17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (3092)

30. mál, gagnfræðanám

Ingvar Pálmason:

Hv. þm. Barð. hefur nú svarað hv. 1. þm. Reykv. að mestu. Þó vildi ég árétta það, sem hv. 1. þm. Reykv. vildi bera brigður á, að meðferð þessa máls væri óþingleg. Hann kvað það algengt að hespa mál af í þinglokin, en ég ætla þó, að það sé óvenjulegt, að svo mikil áherzla sé lögð á að afgreiða hin þýðingarmestu mál, að ekki sé ætlaður nema einn dagur í síðari d. þingsins til að afgr. þau. Enda kemur það fram, að þetta mál er ekki glögglega athugað, þar sem þessi hv. þm. játar það nú við 3. umr., að í frv. séu ákvæði, sem ekki eigi þar heima.

Þá heldur hann því fram, að í þessu frv. sé engu breytt frá því, sem var, og ráðh. eigi að hafa veitingarvaldið, þar sem ríkið kosti skólana. Nú vil ég spyrja: Eru skólarnir ekki til fyrir fólkið? Nei, hér eru maðkar í mjölinu. Ég vil minna hv. 1. þm. Reykv. í þessu sambandi á prestana og spyrja hann, hvort hann mundi vilja mæla með því, að veitt væri þar þvert ofan í till. safnaðanna. Ég held ekki. Ég veit fyrir víst, að þetta er meiningin. Það ber allt að sama brunni. Þetta frv. á að fara í gegn lítt athugað, þrátt fyrir töluverða gagnrýni. Þegar á að fara að halda uppi vörnum, þá verða rökin svo sundurleit, að þar rekst eitt á annars horn. Þá var það ein röksemd hv. frsm., að þetta væri það sama og væri í l. En hvernig er það, er ekki verið að breyta l.? Er ekki verið að breyta þeim til þess að laga þau? Ég held það sé tilgangurinn að breyta þeim til hins betra. Ég sé ekki betur en breyta eigi fjölmörgu til hins lakara, en þau atriði, sem hneigjast til meira lýðræðis, þau eru bannfærð. Og þá fer ég að skilja málið. Hv. frsm. menntmn. sagði áðan, að þeir, sem málinu fylgdu, greiddu þessu öllu jákvæði eins og það kemur fyrir frá ríkisstj. Ég sé ekki ástæðu til að halda uppi miklu þrátti um þetta. Þetta er skýring mín, sem mörkuð er með brtt., sem fyrir liggur. Og verður atkvgr. í hv. d. að skera úr um þetta. Hins vegar verð ég að segja það, að ef það væri ætlun andstæðinga stj. að halda uppi málþófi, þá er það áreiðanlegt, að þessi mál eru vel til þess fallin. En það er ekki ætlunin að fara þá leið. Ég vænti þess, að þrátt fyrir allt sé ekki vonlaust, að þessi brtt. mín verði samþ., því að ég verð að segja, að það er dálítið annað með þessa gagnfræðaskóla en barnafræðsluna. Ég verð að segja það, að ég tel það sé fyllsta sanngirniskrafa, að þeir, sem eiga að nota skólana, hafi tillögurétt, sem tekinn er til greina um það, hverjir eru kennarar við skólana, ekki sízt gagnfræðaskólana. Sem betur fer er það svo enn þá a. m. k. í strjálbýlinu og í kauptúnum, að foreldrarnir hafa tögl og hagldir, hvað snertir uppeldi barnanna fyrir innan 13 ára aldur, en ekki eftir að gagnfræðaskólinn tekur við. Því finnst mér, að réttur þeirra til íhlutunar um skipun kennara við gagnfræðaskólana sé ekki eins ríkur og rétturinn til íhlutunar um skipun barnakennaranna, heldur töluvert ríkari. Ég skal svo láta útrætt um þetta mál. Mér er ljóst, að þessi brtt. er ekki nema lítið brot til að laga þá galla, sem á þessu frv. eru.