08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

16. mál, fjárlög 1946

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú verið að ljúka þessum hluta 2. umr. um fjárlfrv. Ég hygg, að fjvn. geti verið ánægð með það, sem fram hefur farið hér í þessum umr. Það hefur raunverulega ekki verið mikið um ádeilur á hennar verk, enda bera þær brtt., sem fram hafa komið, það með sér, og þær hafa líklega aldrei verið færri en í þetta skipti, enda hefur það verið svo, að þær athugasemdir, sem gerðar hafa verið við brtt. fjvn., hafa hver rekizt á annarra horn og meira verið gerðar til þess að láta þær komast út til kjósenda en að hugur hafi fylgt máli.

Ég vil fara hér nokkrum orðum um einstök atriði og skal þá fyrst minnast á ræðu hæstv. fjmrh. — Hann lýsti yfir því, að hann væri alls ekki ánægður með þær brtt., sem fjvn. hefur gert við frv., en hann mundi taka við þeim hækkunum, sem þar hafa verið gerðar, ef brtt. n. verða samþ., en áskilur sér rétt til þess að ræða um það milli umr. við n., hvort hann óski eftir því, a.ð frv. verði skilað með greiðsluhalla eða tekið sé lán eða farnar einhverjar aðrar leiðir, og er fjvn. að sjálfsögðu fús til þess að ræða það mál við hæstv. fjmrh. En það er eitt atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem ég vil benda á undir þessum kringumstæðum, að menn verða að gera sér ljóst, sem sé hvort halda skuli þeirri stefnu í vegaframkvæmdum, sem hann gerir ráð fyrir, að eigi að gera í þeim málum, eða halda þeirri stefnu, sem fjvn. vill marka. Hann lýsti yfir því, að hann væri óánægður með það, að stefnu hans hefði ekki verið fylgt, sem sé að skera niður vegagerðir úti á landsbyggðinni, er halda sér eingöngu við hinar stóru framkvæmdir, eins og hann sagði hér við 1. umr. En ég vil undirstrika það hér, að ef á að halda út á þá braut, sem hæstv. fjmrh. vill fara út á, þá er nauðsynlegt að gera meira en að skera niður vegaframlögin til þessara staða; það þarf þá á sama tíma að skera niður landbúnaðarstyrkina, strandferðastyrkina og fjárframlög til hafnarframkvæmda á þessum stöðum. Þessar aðgerðir mundu hafa þær afleiðingar, að fólkið flytti í burtu frá þessum stöðum, og af því að þetta er svo stórt atriði, vildi ég ekki láta því ósvarað. Það er alls ekki hægt að bjóða fólkinu upp á að halda lífsbaráttu sinni áfram úti í dreifbýlinu með því móti, og það er verið að gefa því falsvonir með því að vera að kasta til þess nokkrum krónum til þessa eða hins, en ekki að halda sér við meginatriðið, hvort á að hafa þessar byggðir í sambandi við meginvegakerfi landsins. — Það er annað atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem er eftirtektarvert og væri ómaksins vert, að hæstv. forseti, hv. þm. A.-Húnv., legði eyrun að því. Hann fullyrti, að þegar unnið væri með stórvirkum og hraðvirkum vegavinnuvélum, þá næðist sjö til átta sinnum meiri árangur en þegar unnið er með handverkfærum, eins og gert var í gamla daga. Hans meginrök voru, að það ætti ekki að vinna að vegaframkvæmdum nema þar, sem hægt væri að koma slíkum tækjum við. En ef þetta er rökrétt, þá er það líka rökrétt, að þeir hv. þm., sem hafa fengið fyrir kjördæmi sín 200 þús. kr. fram yfir á þessu ári til vegagerðarframkvæmda með þessum stórvirku og hraðvirku vegavinnuvélum, þá hafa þeir ekki fengið 200 þús. kr., heldur 1600 þús. kr. Og ef þessir vegir hafa verið gerðir svona góðir, þá er því síður ástæða fyrir fjvn. að halda uppi fjárveitingum á þessu ári til þeirra. Hv. þm. Snæf. fékk m. a. slíkar stórvirkar vegagerðarvélar til afnota í sínu kjördæmi, og hefur þá verið unnið þar að vegaframkvæmdum fyrir því sem svarar 1600 þús. króna, miðað við það, sem aðrir hafa orðið við að búa á öðrum stöðum á landinu.

