13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (3180)

139. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar málið var hér fyrst til umr., þ. 13. des. s. l., lét ég þau orð falla, er ég hafði athugað frv. lauslega, að ég væri persónulega mjög opinn fyrir samþ. frv. eða fylgi við það. Enn fremur sagði ég, að ég teldi þetta frv. merkasta málið, er fyrir þ. lægi. Síðar, er hv. 6. þm. Reykv. hafði ekki orðið tíma til að sitja í n., var ég valinn til að taka sæti í henni, e. t. v. vegna þessara ummæla minna. Ég hef síðan starfað í n. að þessu máli, og hafa margir fundir verið haldnir. Því var haldið fram af hv. frsm., 3. landsk., að kröfur hefðu komið frá Sjálfstfl. um lækkun og þá frá mér. Ég mun nú gera grein fyrir, hversu málinu er farið. — Fylgi mitt og flokks míns er því háð, að efni frv. verði ekki raskað í meginatriðum. Er ég bundinn við að bera eigi fram brtt., en þó ekki að fylgja öðrum brtt. Samt er þetta því háð, að samkomulag verði um I. kaflann. Hins vegar teldi ég rétt að láta brtt. koma fram við þessa umr., því að sá kafli snertir stjórn trygginganna að ýmsu leyti. Kæmu þá till. fram, þótt ekki hefði verið samið um stjórn fyrirtækisins. Ég er sjálfur á þeirri skoðun, að þá stjórn beri að mynda í sem mestu samræmi við þingviljann eins og hann er hverju sinni. Augljóst er, að fyrirtækið hlýtur að hafa áhrif, og verður styrkleikinn þar að vera í hlutfalli við þann, sem á Alþ. er.

Fyrstu kröfur mínar í n. gengu í þá átt, að lækkun um 7 millj. yrði gerð. En þessu var mótmælt af hv. frsm n., sem færði mikil rök. Skal ég nú greina, í hverju kröfur mínar voru fólgnar:

1. Ég taldi ekki ógerlegt að lækka þrjá. fyrstu árgangana, sem ellilauna njóta, um helming, og byggði ég það á: a) margir menn hafa að jafnaði tekjur og eru við störf á þeim aldri, en njóta örorkubóta, ef þeir eru ekki starfshæfir; b) ekki er óeðlilega að byrja bara á hálfum lífeyri. Persónulega leit ég svo á, að þetta væru kjarabætur og væri unandi við það. En hér náðist ekki samkomulag um þær 3 millj. kr., sem þessi lækkun mundi hafa komið til með að nema.

Önnur krafa mín var byggð á ekkjulaununum, að þar yrði sparnaður gerður, sem yrði 1,7 millj. kr. Þessi lækkun var ekki talin gerleg, en ég ætla að tilfæra hér dæmi, er sýnir, að ég hafi haft rök fyrir hendi til þess að krefjast lækkunar á ekkjubótum. Í frv. er m. a. svo mælt fyrir í sambandi við þessar bætur, að greiða skuli út, ef ekkja giftist aftur, þriggja ára ekkjubætur til hennar og þriggja ára barnalífeyri auk þess, ef hún á rétt til þess samkv. l. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að kona gæti þannig átt kröfu á 38 þús. kr. frá ríkinu í heimanmund, ef hún væri með 5 börn undir 16 ára aldri og giftist aftur. Ef börnin væru 10, en á því er möguleiki, þá mundi heimanmundurinn frá ríkinu, sem ekkjan ætti rétt á að fá, ef hún giftist að nýju, nema 71 þús. og 200 kr. Ég taldi, að trauðlega mundi þetta geta haft samúð með þjóðinni. Auk þess er ljóst, að þarna gæti myndazt óbrúanlegt bil á milli, ef kona missti mann sinn, en þá ætti hún eigi kröfu á neinu, ef börnin væru orðin 16 ára eða eldri, þegar hún giftist aftur, eða hún missti þau þá frá sér. Ég taldi þetta óheppilegt kerfi. Hv. 4. landsk. vildi, að þessi ákvæði giltu líka um allar mæður, sem giftust, engu síður en um ekkjur, en ég taldi þá kröfu hans óeðlilega í heild sinni. Skv. hagskýrslum eru 25% barna óskilgetin, og gætu þá útgjöldin orðið meiri en æskilegt getur talizt fyrir ríkið, en því vildi ég ekki stuðla að. Taldi ég ekki rétt skv. l. að hverfa að þessu ráði. Einnig fannst mér það mundi geta haft miður heppileg áhrif á atvinnulíf landsins, ef hverja konu eldri en 18 ára ætti að tryggja einvörðungu vegna barns hennar. Þessu var nokkuð breytt, svo að mér líkaði betur en áður og varð samkomulag. Horfið var að hinu, að ekkjur fá hærri styrk og með börnum í heilt ár eftir fráfall mannsins, en byrja að taka styrk skv. tryggingunum, þegar þær eru orðnar 50 ára eða eldri, og halda honum þar til þær hafa náð 67 ára aldri.

