgum frekar en kennurum, þótt þeir séu vel launaðir, en af þessu sést, að borgarstjóri þessa bæjar hlýtur óhjákvæmilega að hafa mikil fjárútgjöld bæði fyrir bóklega og verklega kennslu.

Þá vil ég höggva í sama farið og hv. síðasti ræðumaður viðvíkjandi búskapnum á þessum skólum. Ég var ekki á móti því atriði, heldur því, að skólanefndir séu skyldaðar til þess að hafa slíka starfsemi með höndum, og kemur það til af því, að þetta getur gengið bæði vel og illa. Það er ekki nema við einn skóla hér á landi, þ. e. Laugarvatnsskólann, að sett hefur verið upp stórt bú. Kemur það til af því, að skólastjóri hans er mikill búmaður, og er þessi búskapur til mikils gagns, en satt að segja, þótt skólastjórinn sé mikill búmaður og stjórni þessu í sínum vinnutíma, þá held ég, að fari að gusta um hann, hvort þetta geti borið sig, enda hefur mér nýlega verið sagt það, að komið sé í ljós, að á ríkisbúunum sé stórkostlegur tekjuhalli, sem er raunar ekki vegna óstjórnar, heldur vegna þess, hve vinnan er dýr. Finnst mér rétt að geta þess, að á einu af þessum búum, þar sem vel er til alls vandað, er nú orðið heylaust, og er nú verið að gera ráðstafanir til þess að fá hey fyrir 20 þús. kr., til þess að bjarga kúnum. Ég held því, að hv. þm. Barð. hafi ekki ofmælt, er hann sagði, að það væri mjög varhugavert að hafa slíkt í l., að skólanefndir væru skyldugar til að reka búskap á skólunum. Hins vegar væri það allt annað, ef skólanefndirnar gætu ráðið þessu sjálfar.

Ég vil svo að lokum benda á það, sem kannske er mesta missmíðin á þessu frv., hversu óréttmætt það er að taka sjálfsstjórnina úr höndum héraðsskólanna. Ég sýndi fram á það í gær, hvernig þessir skólar hefðu risið upp fyrir dugnað og fórnfýsi fólksins í sveitunum og að þeir ættu því að fá að ráða málum sínum sjálfir. Það sagði einn skólastjórinn við mig, þegar hann heyrði, hvernig fyrirhugað væri að skipa þessum málum, að hann hlakkaði ekki til þess að þurfa að sækja um leyfi til ríkisstj., ef hann þyrfti að veggfóðra herbergi eða setja rúðu í glugga, en þannig yrði það, ef frv. þetta verður að l. Og það er nú þegar búið að sprengja sjálfstæði skólanna með launal., sem sett voru í fyrra. Í þessu frv. er ekki heldur á neinn skynsamlegan hátt gert ráð fyrir því, hvernig fyrirkomulag skólasjóðanna eigi að vera. Og hvað eru skólasjóðirnir? Ætti það t. d. að koma á skólasjóðina, ef búskapur er rekinn þannig, að heylaust er orðið í febrúar? Ég veit ekki, hvort þetta kæmi á skólasjóðina, en hitt er óhjákvæmilegt, ef frv. verður samþ., að það verður að leggja til skólanna ekki aðeins tekjuhalla af búskapnum, heldur og stórkostlegt fé til viðhalds húsa. Hins vegar væru miklu meiri möguleikar á að komast hjá slíku, ef héraðsskólarnir hefðu frjálsræði um þessi mál, þannig að nemendurnir sæju um viðhald skólanna og slíkt. Yrði af því mikil bó,t bæði fyrir þjóðfélagið og skólana.

Ég álít, að að því sé mikil bót, að þetta frv. hefur nokkuð verið rætt hér í hv. d., og vil sérstaklega bera það saman við meðferð málsins í hv. Nd., þar sem aðeins voru sögð um það nokkur orð við 1. umr. og yfirleitt kastað til þess höndunum. Að vísu komu þar fram fáeinar brtt. við frv., en það er óneitanlega leiðinlegt fyrir hv. Nd., sem er fjölmennari d., að hún skuli ekkert hafa gert til þess að verja fólkið í sveitunum fyrir þeim ágangi, sem því er gerður með þessu frv. Ég vonast því til þess, að hér í hv. d. verði hafin sú sókn, að skólamálin verði tekin upp á sjálfstæðum grundvelli á móti þeirri eftiröpun og útlendum beygluskap, sem kemur fram í þessu máli.