13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Ég er satt að segja alveg undrandi á því, að hv. þm. Barð. skuli vera að gera eins konar eldhús hér í hv. d. út af því, að ég sé mér ekki fært að fylgja þessu frv. fram eins og það liggur fyrir og með þeim breyt., sem meiri hl. n. leggur til, en ég mun koma að því seinna í þessum fáu orðum, sem ég mun láta hér falla, og þá einnig, hvernig viðhorf mitt var í þessu máli í n. og hvernig viðhorf hv. þm. Barð. var, og mun þá skýrast nokkuð sjónarmið mitt í þessu máli, og jafnframt kann ég þá að geta skýrt sjónarmið hv. þm. Barð., en það ætla ég að minnast á síðar.

Ég skal viðurkenna það, að þessi breyt., sem lagt er til, að gerð verði á frv., af meiri hl. n., mun að flestu leyti vera til bóta, að ég hygg. Ég geri þess vegna ráð fyrir, að þótt sú dagskrá, sem ég ber fram, verði felld, um það að fresta afgr. málsins, mun ég greiða atkv. með flestum þeim brtt., sem meiri hl. n. ber fram. Ég mun þá einnig taka til athugunar að fylgja þeirri brtt., sem hv. 4. landsk. flytur, og á ég þar við a-lið og b-lið 7. brtt. Og ég geri ráð fyrir, að ef þessi brtt. hefði ekki komið fram, hefði ég komið fram með brtt. í þessa átt fyrir 3. umr. Ég mun enn fremur, þó að þessar brtt. verði samþ., sem meiri hl. ber fram, koma með allmargar brtt. við 3. umr. málsins, ef svo fer, að dagskrártill. mín verði felld. Ég kem ef til vill að því með örfáum orðum, hvernig þær brtt. verða, en ég sé þó ekki ástæðu til þess að fjölyrða svo mjög um þær nú.

Ég hef aldrei sagt það, sem sumir hv. þm., sem grg. minni fyrir hinni rökstuddu dagskrá hafa talað gegn, hafa haldið fram eftir mér og jafnframt talað gegn þeirri rökstuddu dagskrá, sem liggur fyrir frá mér. Ég hef aldrei sagt, að þessar tryggingar væru illa undirbúnar af hendi þeirra sérfræðinga, sem að þessu máli hafa unnið, það stendur ekkert um það í þeirri grg., sem ég lét frá mér fara. En ég get beinlínis sagt það, að ég álít þetta frv. eftir atvikum vera frumsmíði, því að frumsmíði verður þessi löggjöf að teljast eins og hún er nú með þeim gerbreyt., sem gerðar hafa verið á núverandi tryggingalöggjöf. En ég álít, að þetta hafi tekizt vel frá hendi þeirra sérfróðu manna enda unnið dyggilega að því af þeim sérfróðu mönnum og að öllu leyti hæfu, svo að það út af fyrir sig ber að taka fram. En við vitum það jafnframt, að af löggjöf eins og þessari er ekki mikil reynsla annars staðar, og þó hefur því verið haldið fram, að hún sé til staðar hér á landi. En hún er það alls ekki. Þetta frv., sem hér er um að ræða, er alveg gerbreyting á núverandi tryggingalöggjöf og hún svo mikil, að á þessum sviðum er hér sáralítil reynsla, og má þar benda á barnatryggingar og margt fleira. Það er engin reynsla fyrir því enn þá, hvernig þetta verður framkvæmt, og það er það, sem ég á við, þegar ég tala um það, að þetta sé nokkuð hæpinn undirbúningur. Og þessi löggjöf kemur í raun og veru, eins og hún er nú sett, ákaflega fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Hún kemur þjóðinni alveg á óvart, en ekki eftir umr. við þjóðina sjálfa. Ég benti á í grg., að þar eru a. m. k. þrjú ár síðan gefin var út áætlun um það í Englandi, hvernig tryggingalöggjöfinni yrði háttað, og þessi mál mjög mikið rædd þar. Þó að þessi tryggingafrv. hafi verið send út til sveitarstj., þá er mér það kunnugt, að þessi mál hafa yfirleitt ekki verið rædd meðal þjóðarinnar, og það vitum við allir, sem hér erum. Það hafa að vísu verið birtar um málið nokkrar skýrslur og útvarpsumr., en almenn þátttaka í þeim umr. hefur ekki átt sér stað, en ég álít, að ef hún hefði átt sér stað og þjóðin hefði fengið að ræða og athuga málið á almennum fundum og kynna sér, hvaða skyldur og kvaðir eru á hana lagðar með þessari löggjöf, þá hefðu verið meiri líkur fyrir, að þetta færi allt betur úr hendi.

