24.04.1946
Neðri deild: 119. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (3107)

30. mál, gagnfræðanám

Skúli Guðmundsson:

Ein af brtt. á þskj. 948 er við 62. gr. frv., umorðun. Ég vil rétt benda á, að eins og gr. er orðuð nú í frv. á þskj. 920, þá er hæpið, að hún geti staðizt, því að samkv. henni gæti verið um eignarnám að ræða, þar sem stendur, að ríkið og sveitarfélög taki við eignum þeirra, réttindum og kvöðum án endurgjalds. En skv. frv. er gert ráð fyrir, að ríkið leggi fram ¾ stofnkostnaðar. Ég vil benda á, að skólar þessir eiga eignir og þ. á m. sérsjóði, sem eftir þessari gr. er ætlazt til, að ríkið eignist að ¾ hlutum. Það er vitað mál, að framlög ríkisins og viðkomandi héraða hafa ekki skapað eignir skólanna að öllu leyti. Þannig er um margar af eignum skólanna, að þær hafa orðið til á annan hátt en ríkið hafi lagt þar nokkuð fram. Ég tel, að þetta geti eigi staðizt, og er sjálfsagt að samþ. fram komna till. frá hv. þm. A.-Sk. Brtt., flutt af þeim hv. þm., var samþ. hér áður með miklum atkvæðamun, og þess vænti ég, að svo fari einnig nú. Ég held, að Ed. muni varla fara að vísa málinu til Sþ. En þetta er sjálfsögð lagfæring á frv.