Ég skal ekki fara langt út í skattamálin. Yfirlýsing hæstv. fjmrh. er mér nægileg til þess að fullvissa mig um það, að fjvn. hefur gert það verk eins vel og hægt var að búast við. Ég vil hins vegar benda á, að þegar fjvn. varð ljóst, að það væru um 150 millj. króna tekjur á þessu ári eða mundu verða, þá var það ekkert óeðlilegt, þótt hún leyfði sér að áætla tekjurnar eins og gert hafði verið í frv., því að það bendir ekkert til þess enn þá, að neitt verði til þess að rýra tekjur ríkissjóðs á næsta ári, nema ef verðtollurinn kynni að rýrna vegna lækkaðra flutningsgjalda, og ef það hefði ekki verið fyrir hendi, þá hefði fjvn. hækkað þann lið stórkostlega, en vegna þessarar staðreyndar sá hún ekki ástæðu til þess að fara lengra í þessu atriði en hún gerði.

Það var eftirtektarvert í ræðu hæstv. fjmrh., er hann sagði, að ekki væri hægt að hagnýta stjórnarkerfið vegna húsnæðisvandræða. Þetta er atriði, sem verður að afstýra, því að slíkt má ekki undir neinum kringumstæðum skapa ríkissjóði milljón króna útgjöld á ári. — Hæstv. fjmrh. hélt því fram — og það er eitt af því, sem ég vil ekki láta mótmælalaust, — að sú lækkun, sem fjvn. hefur gert á mörgum liðum, væri sjálfsblekking, og ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa gert sér það ljóst, að fjvn. hefur lækkað útgjaldaliðina um 2 millj. króna, og það verður að skera einhvers staðar niður til þess að ná þeim árangri. Vil ég í því sambandi benda á stórt atriði. Það er ein stofnun hér í bæ, sem er rekin algerlega á ríkisins kostnað. Fjórir hæst launuðu menn þessarar stofnunar taka full laun fyrir utan þessa stofnun, og eru það svo há laun, að þeir eru með allra hæst launuðu mönnum í landinu. Ég verð að segja það, að það er full ástæða til þess að athuga, hvort það sé nokkur nauðsyn fyrir ríkissjóð að styrkja þessa stofnun að því leyti, sem halda þarf uppi fjórum dýrum starfskröftum, því að ef þeir hafa tíma til þess að vinna á fullum launum annars staðar, þá hafa þeir naumast tíma til þess að vinna á fullum launum hjá þessari stofnun, og væri þá full ástæða til þess að draga þar úr fullum launum þeirra. Mér er það ljóst, að þar sem reynt hefur verið að spara, hlýtur það að valda einhverjum sársauka. Ég hef ekki haft frið síðan nál. kom út, um að það mætti ekki lækka eða fella niður þetta eða hitt. Menn hafa staðið hér stundum á göngunum niðurdregnir og hálfgrátandi út af því, hvers vegna liðir þeim viðkomandi hafi verið lækkaðir eða felldir niður. En það er ekki af því, að fjvn. vilji vera með neinar persónulegar árásir á þessa menn, sem hún hefur lækkað eða fellt niður liði þeim viðkomandi, heldur vill fjvn. undirstrika það, að eftir að búið er að veita mönnum sæmileg lífskjör, þá á að heimta af þeim vinnu. Menn geta tekið hér fjórföld laun hjá ríkinu án þess að gera skyldu sína, og væri gaman að sjá lista yfir þá menn, sem hafa 80–90 þús. kr. kaup frá ríkinu frá a. m. k. 4–5 stofnunum. Ef það á að halda áfram á þeirri braut, þá er niðurskurðurinn blekking, en ef það er gert að veruleika að takmarka laun þessara manna, þá þarf niðurskurðurinn ekki að vera blekking.

