13.12.1945
Efri deild: 48. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

139. mál, almannatryggingar

Hermann Jónasson:

Herra forseti, Ég hlustaði í nálægð á ræðu frsm. um þetta mál, sem var mjög fróðleg, enda er hann mjög kunnugur þessum málum.

Ég vil taka það fram, að þó að ég hafi gerzt meðflm. að þessu frv., er það án skuldbindingar um afgreiðslu. En það, sem ég vildi segja um þetta mál þegar við 1. umr., án þess að gera það mikið að umtalsefni, er þetta: Ég hygg, að það hafi víða verið litið svo á, þar sem löggjöf lík þessari hefur verið samþ., að hún hlyti að koma sem blóm á þroskuðu fjármálalífi. Það er alveg auðsætt mál, eins og hér hefur verið tekið fram og ljóst liggur fyrir, að þótt ýmislegt sparist, sem, eins og áður hefur verið tekið fram, liggur ekki greinilega fyrir enn þá, þá leggjast þessi útgjöld á ríkissjóð, sveitarfélög, atvinnurekendur og þá, sem eru tryggðir. Þess vegna hlýtur framkvæmd þessara mála að byggjast á því, að fjármálalífið sé þannig, að framleiðslan sé í því horfi, að hún geti staðið undir þessum gjöldum. En því miður berast stöðugar kvartanir frá framleiðendum, bæði við sjó og í sveitum, án þess að ég fari nánar inn á það. Enn fremur er augljóst, að tekjumöguleikar sveitarfélaganna byggjast á þessum atvinnurekstri, sem ég hef nefnt, framleiðslunni. Ég álít, að ekki verði hjá því komizt í sambandi við þetta mál, án þess að ég segi um það á þessu stigi málsins, hvaða áhrif slík rannsókn mundi hafa á framgang málsins, — að rannsaka og yfirvega, hvort grunnurinn undir þessari stóru byggingu er til. Því að það er með þetta eins og hvert annað stórvirki, sem byggja á upp í þjóðfélaginu, að það fær því aðeins staðizt, að þessi grundvöllur, sem ég hef nefnt, sé til staðar. Vinsælt mál eins og tryggingarnar gæti hæglega beðið stórkostlegan hnekki, ef löggjöfinni væri komið á án þess, að fjármálagrundvöllur sé undir þessari byggingu, vegna þess að það mundi veikja trú manna á þessu mikla og stóra máli. Það gæti átt miklu erfiðara uppdráttar, þó að hægt væri að koma því í gegn nú, þar sem vantar alla aðstöðu til þess að byggja það upp á skynsamlegan hátt. Ég vil ekki segja, að þessi rannsókn, sem ég hef nefnt, mundi leiða til þess,, að frv. verði ekki afgr. á þessu stigi. En ég segi hitt, að ég álít, að ekki verði komizt hjá því að gefa þessu hinn fyllsta gaum.

Ég skal svo ekki segja meira um þetta mál á þessu stigi, en ég segi það nú þegar, að ég álít, að þetta atriði og mörg önnur séu eitt af þeim fyrstu, sem rannsaka þurfi í þeirri n., sem tekur málið til meðferðar.