Þriðja atriðið er það, að ég krafðist, að felldar væru burt 600 þús. kr. dánarbætur. Ég hygg, að Alþ. eigi ekki meðan það brjálæði ríkir í landinu, að kastað er stórfé í jarðarfarir vegna þjóðarsiðar, svo að þúsundum skiptir, að styðja að viðhaldi þessa ófagnaðar. Væri nær að nota féð til að breyta þessari venju, og er ég samþ. hv. 4. landsk. í því.

Fjórði liður var svo að því er snertir atvinnutryggingarnar. Ég sótti fast að fá þennan þátt trygginganna afnuminn og taldi skaðlaust að nema brott þessar 3 millj. kr. Á meðan atvinnutryggingarnar eru ekki komnar á, mætti afnema kr., 1800000. Tel ég engan skaða af því geta hlotizt fyrir tryggingarnar. Þangað til framkvæmt verður, þarf það hvorki að hafa nein áhrif né hefta framgang málsins. Þessar upphæðir mundu þá alls hafa numið um 7 millj. kr., en samkomulag varð um kr. 4100000. Ástæðan til þess, að ég barðist svo mjög fyrir þessu í n. og flokki mínum, er sú, — ég segi ekki, að fleiri en ég hafi verið á þeirri skoðun, — að ég álít, að sjálfsagt sé að reyna að tryggja stofnunina sjálfa fjárhagslega þegar í byrjun. Að minni hyggju ber frekar að fara af stað með sterkari en veikari fjárhagsgrundvöll til að byggja á. Á hinn bóginn, ef þjóðin stendur sig við þetta, er hægurinn hjá og betra að auka starfsemina en draga úr henni. Ættu engir erfiðleikar að vera á því að bæta við, ef svo viðrar. Ég hef lagt allt kapp á, að fjárhagurinn verði öruggur. Svo er alltaf hægt að lagfæra ýmislegt síðar.

Ég mun svo snúa mér að og ræða einstök atriði, sem ég er óánægður með. — Það er þá fyrst í sambandi við 14. og 15. gr. Ég er ekki ánægður með að hafa fleiri en eitt verðlagssvæði. Þetta var mjög vel athugað í n., og er mér ánægja að því að segja, að hv. form. lagði sig í líma að reyna að mæta mér. Til athugunar var um tíma, hvort gæti verið hægt að hafa eitt verðlagssvæði og greiða 1000 kr. grunnlaun í stað 1200 kr. En það strandaði á því, að nú þegar er farið að greiða gamalmennum í Rvík 1200 kr. Annað kom ekki til mála en láta þá, er nú hefðu 1200 kr., halda þeim, þótt nauðsynlegt væri að gera lækkun. Var aðeins hægt að láta hana koma til framkvæmda á þeim, sem kæmu á eftir. Það voru engir, er þar vildu hafa neinn mismun á. — Þessu næst var athugað, hvort kleift væri að hafa eitt svæði og láta vera heimild til að lækka grunnlaun í einstökum héruðum, þannig að lækkunin næmi 25%. Ég kynnti mér nokkuð hugi ýmissa manna um þetta og talaði af því tilefni við umbjóðendur sveitanna. Skildist mér á þeim, að þetta mundi verða vel liðið, en þeir töldu hins vegar, að þá yrði að miða við lágmarkið, eigi mætti fara niður fyrir það, en þó mundi verða reynt að þoka sér smám saman upp í hámarkið. Ef ákveðið hefði verið eitt svæði, mundi það hafa haft kostnað í för með sér, bæði fyrir ríkið og umbjóðendurna. Það verður erfitt fyrir fátækustu hreppa á landinu að taka að sér iðgjaldagreiðslur þeirra, sem ekki geta innt hana af hendi sjálfir, en ég fellst þó á að fá á þetta reynslu.