Hæstv. fjmrh. talaði um, hvort fjvn. hefði gert sér ljóst, hvort hægt mundi vera að fá vinnuafl til þessara framkvæmda. Fjvn. hefur ekki gert sér þetta ljóst, því að það lá ekki innan hennar verkahrings. Hins vegar er mér það ljóst, að það er vafasamt, hvort unnt verður að gera þær framkvæmdir, sem ráðgerðar eru á næsta ári, en vil í því sambandi benda á, að mér fyndist miklu nær að gefa viðkomandi ráðh. heimild til þess að draga úr framkvæmdum, þegar svo stendur á, að ekki er hægt að fá verkafólk til þess að vinna að þeim, og nota það fé, sem til þeirra hefur verið ætlað, á einhvern annan hátt en að gefa heimild til þess að skera niður framkvæmdir, hvort sem hægt er að framkvæma þær eða ekki, eins og gert hefur verið áður. En þetta er hins vegar atriði, sem kemur til athugunar við 3. umr.Hæstv. samgmrh. sagði, að engin ákvörðun hefði enn verið tekin í sambandi við fjárveitingu til Suðurlandsbrautarinnar, en ég held, að þetta sé frumhlaup hjá hæstv., ráðh., sem kemur fram með till. til fjvn. upp á ekki minna en 4 millj. kr., ef málið er ekki betur undirbúið en það, að ekki er farið að athuga það í ráðuneyti hans, og er þess því ekki að vænta, að fjvn. vilji taka upp þessa till. En það var annað, sem hann upplýsti í sambandi við þetta mál og vakið hefur miklar deilur, en það eru greiðslur fram yfir fjárl. Hann upplýsti, að engar upplýsingar hafi verið gefnar viðvíkjandi þessum lánum annað en það, að féð yrði endurgreitt, þegar féð er veitt til þess í fjárl. Ég hélt, að hv. þm. hefðu heyrt, að n. hafði hugsað sér að skipta þessu í tvo flokka, a- og b-flokka, í fjárframlögum til veganna og ætti hann að athuga, hvað hér hefur verið sagt af þeim ráðh., sem með þessi mál fer, en hann ætlaðist til, að lánin yrðu endurgreidd, þegar féð yrði veitt í fjárl. Væri gaman að vitá, hvernig hv. þm. hafi hugsað sér að fara með þessi mál.

Það, sem hæstv. samgmrh. sagði um löggildingarstofuna og Skipaskoðun ríkisins, var allt á misskilningi byggt. Hann sagði, að þessar stofnanir væru þurrkaðar út úr fjárl., en fjvn. hefur alls staðar gert ráð fyrir þeim. Það er gert ráð fyrir, að tekjur komi á móti greiðslunum, og tel ég engin vandræði að reka þessar stofnanir þannig, að svo sé, og með 1. frá síðasta þingi um breytingar á skipaskoðun ríkisins var það alveg ákveðið, að skipaskoðunargjöld skuli renna til ríkissjóðs, en ekki til þeirra manna, sem annast skoðunina, þar sem þeir taka full laun frá ríkinu samkv. launal. Hygg ég, að þessi misskilningur hjá hæstv. samgmrh. stafi af því, að hann hafi ekki athugað þetta.

Það gætir sömuleiðis misskilnings um 14: gr.; þar sem hann tók til athugunar liðinn um byggingar á prestssetrum og sagði, að það stæði í frv., að ríkið væri að kaupa eignir af sjálfu sér. Sannleikurinn er sá í málinu, að verið er að byggja prestssetur á Hvanneyri, en hingað til hefur prestssetrið verið að Hesti, sem er eign ríkissjóðs, og þarf nú 150 þús. kr. til þess að reisa prestsbústað á Hvanneyri, og mætti koma fram í frv., að þessi upphæð væri sérstaklega veitt til þess.

Hæstv. ráðh. fannst það smásálarskapur hjá fjvn. að fella niður styrkinn til Kirkjublaðsins, en n. hefur ekki byggt sínar ákvarðanir á því, hvort það eru 100 krónur eða þúsund krónur, sem hún sker niður, heldur fer hún eftir ákveðnum reglum og lætur þær gilda jafnt í smáu sem stóru. Frá mínu sjónarmiði er ekkert, sem réttlætir það að veita Kirkjublaðinu styrk frekar en öðrum blöðum, og ég hygg, að andlega stéttin sé nú betur sett en áður til þess að halda uppi sínu blaði, þar sem hennar kjör hafa verið bætt til muna.

