17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (3088)

30. mál, gagnfræðanám

Ingvar Pálmason:

Herra forseti. Það lítur út fyrir, að þessu frv., svipað mörgum öðrum, sem nú berast Ed. á síðustu dögum þingsins, séu ætluð sömu örlög, þannig að það eigi að fara gegnum d. með lítilli athugun. Nú hefur þessi fræðslulöggjöf öll mætt nokkurri gagnrýni í þinginu, að svo miklu leyti sem hægt er að koma henni við. Get ég í því efni vitnað til l. um fræðslu barna og grundvallarfrv., þar sem lögð eru drög að sameiginlegu fræðslukerfi í landinu. Þessi mál bæði fengu að mínu áliti skaplega og þinglega meðferð í báðum d., og eins og ég tók fram, mættu allmikilli gagnrýni. Hinu verður svo að hlíta, að atkvæðamagn ráði, en ekki efa ég það, að margir þm. eru óánægðir með þá lagasetningu, en um það er ekki svo mikið að fást, því að það er fenginn meiri hl. fyrir þeim.

Nú er það svo með þessi tvö frv., það, sem er á dagskránni næst á undan, og þetta, að Ed. er með öllu meinað að koma við eðlilegri gagnrýni, og verður maður þá að segja, að það virðist vera nokkuð langt gengið að gefa ekki Ed., þó að hún sé að vísu ekki nema 1/3 þingsins, kost á því að fjalla um málið á þann hátt, sem þingsköp mæla fyrir. En þess er enginn kostur. Við, sem erum óánægðir með frv., verðum því að nota okkur þann eina rétt, sem okkur er gefinn, þann að reyna að koma að skriflegum brtt. með afbrigðum frá þingsköpum, sem ég tel sjálfsagt, að séu veitt, þar sem málið gengur í gegnum d. með afbrigðum frá þingsköpum.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Dal., að mér finnst hans brtt, ákaflega hófleg og á fullum rökum reist. Ég hefði kosið að gera tilraun með nokkrar brtt. við þetta frv., sem hér liggur fyrir, en ég sé þess engan kost, því að það er ekki á færi nema allra skörpustu manna að semja skriflegar brtt. við frv., þegar maður á ekki kost á því að lesa það einu sinni yfir, og frv. er þannig, að það er á tveimur þingskjölum, því að ekki hefur unnizt tími til að koma brtt. inn í aðalfrv., heldur eru komnar brtt. frá Nd. á sérstöku þskj. Ég hef þó gerzt svo djarfur að gera tilraun til að bera fram örlitla brtt. í tilefni þess, að í gegnum alla meðferð þessara mála í þinginu hefur komið fram allýtarleg gagnrýni á það, að frv. öll hnígi í þá átt að gefa kennslumálastjórninni einræði um skipun kennara. Þetta kom greinilega fram undir umr. um frv. um fræðslu barna, og þar voru nefnd nokkur dæmi þess, að í tíð núv. kennslumrh. hefði þessu valdi verið beitt þannig, að viðkomandi héruð væru a. m. k. mjög óánægð með það. Nú gengur þessi rauði þráður einnig gegnum þetta frv., sem hér liggur fyrir, og vil ég þar benda á 10. gr. c-lið, þar stendur, að skólanefndum sé skylt að láaa fræðslumálastjórn í té rökstutt álit á umsækjendum um stöður þessar. En svo stendur ekki einn stafur um það, að ráðh. eigi að fara eftir þessu, og það er það, sem mér og öðrum hefur þótt á skorta, því ef ekki er sett inn í l., að eftir þessu skuli fara, þá nálgast þetta það, að ráðh. sé einvaldur um að skipa í stöðurnar, og ef svo er, þá sjá allir, að það ákvæði í 10. gr. er ekkert annað en pappírsgagn. Mér hefur því dottið í hug að flytja hér brtt., sem er ákaflega hógvær og má jafnvel líta á sem miðlunartill. frá þeim till., sem komið hafa fram í Nd. um þetta atriði, og till. hljóðar þannig, að aftan við c-lið 10. gr. bætist: „Skal fræðslumálastjórn skipa í hverja stöðu einn úr hópi þeirra, er skólanefnd hefur mælt með.“ Ég get ekki séð, ef svona till. er felld, að meining löggjafans sé nokkuð annað en það, að það eigi alls ekki að fara eftir till. þessa aðila, og til hvers er þá verið að setja þetta inn í l. ?

Ég held, að þetta sé svo ljóst, að ekki þurfi að fara um það fleiri orðum. En ég lít svo á, að ef till. verður felld, sé það meiningin að hafa að engu till. skólanefnda.