Annað atriði, sem ég var ekki ánægður með, var það að hafa ekki iðgjöld hjóna samsvarandi iðgjöldum einstaklinga, en ég féllst þó einnig á að reyna þetta. — Þriðja atriðið, sem ég er ekki ánægður með, er hinn mismunandi fæðingarstyrkur. Ég hefði kosið, að allar konur fengju jafnt í stað þess að þær konur, sem vinna utan heimilis, fá allmiklu hærri styrk.

Varðandi sjúkrabæturnar vil ég segja það, að ég hefði viljað hafa dagpeningana hina sömu fyrir alla í stað þess að nú er ákveðið kr. 7,50 fyrir kvænta karla, en 5 kr. fyrir ókvænta, þ. e. hálfur styrkur fyrir konuna. Þá lít ég svo á, að lægri dagpeninga hefði mátt ætla fyrir þá, sem liggja vegna almennra veikinda, en fyrir þá, sem liggja vegna slysa, þar eð hægara er að misnota hið fyrra. En þessu fékkst ekki breytt. — Þá var ég óánægður með að hafa mismunandi biðtíma, eins og gert er ráð fyrir í 45. gr. frv., þannig að þeir, sem búa í 10 km fjarlægð eða meir frá læknissetri, þurfa að bíða í 4 vikur. Þó er þess að gæta, að ef viðkomandi sjúklingur er fluttur á sjúkrahús, kemur hann strax undir þau ákvæði, sem miðast við svæðið innan 10 km. Þetta mildar svo þetta ákvæði, að ég get fallizt á það. — Sjöunda atriðið, sem ég er óánægður með, er ákvæði í 66. gr., um að launagreiðendum sé skylt að greiða laun fastra starfsmanna a. m. k. í 14 daga, þótt þeir fatlist frá vinnunni. Ég álít, að þetta, hafi ekki átt hér heima. — Í áttunda lagi var ég, óánægður með að taka allan heilsugæzlukaflann upp í frv., en af orsökum, sem fram komu, sannfærðist ég um, að frv. næði ekki fram að ganga á þessu þ., ef því yrði snúið svo um. Hins vegar varð samkomulag um að fresta framkvæmd þessa hluta l. um eitt ár. — Níunda aths. mín var við 109. gr. Var ég þar á annarri skoðun en flestir aðrir, og vil ég taka fram, að ég tala þar eingöngu fyrir mína hönd. Ég hefði verið opnari fyrir því að taka iðgjöldin meira af launum, en minna af persónum. Ég hefði viljað fallast á, að atvinnurekendur greiddu meira í hlutfalli við rekstur. En um þetta fékkst ekki samkomulag, hvorki í flokkum né í n. — Tíunda atriðið, sem ég var óánægður með, var ákvæðið í 122. gr. svo og í 133.–134. gr. frv., um að atvinnurekendur skuli innheimta iðgjöldin. Ég tel, að þetta sé rangt, og ég sótti það fast að fá þessu breytt, en gat ekki staðizt á móti þeirri röksemd, að þetta er svo með fjölmargt annað, og þar sem svo er, taldi ég ekki sanngjarnt að halda mér við þetta og koma í veg fyrir samkomulag. En það er mín skoðun, að þetta sé rangt, atvinnurekendur fá ekkert fyrir þetta, þótt tollstjórar og skattheimtumenn séu launaðir. — Þá hefði ég kosið, að annað fyrirkomulag hefði verið haft um lífeyrissjóðina. Ég hefði viljað, að þeir rynnu allir inn í tryggingarnar með sérstökum réttindum, en það hafa þeir ekki gert fram til þessa. — Tólfta aths. mín er varðandi gildistökuákvæðið í 142. gr. Ég hefði talið það heppilegra allra hluta vegna, að fallizt hefði verið á till. frá hv. þm. Seyðf., um að draga skyldi um eitt ár, að ákvæðið um greiðsluskyldu kæmi til framkvæmda, þannig að tryggingarnar fengju eins árs tekjur til að skapa sér fjárhagslegan grundvöll, en um þetta varð heldur ekki samkomulag. En ég vil beina því til þeirra aðila, sem mestu ráða um þetta mál, hvort þeir sjái sér ekki samt sem áður fært að fara þessa leið. — Þá er það loks sjöunda atriðið í kaflanum um ákvæði til bráðabirgða, sem ég vildi minnast á. Ég álít, að slíkt ákvæði ætti ekki að setja í þessi l. Jafnvel þótt þessi l. þurfi endurskoðunar við, á það ekki heima í þessum l. að setja ákvæði um slíkt.