Fjvn. hefur skorið niður liðinn um greiðslur til dómkirkjuprestsins í Reykjavík fyrir skýrslugerðir, en þær greiðslur hafa ávallt fylgt því embætti. En þetta er verk, sem biskupsskrifstofan gæti auðveldlega tekið að sér, því að þetta verk er ekki fólgið í öðru en að skrá nöfn þeirra barna, sem skírð eru, og nöfn þeirra manna, sem deyja. Ég hef svarað viðkomandi mönnum því, að þessar greiðslur séu ekki annað en launauppbót til prestanna, en þegar búið er að gera launakjör prestanna eins vel úr garði og nú er, þá er þessi greiðsluliður alger óþarfi, og getur biskupsskrifstofan hæglega haft þessar skýrslugerðir með höndum án þess að fá sérstaka borgun fyrir það, en þessi skrifstofa hefur nú stórum meiri mannafla á að skipa en hún hafði áður., Ég hef fengið lista, sem á sést, að ofan á öll laun, sem greidd eru til biskupsembættisins á þessu ári, hafa verið settar 10 þús. kr. í viðhaldskostnað á biskupshúsinu, sem ekki er eign ríkisins, heldur annars manns, og má af þessu sjá, að leigan verður nokkuð dýr.

Hvað viðvíkur Sjómannaskólanum, þá hefur það atriði aldrei verið rætt við fjvn. að hækka þennan lið, og sé búið að vinna fyrir 1 millj. kr. fram yfir það fé, sem veitt var til hans, þá er það fyrst og fremst á valdi hæstv. ráðh., og hann verður þá að velja um það, hvort hann reyni að fá Alþ. til þess að leggja fram meira fé til hans á næsta ári eða þá að láta vinna minna við skólann en hann hafði hugsað sér. Annars er enginn vafi á því, að það þyrfti ekki að drepa sjómannastéttina, þótt staldrað væri nú við með bygginguna og henni yrði ekki lokið strax. Hins vegar verður það borið undir atkv. hv. þm., hvort þeir vilji veita meira fé í þessu skyni og eyða þar með byggingarefni og taka vinnukraft frá öðrum störfum, eins og hæstv. ráðh. minntist á.

Ég ætla þá að svara hv. 3. landsk. (HG) nokkrum orðum. Hann taldi, að meðferð fjvn. á þeim lið, er snertir tryggingarmálin, væri með þeim eindæmum, að ef dæma ætti öll önnur verk n. eftir því, veitti ekki af að endurskoða allt starf hennar. Ég vil í því sambandi benda hv. 3. landsk. á, hvernig þessi mál voru útbúin í hendur fjvn. Það lá fyrir n. bréf frá 4. júlí. þ. á., sem fjvn. hafði verið sent. Þar er sundurliðun, yfir 800 þús. kr., fyrir laun og annan kostnað í sambandi við þessi mál, og hluta þessa kostnaðar hefur n. skilizt, að ríkissjóði bæri að greiða, og er hann að upphæð 232.500 kr. Fjvn. hafði ekki önnur gögn en þetta bréf og launalista frá Tryggingastofnuninni, sem sýndi aðeins grunnlaun starfsmanna. N. benti á, að henni þætti þetta ekki nægilegar upplýsingar og óskaði eftir að fá reiknað út, hvað launin væru samtals yfir allt árið, en sú sundurliðun, sem n. fékk, var af handahófi. Þá vil ég og benda hv. 3. landsk. á, að það eru ekki minna en 4 menn hjá þessari stofnun, sem eru með 10.200 kr. árslaun og virðast það vera hæstu skrifstofustjóralaun. Það getur verið, að stofnunin þurfi að hafa fjóra skrifstofustjóra, og það eru að vísu fjórar deildir innan stofnunarinnar, en ég veit hins vegar ekki til þess, að 4. deildin, atvinnuleysistryggingadeild, sé farin að starfa enn þá, og sýnist þá ekki þurfa þangað mann á slíku kaupi. Síðan er við sömu stofnun læknir með 13 þús. kr. laun, en ég efast um, að nokkur nauðsyn sé á að hafa sérstakan fastlaunaðan lækni við hana, því að það má hafa samband við aðra lækna heldur en endilega að hafa þar fastlaunaðan lækni. Þessi stofnun þarf ekki að láta fara fram neina stóra uppskurði eða stærri aðgerðir á mönnum, heldur annast hún aðeins skoðanir. Sjálfur hef ég haft þá ánægju að koma í þessa skoðun, og er hún alls ekki þannig, að það þurfi að hafa þarna fastlaunaðan mann með 13 þús. kr. grunnlaun á ári til þess að framkvæma slíkt verk. — Þarna er svo einn liður upp á kr. 342.890.10, sem er innheimtukostnaður, og er eftir því, sem n. hefur skilizt og eins og reiknað var með 1944, 5% fyrir að innheimta gjöld, en samkv. launal. á ekki að greiða innheimtu þannig, heldur á að greiða hana samkv. þeim frá 1% fyrir fyrstu 100 þús. kr. og niður í ¼%, og til samræmis við þau l. hefur þetta verið skorið niður. Ég er viss um, að ef fylgt er ákvæðum launal. á ekki að greiða innheimtu þannig, nema eins og þar segir, þá verður þessi liður ekki kr. 342.890,10, heldur lækkar hann um 80%, og er það á þessum rökum, sem þessi liður er skorinn niður um 80%.

