17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (3152)

107. mál, húsmæðrafræðsla

Páll Hermannsson:

Mér hefur aldrei komið til hugar, að ríkið fari að kaupa eignir á Hallormsstað, ríkið hefur látið þar sinn stóra hlut, heldur er ég aðeins að ræða um, hvaða aðilar mundu, þegar 1. eru komin í gildi, standa undir skólanum og bera kostnað af honum. Ég gæti vel ímyndað mér, að Austur-Skaftfellingar hefðu í huga að eiga lítinn skóla handa sér. Ég veit ekki um kaupstaðina, hvort þeir telja húsmæðraskólana þar sína skóla. (MJ: Jafnt sem nýju skólana). Nei, það er ekki, vegna þess að í 2. gr. eru ákvæði um, hvernig eigi að stofna nýja skóla. Það þarf til þess samþykki hlutaðeigandi kaupstaðar og sýslufélags, sem standa að byggingunni. (MJ: Mér skilst, að það geti eins komið til greina með gömlu skólana). Já, með því að gera þá nýja, það getur verið.

Ég skal svo ekki lengur tefja þessar umræður. Ég vil mjög mælast til þess, að d. fallist á þessa brtt., því að ég er viss um, að skólarnir þurfa mjög á því að halda, sem þar er beðið um. Ég er viss um, að þeir komast ekki af með minni kennslukrafta.