13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (3179)

139. mál, almannatryggingar

Steingrímur Aðalsteinsson:

Þó að ég, eins og frsm. sagði, standi að þeim brtt., sem lagðar hafa verið fram af n., þá vil ég geta þess, að ég og minn flokkur hefði frekar óskað, að tryggingarnar hefðu verið bættar en dregið úr, eins og raun hefur á orðið. Eins og frsm. gat um, hefur þetta orðið að samkomulagi, vegna þess að Sjálfstfl. krafðist þess, að dregið yrði úr kostnaði við tryggingarnar. Fyrst þetta varð ofan á, þá get ég fallizt á að fella niður fjárframlög til Atvinnustofnunar ríkisins. Sömuleiðis hef ég fallizt á að fella niður jarðarfararstyrk, og er það vegna þess, að hann var svo lágur, að lítið mundi um hann muna, eins og útfararkostnaður er nú. Hins vegar gat ég ekki fallizt á að draga úr útgjöldum trygginganna með því að fella úr ekkjubætur, eins og meiri hl. samþ. — Þetta vildi ég segja um afstöðu mína og flokks míns til þessa máls.

Þá vil ég víkja að þeim brtt., sem ég flyt sérstaklega á þskj. 798. — Það er þá fyrst við 15. gr., um ellilífeyri. Ég legg til, að hann verði hækkaður úr 1200 kr. í 1500 kr. Frsm. vék að þessu og taldi eðlilegt, að ellilífeyririnn yrði 75% af tekjum vinnandi manns, og ekki æskilegt að fara hærra. Ég tel hins vegar, að tekjur verkamanna séu ekki meiri en það, að af þeim verði lifað sómasamlegu lífi, og mér finnst þess vegna, að ellilífeyririnn eigi að miðast við það, að menn geti, eftir að vera búnir að slíta sér út fyrir þjóðfélagið, lifað sómasamlegu lífi af honum einum.

Brtt. mín miðast því við, að styrkurinn sé sambærilegur við lágmarkstekjur verkamanna. 2. brtt. er við 20. gr. og er um það, að barnalífeyrir hækki um 25%, en haldi sömu hlutföllum. — 3. brtt. er við 35. gr., a- og b-liður um 25% hækkun á ekkjubætur, en c-liður er hins vegar um, að 2. og 3. málsgr. þessarar gr. skuli ná til einstæðra mæðra o. s. frv. Ég get ekki fallizt á þau ákvæði í frv. um ekkjubætur, vegna þess að konur, sem verða ekkjur og hafa börn á framfæri sínu, eiga oft ákaflega erfitt með að sækja vinnu utan heimilisins, og tel ég því ekki of langt gengið, þó að þær fái hálfan lífeyri. Ég tel sjálfsagt, að það sé metið að verðleikum af þjóðfélaginu, að þessar konur eru að fóstra nýja þjóðfélagsborgara, og því rétt og skylt að létta af þeim þeim erfiðleikum, sem þær eiga við að stríða. — Af þessum ástæðum get ég ekki fallizt á, að ekkjulífeyrir sé felldur niður. — Í öðru lagi tel ég rétt að sama regla sé um ógiftar mæður, sem hafa börn á framfæri sínu, því að þeirra uppeldisstarf er sama. — Um næstu brtt. þarf ég ekki að fjölyrða, en 7. brtt. er um iðgjöld einstaklinga til trygginganna. Hún felur það í sér, að persónugjöld verði lækkuð um 1/3 frá því, sem í frv. er, en í stað þess verði lagt prósentgjald á tekjur, eins og segir í till. Ég tel eðlilegt, að iðgjöldin fari nokkuð eftir tekjum. Það er að vísu torvelt að reikna út, hversu mikla upphæð þessi prósentufjöldi gefur. En ég held það færi ei langt frá því, að það gæfi þriðjungs lækkun. — 8. brtt. er afleiðing af þessu.

Ég skal ei fjölyrða meira um þessar brtt. Eins og komið hefur fram, þá hefur ekki orðið samkomulag um þessar till. í n. Sjálfstfl. krafðist þess, að dregið yrði úr kostnaði og þar með þá einnig úr hlunnindum. Ég geri ekki ráð fyrir, að till. mínar um aukin hlunnindi verði samþ. í d., en ég mun samt láta þær koma til atkvæða. Brtt. við iðgjaldagreiðslur held ég, að hafi ekki áhrif né í henni felist röskun á fjárhagskerfi því, er frv. byggist á, né í því felist nein hætta. En hvað sem nú verður um þessar till., mun ég fylgja afgr. frv. Ég tel það mikla réttarbót og mikinn ávinning, að þessar endurbætur skuli koma fram og þessar tryggingar eru gerðar. Og þótt endurbóta og lagfæringar þurfi við, þá er þó með þessu frv. stórt spor stigið til lífsöryggis fyrir kjör manna í landinu.