Það getur verið, að hægt sé að kasta þungum steini að fjvn. fyrir að hafa gert þetta, en ég held, að þeir eigi sökina, sem hafa undirbúið málið í hendur fjvn. á eins ófullkominn hátt og gert var. — Það er eftirtektarvert, að hv. 3. landsk. barðist á móti því, að þessi stofnun yrði tekin undir flokkun launal., og virðist það nú koma fram, að hann vill vera einráður um það, hvernig laun eru greidd í þessari stofnun, ekki aðeins til forstjórans, heldur og til allra, sem við stofnunina vinna. Og ef þetta gæti orðið til þess að vekja viðkomandi aðila til umhugsunar um, að svona ættu hlutirnir ekki að vera, þá er rétt af n. að skera þetta niður.

Ég skal benda hv. 3. landsk. á, að hv. 9. landsk. var staddur á þeim fundi, sem þessi ákvörðum var tekin á, og hann benti á, að þetta hefði ekki mikla þýðingu, því að starfslið stofnunarinnar væri fyrir utan launal., en fjvn. fannst hins vegar rétt að benda á, að þessar misjöfnur ætti að laga.

Um brú á Holtakíl er það að segja, að það er með fullum vilja aðila gert að taka þá brú út og setja Laxá inn í staðinn. Framkoma þm., í þessu máli er þannig, að ef ég á eftir að eiga með mál að gera við viðlíka aðstöðu, mun ég ekki taka tillit til slíkra raka, sem ýmsir hv. þm. leyfa sér að bera á borð, því að það er fyrir neðan virðingu allra þingmanna.

4. þm. Reykv. talaði um, að n. hefði ráðizt mest á menningarmál. Hið sanna er, að hún veitir mest til menningarmála. Hitt er annað atriði, að honum þykir sárt að missa af fé, sem renna átti til félagsskapar, sem hann stendur að, sem sé Norræna félagsins. En það liggja engin gögn fyrir um það, hvernig því fé er varið, sem til þess félagsskapar hefur runnið. Ef Norræna félagið stendur ekki jafnrétt, hvort sem það fær 5000 kr. eða ekki, þá er það spunnið úr veikum þræði og getur vart haldizt lengi lifandi.

Um 10 þús. kr. styrkinn til Blaðamannafélagsins er það að segja, að við leggjum til, að hann falli niður. Það er satt, ef athugað er velsæmi blaðamanna, að þá hefur þessi styrkur ekkert að segja. Þeir hafa ráðizt allharkalega á hv. 4. þm. Reykv., og hefur hann sviðið talsvert undan. Hann minntist á burðargjöldin. Ég er ekki viss um, að það sé allt satt, sem sagt er um gróða bókaútgefenda að undanförnu, ef þeir hafa ekki ráð á að borga undir blöð sín og tímarit.