Þá vil ég taka það fram viðvíkjandi brtt. hv. 4. landsk., að ef þær verða samþ., þýða þær allverulega hækkun á iðgjöldum, og verður ekki séð, hvar hann æ:tlast til að fá tekjur til að mæta hækkun lífeyris. Hins vegar hefur hann gert till. um tekjur í stað iðgjaldalækkunar, en hann viðurkenndi sjálfur í ræðu sinni, að þær tekjuöflunartill. ættu aðeins að mæta iðgjaldalækkuninni. Í tilraunum n. til „að binda endann“, eins og það var kallað, vildi ég, að fyrsti niðurskurður á útgjöldum yrði það að fella niður allar heimildir, en þar sem því fékkst ekki framgengt, leiðir af sjálfu sér, að ég vil, að stjórn Tryggingastofnunarinnar verði þannig skipuð, að tryggt sé, að heimildirnar verði ekki notaðar nema nauðsyn krefji.

Ég vil taka það fram, að ég tel höfuðtilgang þessara l. þann að koma í veg fyrir, að menn þurfi að leita til sveitar, og er það þá sérstaklega barnalífeyririnn, sem fyrirbyggir það. En ef fara á að koma í veg fyrir einstök dæmi og ólíklegustu tilfelli, þá ætla ég, að erfitt verði að gera svo, að enginn verði óánægður. Ég vil leyfa mér að benda á ákveðið dæmi, að ef þessi maður, sem hefur allt að 10 þús. og 200 kr. í tekjur, tekur engan styrk úr tryggingasjóði, en hann tekur styrk úr tryggingasjóði allt að þeirri upphæð, ef hann hefur 3 börn á framfæri, fær hann þess utan 6600 kr. hærra, eða 16800 kr.

Ef þetta er borið saman við sexmannanefndarálitið, þá er þetta nokkru hærra en meðaltekjur bænda í landinu annars vegar og töluvert miklu eða um 6 þús. kr. hærra en meðaltekjur verkamanna og sjómanna og iðnaðarmanna í smærri þorpum úti á landi. Á sama tíma sem þeir menn verða að basla fyrir sínu brauði og vinna sér inn þessar lágu tekjur, 6000 kr., greiðir tryggingin 6000 kr. frá sér, vegna þess að það þótti ekki gerlegt að draga neitt af styrknum vegna þess, sem styrkþeginn vinnur sér inn, vegna þess að þá væri hætta á því, að áhugi hans fyrir að vinna sér eitthvað inn dofnaði að sama skapi. Ég er að vísu form. n. sammála um þetta, en þrátt fyrir það verður að reyna að útiloka það, að þeir, sem vinna fyrir sér sjálfir, búi ekki við eins góð lífskjör eins og þeir, sem njóta styrks úr ríkissjóði. En þetta verður einn af þeim erfiðleikum, sem verður við að stríða og ég hef rekið mig á í þessari löggjöf, en ég ber svo mikið traust til þeirra manna, sem um þetta mál fjalla og með það hafa að gera, að þeir muni skrá niður hjá sér öll slík atriði, eftir því sem þeir kynnast þeim, og lagfæra þau ákvæði í samræmi við lífskjör annarra manna, þegar séó verður, hvernig l. koma til með að verka í landinu. — En í sambandi við það, sem form. n. minntist á; að vel gæti komið til greina, að sveitarfélögin yrðu að greiða mikið fé fyrir sina þegna, og hefur n. fengið ýmis skjöl og skýrslur um það atriði frá fámennum hreppum, þá vil ég benda á, að þarna er aðeins litið á aðra hlið málsins. Þegar tryggingarnar komast á eftir þessu frv., þá kemur mikla meira af fé inn í þessa hreppa en kemur úr þeim í iðgjöld, sem stafar af því, að það er ekki nema lítill hluti af kostnaðinum við tryggingarnar, sem greiddur er með iðgjöldum. Það mun því koma í ljós, að þótt mönnum þyki í fyrstu þessi gjöld nokkuð þung, þá verður kostnaðurinn miklu meiri en þau, þegar athugað er, að það eru hvorki meira né minna en 19 millj. kr., sem eiga að koma beint í ellistyrk til fólksins í landinu, þegar farið verður að greiða eftir lögunum.

