08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

16. mál, fjárlög 1946

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera langorður um brtt., sem ég hef flutt á þskj. 325.

Mér kemur það óneitanlega mjög undarlega fyrir sjónir, hvað Vestmannaeyjar eiga að komast af með til hafnarmannvirkja. Í síðustu fjárl. voru veittar til þeirra 300 þús. kr. og sýndist þó nokkuð í hóf stillt, og kann ég því illa, að þessi upphæð skuli nú vera lækkuð, ekki sízt, ef sú breyting gengur í gildi, sem gert er ráð fyrir í allsherjar hafnarlagafrv., að það framlag, sem áður var 1/3 verði nú 2/5. Ég vona, að þetta fáist leiðrétt, en þykir samt rétt að leita samstarfs við fjvn. um þetta, því að hér yrði um svo hróplegan órétt að ræða á höfnum, þar sem t. d. Akranes ætti að fá um eina millj. kr. Ég kann þá illa við, að Vestmannaeyjar séu settar svona langt niður. Ég hirði þó ekki um að halda till. til streitu við þessa umr., en mun taka hana aftur til 3. umr. í þeirri von, að hv. fjvn. taki sönsum.

Ég hafði ritað n. bréf um sjúkrahúsmálið í Vestmannaeyjum. Í fjárl. eru áætlaðar 300 þús. kr. sem byggingarstyrkur til þess. Ég ræddi um þetta við landlækni og spurði hann, hvort þessi fjárhæð væri til reiðu, og játaði hann því. Þótti mér því hóflegt að fara þess á leit að hafa sömu upphæð í þessum fjárl. Fyrir nokkru hringdi svo þessi virðulegi embættismaður til mín, og skilst mér, að hann hafi tekið þetta fé til einhvers annars. En það er auðvitað ekki sök hv. n. Ég vonast þó til þess, að einhver nm. geti gefið mér greinargóða skýrslu um þetta á milli umr. Það er mikil þörf á þessu húsi, og hefur bygging þess tafizt vegna seinagangs landlæknis. Fyrir ári var honum skrifað af heilbrigðisstjóra Vestmannaeyja um þetta mál, en teikning er ókomin enn þá. Ég tel varhugavert, að landlæknir geti ráðstafað eftir sínum geðþótta fé, sem veitt er af Alþ. í ákveðnum tilgangi og tel ég þetta athæfi hans ámælisvert.

Ég flyt á þskj. 325 í IV. lið till. um styrk til sjóvinnuskóla í Vestmannaeyjum, gegn jafnháu framlagi frá Vestmannaeyjakaupstað. Skóli af slíku tagi er sízt ónauðsynlegri en ýmsir þeirra skóla, sem nú er lagt fé til. Þarna er ætlazt til þess, að sjómönnum séu kennd ýmis þau handtök, sem í góðar þarfir koma á sjó úti. Ég hef ekki rætt um þetta við hv. fjvn., en mun samt ekki taka till. aftur til 3. umr. og vildi vita, hvað hv. þm. telja, að mönnum sé nauðsynlegt að læra.

Undir I. lið fer ég fram á utanfararstyrk til Önnu Þórhallsdóttur. Öllum er kunnur söngur hennar úr útvarpinu. Ég hef hér vottorð frá Páli Ísólfssyni, þar sem hann mælir með því, að henni sé veittur þessi utanfararstyrkur af Alþ., þar sem hún sé bæði gædd miklum sönghæfileikum og mikilli rödd. Ég mun svo ekki ræða meira um till. á þessu þskj.

Í bili mun ég á þessum vettvangi leiða hjá mér ýmsar deilur, sem risið hafa hér manna á milli. En af því að ég greip það úr ræðu hv. form. fjvn., að nýbyggingarráð hefði átt einhvern hlut að máli, þegar nýju varðskipin voru keypt, vildi ég upplýsa þetta. (GJ: Nei, svo var ekki.) Það var forseti Skipaútgerðar ríkisins, sem hafði alveg með þau kaup að gera, nema hvað ráðið veitti til þess gjaldeyri skv. ósk dómsmrn., og var eðlilega farið að ráðum þess.