Þá er það styrkur til útgáfu tímarits í Kaupmannahöfn. Ég veit ekki hvaða réttur það er, sem íslenzkir stúdentar í Kaupmannahöfn eiga að hafa fram yfir stúdenta annars staðar á Norðurlöndum eða í Ameríku, og sé ekkert, sem réttlætt geti slíka fjárveitingu sem hér er farið fram á.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða mikið um ræðu hv. þm. Snæf. Hann sneri út úr minni ræðu, en ég mun ekki rekja það að ráði. Vil ég þó taka fram, að mér þykir nokkuð undarlegt, þegar menn hafa fengið 160 þús. kr., að þá skuli menn aðeins þykjast hafa fengið 60 þús. Það er dálítið undarleg málafærsla. En ég vil algerlega mótmæla því, að formaður fjvn. (GJ) hafi farið í þá n. til þess að koma sínum áhugamálum varðandi sýsluna fram. Hann hefur aðeins fengið leiðréttingu á margra ára ranglæti og vanrækslu við sýsluna, og vil ég leyfa mér að mótmæla þessum aðdróttunum algerlega.

Hv. 7. landsk. viðhafði hér þau orð, að mér þykir leitt, hvað fáir eru hér viðstaddir til að heyra mig svara þeim. — Viðvíkjandi ekkju Sigurðar heitins Thorlaciusar skólastjóra skal það tekið fram, að fjvn. hefur fengið upplýsingar um, að hún hafi fengið 23 þús. kr. úr lífeyrissjóði. Þessu mótmælti hv. 7. landsk. þm. og nefndi 21450.00. En jafnvel þótt hún hefði fengið þá upphæð, teldi n. ekki ástæðu til að setja konu með slíkar tekjur á sérstakan eftirlaunalista. Hins vegar er það ekkert atriði fyrir fjvn. að skipta sér af því, hvernig slíkir aðilar ráðstafa tekjunum og hvort þeir ráðstafa þeim til einnar eða annarrar notkunar. Þetta vil ég, að menn athugi, þegar till. verða bornar upp.

Hv. 1. þm. S. M. (IngP) talaði um Geitdalsá og Múlaá í Skriðdal og lýsti þeirri síðari sem einhverri mestu manndrápsá á Íslandi. Það er mikið, ef í henni hafa farizt 19–20 menn, sem menn nú vita um, og þyrfti sannarlega að gera einhverjar ráðstafanir vegna þessa hættulega vatnsfalls. Það þyrfti að athuga, hvort ekki væri hægt að leysa þetta mál með því að bera fram hér á Alþ. frv. um hækkun á benzínskattinum, og stæðu að því allir flokkar. Skyldi láta þær tekjur, sem með þessu móti fengjust, fara til að brúa ákveðnar ár. Ekki þyrfti nema eitt ár til þess að hrinda þessu stórvirki í framkvæmd, en allir flokkar þyrftu að standa að frumvarpinu. Það eru engin vandræði að hækka nú benzínskattinn, þar sem hann hefur ekki verið hækkaður síðan fyrir stríð, og langmest af þeim mönnum, sem brúka bíla út um byggðir landsins við kjósendaflakk og því um líkt, eru það vel efnaðir, að þeir geta vel staðið undir þessu. En hver, sem skerst úr leik, ef frv. um þetta verður fram borið, sýnir með því, að hann vill ekki láta brúa ár landsins.

Ég get svo út af aths. frá hv. þm. V.-Sk. bent honum á þetta sama, að ef hann vill hækkandi benzínskatt, þá er sjálfsagt hægt að verða við óskum hans um brýr. Þetta var það, sem ég ætlaði að segja við hv. þm. V.-Sk., en ég nenni ekki að svara mikið hv. þm. A.-Húnv. Öll villan hjá honum liggur í því., að hann nennir ekki að leggja saman nema tvo liði, og hefur hann því fengið út 85 þús. í staðinn fyrir allt aðra upphæð. En ég veit, að þegar hann kemur heim og hefur tóm til að athuga þetta, þá sér hann, að ekki hefur verið gengið á hluta hans í þessu máli og hann hefur alls ekki orðið afskiptur. Hann sagði, að ég hefði kastað hnútum að vegamálastjóra vegna Svínvetningabrautar. Ég mótmæli því, að um nokkur hnútuköst hafi verið að ræða frá minni hálfu, en ég skal geta þess, að það urðu aðrir meira undrandi en ég á því, að ekki skyldi heldur vera lagt til, að gerður væri vegur að brú, sem þegar er komin, en að brú, sem væntanlega verður byggð á þremur næstu árum. Ég veit ekki, hvernig þetta er, en svona féllu orð hans. Ég er viss um, að hv. þm. skilja það mjög vel, að það er allt annað viðhorf hjá fjvn. til þess að binda fé í hlutum, sem á að framkvæma, eða þeim, sem nærri búið er að framkvæma. Ég skal loks taka það fram, að afstaða mín byggist ekki á andúð til þessa fyrirtækis, en fyrsta sporið til þess að koma þessum framkvæmdum á er, að ríkisstj. verði heimilað að veita þeim stuðning með ábyrgð.