Ég hef þá hér minnzt á þá hluti, sem helzt hefur borið á milli. En eins og ég skýrði frá strax, er ég bundinn við það samkomulag og mun fylgja frv. eins og það er, þó að ég hefði fremur kosið að hafa einstök atriði þess á annan veg. En áður en ég lýk máli mínu vil ég minnast ofurlítið á nál. minni hl. n., en form. n. minntist nokkuð á það. Þar segir á fyrstu síðu, neðarlega: „. . . hver þjóð þarf að fá skólun í því að nota tryggingarnar eðlilega og heiðarlega, (Ég veit ekki hvað hv. þm. Str. meinar með þessu orði.) þannig að það komi að gagni hinum tryggðu, en ofþyngi ekki læknum og tryggingastofnuninni, til mikils tjóns fyrir fjárhag stofnunarinnar og heilsugæzluna í landinu. Þessa tryggingamenningu tekur nokkurn tíma að skapa, og verður að telja ekki lítið vafasamt, að hagkvæmt sé, — að aukning trygginganna komi hraðar en þessi skólun fólksins í að nota þær.“ Ég vil spyrja hv. þm. Str., til hvers hann beinir þessu skeyti. Við vitum, að tryggingar eru nú komnar í kaupstaði landsins og þá er dreifbýlið eftir. Er það til þessara manna, sem hann sendir þessi skilaboð? Er það svona sérstaklega óheiðarlegt í þessu máli, eða er svo mikil hætta á, að það íþyngi svo mikið læknum? Í sambandi við þetta vil ég benda hv. þm. Str. á það, sem hann hefði nú átt að vita, eftir að hafa verið búinn að starfa í n. langan tíma, að vísu ekki á hverjum fundi, að í frv. er gengið vel frá því, að slíkri misbeitingu verði ekki við komið, svo að varla getur það orðið til þess, að fólkið, sem ekki hefur orðið til þess að misnota sjúkrasamlagið, fari nú allt í einu að taka upp á því þegar þessar tryggingar eru komnar til sögunnar. Og þegar þetta er athugað, þá er ekki annað hægt að hugsa en að hv. þm. Str. hafi þarna átt við þá, sem búa í sveitum landsins. Ég vildi gjarnan óska yfirlýsingar frá hv. þm., að svo sé ekki, og ég vil benda hv. þm. á, að þetta er að finna í 87. gr. frv., ef hann hefur aldrei farið yfir þá gr. Hv. þm. segir síðar í sínu nál., með leyfi hæstv. forseta: „Óhætt mun þó að gera ráð fyrir, að sú kostnaðaráætlun sé eins lág og hægt var að gera hana. Kostnaðurinn skiptist þannig, að álög á einstaklinga, sem voru 13,1 millj. kr., verða 20,9 millj. kr.; hækkun 7,8 millj. Atvinnurekendur greiða nú 4,2 millj. kr., en eiga að greiða skv. frv. 11,8 millj. kr.; hækkun 7,6 millj. Sveitarfélög greiða nú 10,3 millj., en eiga að greiða 15,3 millj.; hækkun 5 millj. Ríkissjóður greiðir nú 12,4 millj., en á að greiða 24 millj.; hækkun 11,6 millj.“ Þegar við ræddum um það að reyna að lækka þessa áætlun um 7 millj. kr. eða að minnsta kosti 4 millj. kr., var farið eftir því í höfuðdráttum, sem áætlað hafði verið um gjaldaliðina. Ég tek enga ábyrgð á því, að þetta sé rétt, en ég vildi aðeins taka þetta fram hér að gefnu tilefni og af því að hv. þm. Str. hefur ekki lagt eins mikla vinnu í þetta frv. og hinir nm., sem hann þó vænir um, að hafi ekki gert það eins vel og nauðsynlegt hefði verið.