Ég benti á í grg. minni, að það hefði komið fram frá 2. minni hl. í þessu máli, að það væri vitað mál, að um leið og við gerðum tryggingarnar svo víðtækar sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þar sem menn eru tryggðir, sem ég tel vissulega, að fari vel, ef það reynist framkvæmanlegt, gegn sjúkdómum, gegn ofþungri ómegð, tryggðir fyrir slysum o. s. frv., þá munu margir líta svo á, að ekki verði hjá því komizt að koma hér á atvinnuleysistryggingum á eftir. Það mun ekki þykja fara vel á því, að þeir, sem sjúkir eru séu tryggðir og þeir, sem hafa orðið fyrir slysum, en þeir, sem eru atvinnulausir, séu ekki tryggðir. Og ég er alls ekki á móti því, að þetta sé gert. Það er vissulega æskilegt, að það væri hægt, og það má líka telja vafalaust, að krafa um það kemur á eftir, og þá höfum við þá víðtækustu tryggingalöggjöf, sem þjóðir yfirleitt hafa, eftir því sem ég bezt veit, þó að í raun og veru verði ég að viðurkenna, að ég hef ekki þekkingu á þessum málum, en ég hygg þetta.

Það, sem ég benti enn fremur á í grg. minni, sem í raun og veru hefur orðið hinn mesti ásteytingarsteinn hjá ýmsum hv. þm., meðal annarra hv. þm. Barð., er það, að það þurfi tryggingamenningu og skólun fyrir þjóðina til þess að kunna að nota trygginguna eðlilega og heiðarlega. Ég hélt satt að segja, að þetta væri atriði, sem þeir, sem við tryggingarnar hafa fengizt, bæði hér og annars staðar, viðurkenndu almennt, og mér kemur það ákaflega óvart, ef það stendur á viðurkenningu hjá þeim, sem bezt þekkja til framkvæmda tryggingalöggjafar.

Það er blátt áfram barnaskapur að halda, að hér hafi verið um að ræða aðdróttanir til einhverra sérstakra manna, til sjávar eða sveita, heldur er hér um að ræða hluti, sem ekki eru óeðlilegir, því að hér er um svo mikið fjármagn að ræða, sem einstaklingar taka við, og við vitum það allir, að þó að þjóð okkar sé heiðarleg þjóð, kannske með þeim heiðarlegustu, þá er hún misjöfn eins og aðrar og ákaflega hætt við, að tryggingunni verði misbeitt eins og annars staðar. Og það er ekki hægt að neita því, að þegar við óskum eftir, að hægt sé að tryggja þjóðina gegn öllu því, sem hér er gert ráð fyrir í frv., og kannske fyrir meiru, þá er öllum ljóst, að erfitt er að koma í veg fyrir misnotkun þeirra og erfitt verður að ná þessu marki, sem menn vilja gjarnan ná. Það er t. d. vitað mál að síðan tryggingar þær komust á, sem nú hafa verið hjá okkur, hefur meðalanotkun aukizt svo mikið víða, að það er meira en góðu hófi gegnir. Þetta er ekkert launungarmál, þetta er álit margra lækna, sem eru miklu fróðari en ég um þessa hluti, og aðsóknin er svo mikil til læknanna, að þeim gengur erfiðlega að hafa tíma til þess að rannsaka til hlítar sjúkdóma, sem rannsaka þarf gaumgæfilega. Þetta eru skuggahliðar trygginganna. Ég er þó ekki að segja, að þetta séu svo miklir ágallar, að varna eigi því, að tryggingum sé á komið, en búast má við, að þessir gallar verði meira áberandi, ef ekki er séð fyrir því. Annars er komið inn á það í grg., að