Ég skal láta þess getið vegna utanfararstyrks, sem veittur er vegna Alþýðusambands Íslands, að ég tel, að sá félagsskapur hafi öðrum hnöppum að hneppa nú fyrir kosningarnar en að senda menn út um öll lönd, og þó að sambandið hafi fengið utanfararstyrk, þá er það ekki sama og að það fái hann á hverju ári.

Ég vil með ánægju minnast þess, að hæstv. fjmrh. hóf engar ádeilur á n., heldur sagðist mundu taka við fjárl. eins og honum yrðu þau í hendur fengin af n.

Hv. 1. þm. Rang. kom fram með ýmis atriði í sinni ræðu, sem ég ætla nú ekki að fara að elta ólar við nema lítið eitt. En rök hans í sambandi við nýbyggingarráð voru eitthvað undarleg. Hann sagði, að óhamingja ráðsins væri til dæmis svo mikil, að það bæri ekki gæfu til að hafa annan eins mann og Pálma Loftsson með í ráðum! Hann mætti þar hvergi nærri koma. Ég vil í þessu sambandi slá því fram, að gaman hefði verið að vita, hvað mikið hið aldraða skip Súðin er búið að kosta íslenzka ríkið. Þegar hún var keypt, kom Sjálfstfl. þar hvergi nærri, heldur stóð þessi Pálmi Loftsson fyrir þeim kaupum, og liggur ljóst fyrir, hvaða höpp hafa af því verki hans hlotizt. Hann ræddi um að hækka framlög til byggingar gagnfræðaskóla, og hækkaði n, það um 70 þús. kr. N. hefur mikið rætt við fræðslumálastjóra, og þóttist hann alls ekki geta komizt af með minna en 1700 þús. kr. til nýrra barnaskóla, og varð n. við tilmælum hans og hækkaði framlagið úr 1200 þús. kr. En þetta er kannske ekki til menningarmála? Einnig vildi fræðslumálastjóri fá eina millj. kr. til gagnfræðaskóla, en loks varð úr, að veittar voru 900 þús. kr. til þeirra og 1300 þús. kr. til héraðsskóla. Þetta er alls ekki svo lítil blóðtaka að verða að greiða þessar upphæðir. En fjvn. gerir það í því trausti, að síðar verði þetta endurgreitt í bættum lífsskilyrðum fólksins.

Menntmrh. barðist fyrir því, að þessar upphæðir yrðu mjög auknar, en sagðist þó geta sætt sig við þetta, án þess þó að hann væri fyllilega ánægður.

Ég þarf varla að svara hv. 2. þm. Árn., nema hvað það er sjálfsagt, að n. athugi að setja 20 þús. kr. í stað 10 þús. til Skálholtsvegar, og mætti þá taka samsvarandi upphæð frá einhverjum öðrum lið, t. d. skólanum í Skálholti.

Í fljótu bragði virðist svo sem verst hafi verið farið með N.-Ísafjarðarsýslu, og það, sem verra er, að svo var einnig í fyrra. En ég vil benda á það, að það voru önnur og meiri framlög en til vega, t. d. á þriðja hundrað þús. kr. til flóabáts, sem er nauðsynlegur, þegar vegir eru ófærir, og bjargar því, að Ísfirðingar fái mjólk alltaf, þó að vegir teppist. Þegar allt er athugað, fer hún því ekki verr út úr því en aðrar sýslur. — Um heimild fyrir 500 þús. kr. til björgunarskútu vildi ég segja það, að þá yrði að vera trygging fyrir því, að ekki yrðu í þeim kaupum eins mikil mistök og með varðbátakaupin, sem þessi mikli happakóngur framsóknarmanna hefur staðið fyrir.