17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

30. mál, gagnfræðanám

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann með langri ræðu, en í rauninni er það ekkert smáatriði, hvernig þessum málum er ráðið til lykta. Þeim í mínu kjördæmi þótti þetta ekkert smáatriði, að verða fyrir barðinu á hæstv. ráðh. og fá allt annan kennara en þeir vildu.

Ég sagði, að í þeim l., sem nú gilda, þá hefði ráðh. þetta vald vegna orðalagsins, en það var ætlazt til, að skólanefndirnar réðu þessu. Og ég man ekki eftir, að frá þessu hafi verið vikið, meðan ég var í ríkisstj. Og viðvíkjandi því, að hv. þm. nefndi skólastjóra Austurbæjarskólans, þá var það ekki í minni tíð, heldur hv. þm. S. Þ., og slíkt tel ég ekki til fyrirmyndar. Annars hélt ég, að þessi hv. þm. vildi sízt hnjóða í hv. þm. S.-Þ. Ég tel eðlilegast, að skólanefndirnar ráði þessu, og þótt hægt sé að breyta gegn því, þá er það brot á venju, þótt það sé ekki lagabrot, og mælist illa fyrir hjá hæstv. ráðh. Ef þetta er samþykkt, þá er verið að samþ., að ekki þurfi að taka tillit til skólanefndanna, þær eiga að segja álit sitt, en á því þarf ekkert mark að taka, og sé ég enga ástæðu til að rýra þannig vald skólanefndanna. Ég skal ekki lasta n., sem hefur haft þetta mál til athugunar, en það er ekki venja að láta n. ráða, ef annað reynist réttara, sérstaklega ef það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að n. hafi sofið á Laugarvatni. En ég skal ekki segja, að n. hafi ekki unnið sitt verk, en Alþ. þarf ekki að hlíta því, ef annað reynist réttara. Ég mótmælti ekki, að þessi stj. væri þingræðisstj., en ég sagði, að sá ráðh., sem ræður í hlutaðeigandi ráðuneyti og hefur 1/5 hluta þjóðarinnar á bak við sig, ræður þessu alveg og getur skipað skólastjóra án þess að þurfa nokkuð að fara eftir vilja skólanefndanna. Þetta finnst mér ranglátt, en það þýðir ekkert að ræða um þetta við hv. þm., hann er búinn að flækja sig inn í þetta samningsnet, þótt ég trúi ekki, að þetta sé sannfæring hans.