17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (3145)

107. mál, húsmæðrafræðsla

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég var ekki staddur hér á fundi við 2. umr. þessa máls í gær. En ég vænti þess, að frsm. menntmn. hafi tekið fram um það, að sá húsmæðraskóli, sem ég hef haft með að gera og haft afskipti af, hefur dálítið aðra aðstöðu en hinir húsmæðraskólarnir, þannig að hann hefur aldrei átt nein sýsla eða bæjarfélag, heldur er hann byggður á gjöfum tveggja sjóða, þeirra Herdísar Benediktsen og Magnúsar Friðrikssonar frá Staðarfelli. Hann heyrir því ekki beint undir þá skóla, sem þannig eru stofnsettir, að sýslurnar kjósa í skólaráð. Ég heyri nú, að hv. 1. þm. Reykv. hefur gert grein fyrir þessu. En ég endurtek það, að sú sýsla, undir slíkum kringumstæðum, ef um það væri að ræða, að hún ætti að velja í skólaráð, er undir öllum kringumstæðum Dalasýsla. Læt ég svo útrætt um það mál. En ef þessu verður ekki andmælt hér, þá tel ég, að þessi hv. d. hafi fallizt á þessa skoðun mína og framkvæmt verði eftir því á þann hátt.

Þá er einnig annað atriði hér, sem ég ætlaði mér að koma með, en það er skrifleg brtt. í þessu máli í samræmi við þær brtt., sem ég hef áður borið fram við þau tvö skólamálafrv., sem hér hafa verið til meðferðar í hv. d. í gær. Og ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp þessa brtt., sem ég ber fram. Hún er við 14. gr., að gr. orðist þannig:

„Nú hefur kennari gegnt embætti í 10 ár og óskar að hverfa frá störfum í eitt ár til að efla þekkingu sína og kennarahæfni, og skal hann þá senda fræðslumálastjóra beiðni um orlof ásamt grg. um, hvernig hann hyggst að verja orlofsárinu. Ef fræðslumálastjórn telur þá grg. fullnægjandi, getur hún veitt kennaranum orlof með fullum launum. Engum kennara skal þó veita slíkt orlof nema einu sinni. Beiðni um orlof skal send fræðslumálastjóra með eins árs fyrirvara. Fræðslumálastjórn veitir kennurum, sem þess óska, leiðbeiningar um, hvernig orlofsári skuli varið, en allir verða þeir að gefa henni fullnægjandi skýrslu um störf sín að orlofsári loknu, að viðlögðum launamissi fyrir það ár.

Fræðslumálastjórn setur nánari reglur um framkvæmd orlofs kennara. Skal þess gætt, að það trufli ekki störf skólanna eða torveldi þau.“

Þessi brtt. er aðeins borin fram til samræmis við önnur frv. um sama efni, því að eins og gefur að skilja, er sjálfsagt að færa þetta til samræmis, og eins og áður er tekið fram, er búið að staðfesta þetta með breyt., sem gerð var á barnafræðslul. — Ég leyfi mér svo að afhenda hana til hæstv. forseta.