17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (3094)

30. mál, gagnfræðanám

Ingvar Pálmason:

Ég heyrði, að hv. frsm. menntmn. er fallinn frá fyrri skoðun sinni um það, að ríkisstj. eða ráðh. ætti að veita embættin vegna þess að ríkið kostaði skólana. Og er nú hv. þm. kominn inn á nýja braut. Nú segir hann, að ráðh. ættu að skipa embættismennina, vegna þess að það væru beztu mennirnir. Það er nú að sumra dómi, en ekki allra. Þessi skoðanaskipti hv. þm. verða aðeins skilin út frá vissum forsendum, því að fyrri afstaða hans í þessu máli var, eins og hv. þm. Barð. sagði, eins og hrein „forretning“. (MJ: Ég gleymdi þessu atriði.) Nú hlýtur hv. þm. að sjá, hvað af þessari tilhögun hans leiðir. Við vitum, að stjórnarskipti geta verið tíð. Og þótt það kunni að vera beztu mennirnir úr hinum ráðandi flokkum, sem veljast í ráðherrasætin, þá er það stórt atriði, að það eru að verða einlæg skipti oft og einatt. Og það, sem af þessu leiðir, er öryggisleysi, þar sem sami ráðh. situr oft og einatt ekki nema heilt kjörtímabil. Hver og einn skipar eftir sínu höfði. Það kemur annar á eftir öðrum og skipar þveröfugt við fyrirrennara hans. Og sér ekki hv. þm., hvert öryggisleysi liggur í þessu fyrir þá, sem eiga að búa undir þessari skipan? (MJ: En breytast skólanefndir ekki?) Jú, þær breytast, en ekki í réttu hlutfalli við ráðh. Og ég fullyrði það, að núv. menntmrh. hefur ekki meiri hl. þjóðarinnar á bak við sig. Ég efa, að hann hafi 10. hluta hennar. Þetta finnst hv. 1. þm. Reykv. ákaflega gott. Ég held meiningin sé þá að ganga lengra, þannig að afnema íhlutunarrétt þegnanna og velja í eitt skipti fyrir öll beztu mennina og láta þá sitja. Það eru mörg dæmi fyrir því, og það stendur ekki með öllu lang.t frá vissum ráðamönnum. Þetta eina getur réttlætt þessa kenningu hv. þm. En hinu gæti ég trúað, að ekki væru það allir flokksmenn hv. 1. þm. Reykv., sem vildu þetta.

Ég held ég láti nú hér staðar numið, en vil segja það, að þegar þinglokin standa fyrir dyrum, þá finnst mér rétt, að hv. þm. gefist kostur á að leiða saman hesta sína, en þá koma oft fram ný og óvænt sjónarmið, sem maður á oft sízt von á, eins og t. d. það, er hv. 1. þm. Reykv. lýsir yfir því, að hann vilji ganga lengra en gengið er í þessu frv., vilji afnema prestskosningarnar. Það er nú svo. Ég verð að segja, að þetta staðfestir þá skoðun mína á þessum hv. þm., að það virðist vera, að hans sálarlíf stefni beint í einræðisátt. Og það vil ég segja, að það er ákaflega langt gengið, þegar á einnig að taka það frjálsræði af mönnum að mega ráða sér trúarkennara. Og það er ekki í samræmi við siði Lúterskirkjunnar. Hún er talin byggð á því, að allir þegnar í landinu hafi trúfrelsi, og stjórnarskráin ákveður það. Ég held kirkjunni væri þarfara að sýna sem mest frjálsræði, og ég er viss um, að henni er það fyrir beztu, heldur en vinna að því að afnema prestskosningarréttinn. En ég trúði því, að þessi hv. þm. væri frjálslyndari en raun ber vitni um í öllum kirkjunnar málum. En ef það er meiningin, að hann vilji aðskilnað ríkis og kirkju, þá skil ég hann. Ég læt mér ekki detta í hug, að hann vilji afnema kirkjuna, en get haft þær grunsemdir um aðra menn. Ég hugsa hann vilji við afgreiðslu þessa máls eins og oftar fara fljótfærnislega yfir og hugsa málið ekki ofan í kjölinn. Afgreiðsla þessa máls er eitt fljótfærnisverk frá upphafi til enda.