13.12.1945
Efri deild: 48. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (3174)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson) :

Ég skal ekki teygja umr. heldur aðeins svara því, sem til mín hefur verið beint.

Ég er sammála því, sem hv. þm. Barð. sagði hér áðan, að í raun og veru er hér sennilega mest um tilfærslu að ræða, öllu frekar en verulega aukinn beinan kostnað, tilfærslu, eins og ég gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni, milli ýmissa opinberra aðila, og tel ég þá með þá tryggingastofnun, sem ég veiti forstöðu, þó að hún fái sín gjöld, og er kannske um að ræða öllu frekar tilfærslu frá einstaklingum og yfir á tryggingasjóði. Ég treysti mér ekki til að gera það upp, hve miklu það nemur, og ég held, að það sé ekki mögulegt að finna út, hvað menn gefa sínum skyldmennum. En það er rétt, að það verður ekki séð, að þetta fólk, sem ætlazt er til, að tryggingar taki, líði almennt nokkurn skort. En þar fyrir er það fyrirkomulag, sem á þessum málum er, mjög óæskilegt, annars vegar fullkomið réttleysi á þeim sviðum, sem tryggingarnar taka ekki til — menn þurfa að leita þeirra sem ölmusumenn — og hins vegar eftirtölur þeirra, sem féð láta af hendi. Meginefni þessa frv. er einmitt að setja reglur um það, hvenær menn eigi rétt til fjár og hverjir eigi að fá það. Nú er rétt að benda á, að það er gert ráð fyrir, að enginn fái bætur öðruvísi en eftir umsókn. Má vera, að ýmsir menn, sem eru tekjuháir og eiga miklar eignir, hirði ekki um bætur, og þá sækja þeir ekki um og fá þar af leiðandi ekki greiðslur. Má líka vera, að foreldrar, sem eru hjá börnum sínum, hirði ekki um að sækja um bætur. Annars, ef þeir vilja, þá geta þeir fengið þær.

Hins vegar ætti að vera hægt að gera sér hugmynd um það, hve mikill léttir það yrði á sveitarfélögum. Eftir frv. ætti að létta á sveitarfélögunum öllum nema þar, sem um vandræðafólk er að ræða eða þá, sem einhverra hluta vegna geta ekki komið undir kerfið, og er þá væntanlega ekki nema um litlar upphæðir að ræða í því sambandi. Þá er rétt að benda á, að ef menn eru undir vissu tekjumarki, er ætlazt til, að sveitarsjóðirnir greiði iðgjöldin fyrir þá, og sú áætlun, sem gerð hefur verið um það, hvað það er mikið, er nokkuð af handahófi gerð. Sama er að segja um kostnað ríkissjóðs nú af sjúkum mönnum.

Hv. þm. sagðist ekki gera ráð fyrir, að það væri ætlun mín, að frv. væri afgr. á þessu þingi. Mig furðar á þessum ummælum. Það er fullkomlega ætlun mín, og ég vil vænta þess, að það verði gert, en frestað þar til þ. heldur áfram, og hygg ég, að gott sé að nota þann tíma til að kynna sér frv., eins og hv. þm. benti á. En ég skal einnig upplýsa, að ráðstafanir hafa verið gerðar til að senda sveitarstjórnum frv., þó ekki í því skyni, að umsögn geti fengizt frá þeim öllum áður en frv. yrði afgr. hér. Enn fremur hefur það verið sent til ýmissa annarra aðila, en ég vil taka fram, að það er ekki gert með það fyrir augum að bíða eftir umsögn sveitarstjórnanna allra. Ég vil einnig benda á, að þó að skammt sé síðan frv. komst á þ., þá held ég, að allir flokkar hafi fengið upplýsingar frá mþn. um atriði frv., og ráðh. frá öllum flokkum hafa í höndum glöggar upplýsingar um þetta. Enn fremur vísa ég til fylgirits Jóhanns Sæmundssonar og Jóns Blöndals, en meginefni frv. er byggt á áliti þessara tveggja manna, sem þm. hafa átt kost á að kynna sér frá byrjun, þannig að undirbúning skortir ekki mikinn til þess, að hægt sé að afgr. frv. á þessu þ., og vil ég ekki gera ráð fyrir öðru en að það verði gert.

Hvort af samþ. þessa frv. mundi leiða breyt. á launakjörum, veit ég ekki. Ég get þó sagt sem mína persónulegu skoðun, að ég álít, að mjög mikils vert stabilitet fengist með þessari löggjöf, sem varla yrði ofmetið af hvorugum aðila, atvinnurekendum né verkamönnum.

Ég vil þakka hv. þm. Str. fyrir vinsamleg ummæli. En hins vegar get ég nú ekki neitað því að ef bíða á eftir því, að fengizt hafi öruggur fjárhagsgrundvöllur, ekki aðeins fyrir tryggingunni sjálfri, heldur líka fyrir ríkissjóð og fjármálalífið í landinu, þá er ég hræddur um, að biðin gæti orðið nokkuð löng og skiptar skoðanir um það, hvort þessi trygging væri fyrir hendi á þessum tíma. Ég held, að aldrei á nokkru gefnu augnabliki sé hægt að segja: Nú er trygging fyrir hendi, nú er traustur fjármálagrundvöllur fyrir hendi, — því að við erum háð svo mörgum atvikum, sem við getum engu um ráðið í þessum efnum. Við erum ekki herrar yfir að skapa þessa tryggingu sjálfir, og ég veit ekki um neina þjóð, sem hefur látið sér detta í hug að bíða eftir, að þetta öryggi væri fyrir hendi, áður en hún réðist í lagasetningu svipaða og þessa.

Ég held, að það sé ekki meira, sem ég ætlaði að segja.