Þá segir hv. þm. Str. á þessu einstaka blaði, að fjárhagsafkoma þjóðarinnar hafi verið mjög góð fram til þessa. Ég verð að segja, að þetta er gleðileg yfirlýsing frá hv. þm. Str. En svo bætir hann við, að vegna verðbólgunnar horfi nú mjög í óvænt efni um fjárhaginn. Er hann virkilega svo vongóður, að þetta rætist eftir kosningarnar, en af engu öðru en því getur þessi fullyrðing verið fram komin í nál., að hann heldur, að Framsfl. fái svo mikið fylgi við kosningarnar? Ég hygg, að það sé yfirleitt leit að því og yfirleitt ekki til, að sveitarfélög hafi haft glæsilegri afkomu en nú. Ég þekki sveitamenn, sem eru svo stórhuga á mörgum sviðum og fullir áhuga fyrir að bæta kjör sín, byggja sjúkrahús, koma upp samvinnufyrirtækjum, byggja hafnir og margt fleira, og allt er byggt á þeim vonum, að það haldi áfram það viðhorf, sem hv. þm. Str. viðurkennir, að hafi verið hér á landi undanfarin ár, síðan ríkisstj., sem nú situr við völd, tók við, og byggt á þeim vonum, að hv. þm. Str. og hans flokkur nái ekki meiri hl. við næstu kosningar til þess að snúa þessu við.

Þá vil ég að síðustu taka það fram, að afstaða mín til þessa frv. er ekki byggð á neinni sérstakri pólitískri skoðun, hún er byggð á þeirri skoðun, eftir að ég hafði kynnt mér málið eins og ég hef getað þennan tíma, að hér sé um eitt allra stærsta mál þjóðarinnar að ræða, svo stórt velferðarmál, að það sé varla vansalaust að jafnstór flokkur og Framsfl. er enn þá skuli vilja skjóta sér undan því að taka þátt í þeirri uppbyggingu í landinu, sem nú er verið að skapa með þessari löggjöf, því að hv. þm. Str. segist ekki geta tekið þátt í afgreiðslu þessa máls og unnið þannig með öðrum flokkum að því að koma áleiðis langsamlega merkasta máli, sem nokkurn tíma hefur legið fyrir þessu þingi. Og ég verð að segja það, að ofan á allt það, sem hann hefur orðið að taka á móti í gær frá sínum kæra flokksbróður, þá finnst mér það beiskur kaleikur að verða að viðurkenna allt það, sem hann hefur orðið að viðurkenna í sambandi við þetta mál hér opinberlega á Alþ. Hv. þm. segir einnig, að ekki hafi fengizt athugaðar í n. eða verið teknar til greina hinar eðlilegustu og sjálfsögðustu brtt. En ég hef lýst því yfir og get gert það enn einu sinni, að þrátt fyrir það að ég hafi ekki fengið fram þær breyt., sem ég hefði kosið, þá mun ég fylgja frv. fram, í því fulla trausti, að með hverju ári, sem líður og reynsla fæst meiri, verði hægt að endurbæta þetta, heldur en að leggja á það þá dauðu hönd eins og virðist vera falin í, nál. hv. þm. Str.

Ég mun fylgja þessu frv. til 3. umr. með þeim aths., sem ég hef gert, og ég vona, að hv. dm. fylgi því einnig til 3. umr. einnig óbreyttu, og ég verð því miður að óska eftir, að þær brtt., sem fram hafa komið frá hv. 4. landsk. á þskj. 798, verði ekki samþ., til þess að raska ekki að fullu og öllu þeim grundvelli, sem gerður hefur verið samningur um og allt málið hefur verið byggt á.