þessi skólun komi jafnhliða tryggingunum, með því að þjóðin ráði þessum málum, skilji, við hverju hún tekur, og noti það rétt, og má vera, að það megi deila um þetta, sem ég legg áherzlu á í grg., hvað rétt sé í því eða rangt. En ekkert kæmi það mér á óvart, án þess að ég vilji gerast spámaður í þessu máli, þó að við ættum eftir að reka okkur á þetta atriði, á það, að þjóðin sé e. t. v. ekki nægilega undir það búin að taka við svo mikilli gerbreytingu á tryggingamálunum sem nú á að gera. — Ég bendi á það enn fremur í þeirri rökstuddu dagskrá, sem ég ber fram, að ég tel, að ekki hafi verið nægilega rannsakað og rætt við þjóðina um fjárhagsgrundvöllinn undir þessum tryggingum. Það er miðað við fjárhag þjóðarinnar 1942 og 1943. Við getum ekki neitað því, að fjárhagur þjóðarinnar á þessum tíma var óvenjulega góður. Þessu neitar enginn. Hvernig sem fjármálum þjóðarinnar hefur verið stjórnað, snertir sú setning, sem hv. þm. Barð. var svo glaður yfir í grg., ekki stjórnarfarið út af fyrir sig. Því neitar enginn, að fjárhagur þjóðarinnar hefur verið góður bæði 1942 og 1943 og jafnvel fram undir þennan dag, þrátt fyrir lélega stjórn. Enn hefur ekki tekizt að eyða svo miklu, að afkoma þjóðarinnar sé ekki góð. En við þessa ágætu afkomu er grundvöllurinn undir tryggingunum miðaður. Ég segi ekki með því, að ef fjárhagsafkoma þjóðarinnar breytist, sem allar líkur eru til að verði, verði ekki hægt að halda uppi tryggingum fyrir því, eins og tekið er fram í grg. En ég fullyrði, að það mál er órannsakað mál, því að útreikningurinn er byggður á afkomu áranna 1942 og 1943, beztu ára þjóðarinnar, og ég álít satt að segja, að þetta atriði hefði þurft að rannsaka miklu nánar. Ég hef talað við einn þeirra manna, sem samdi þetta frv., og hann sagði: „Við fengum fyrst og fremst fyrirskipun um að semja fullkomið frv. Þetta er reiknað eftir afkomu áranna 1942 og 1943, en við fengum ekki fyrirskipun um að rannsaka fjárhagsgrundvöllinn að öðru leyti.“ Ég bendi enn fremur á það, að með þessu móti, að koma á þessum tryggingum, þá er þjóðartekjunum skipt mjög, og eins og ég hef tekið fram í grg., lasta ég ekki, að það sé gert. En á það má þó benda, að þegar þessum tryggingum hefur verið á komið og jafnframt atvinnuleysistryggingum, sem e. t. v. má gera ráð fyrir, að verði lögfestar á eftir, þá hefur verið framkvæmd í sjálfri tryggingalöggjöfinni svo mikil skipting á þjóðartekjunum, að ef afkoman versnar, þá hygg ég, að gera megi a. m. k. ráð fyrir — ég segi ekki að svo verði —, að gera þurfi verulegar, kannske gagngerðar breyt. á fjárhagskerfi okkar, til þess að þessi skipti verði framkvæmanleg. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Barð. hljóti að hugsa fyrir því, að þegar við setjum okkur visst mark, sem skiptir þjóðartekjunum milli einstaklinga, eins og gert er í þessu frv. og e. t. v. verður gert, ef atvinnuleysistryggingar verða einnig lögleiddar, þá leiði af hlutarins eðli, að ef versnar í ári, þá þarf, til þess að hægt sé að ná þessum tekjum til þess að skipta þeim milli einstaklinganna, e. t. v. að gera þær gerbreyt. á fjárhagskerfi okkar, sem e. t. v. er óæskilegt að gera, en tel þó rétt, að menn geri sér grein fyrir því fyrir fram. — Mér þykir mjög sennilegt, að með víðtækum tryggingum verði innan stundar einnig að fylgja mjög ýtarlegur áætlunarbúskapur og að jafnframt verði að koma í veg fyrir það, að mikill auður safnist á fárra manna hendur. Það kann að vera gott og ég mæli ekki á móti því, að settur verði slíkur rammi sem tryggingalöggjöfin er og neyðzt verði til að fylla upp í hann með því að gera þessar ráðstafanir, sem ég bendi á. Ég tel a. m. k. tvímælalaust, að menn verði að reyna að gera sér þess grein áður en þessi rammi er búinn til, hvernig sú mynd er, sem þarf að setja í hann. Og í þessu sambandi kem ég að því, sem minnzt var á í minni grg. af hv. þm. Barð., að hann telur, að ég hafi enga ástæðu til að fullyrða, að áætlunin, sem fyrir liggur, sé lág. Hann vill þvert á móti halda fram, að svo sé ekki, og vitnar þar til samtals við einn af þeim mönnum, sem undirbjó þessa löggjöf. En það vill svo vel til, að þegar farið var að ræða um þetta í n., þá spurðist hv. þm. Barð. einmitt fyrir um það, hvort vissa væri fyrir því, að áætlunin væri varleg. Og þá kom það í ljós, jafnvel eftir að því hafði verið haldið fram, að áætlunin væri varleg, að nm. stungu upp á því, að útgjöld ríkissjóðs væru bundin, sem átti að vera alveg ástæðulaust, ef áætlunin var varleg. Og það var svo langt frá því, að inn á það væri gengið að hafa útgjöld ríkissjóðs bundin, að það stóð lengi í samningum um það, hvernig þessu mætti koma fyrir. Margur vildi ekki hafa útgjöld ríkissjóðs ótakmörkuð, og niðurstaðan varð sú, að til viðbótar rúmum 20 millj., sem ríkissjóður á að leggja fram, er tekin ríkisábyrgð á allt að 15 millj. kr. útgjöldum að auki og gert ráð fyrir því mjög ákveðið, að til þess kunni að koma, að þetta þurfi að endurskoða, vegna þess að áætlunin fái ekki staðizt. Ég hef ekkert leyfi til þess að fullyrða það fyrir fram, að þetta fái ekki staðizt. En það er næst mér að halda, að líkur séu jafnvel fyrir því, að tryggingarnar kosti miklu meira en áætlað er í grg. frv. Ég hygg, að þegar komin er til framkvæmda sú heilsugæzla, sem ráðgerð er í frv., þá muni það koma í ljós, að útgjöldin verði miklu meiri en ráð er fyrir gert, enda gert ráð fyrir því, að ríkissjóður taki á sig 15 millj. kr. viðbótarábyrgð. Hér eru því, ég vil ekki segja sönnun, því að ég vil ekki nota þann málflutning, sem ekki fær staðizt, en hér eru líkur fyrir því a. m. k., að þeir, sem að frv. standa, treysti sér ekki til að binda sig við áætlaðar upphæðir, eins og þær liggja fyrir, heldur verði þeir að fá þetta til viðbótar.

Hv. þm. tveir, sem töluðu hér, minntust mjög á það, að ég hefði hvað eftir annað hrópað um kreppu og hrun, en allt gengi þó ágætlega enn þá. Ég hefði byrjað að spá þessu 1941, og ekki væri það komið enn. Þetta er hin mesta firra. Mér hefur ekki dottið í hug og dettur heldur ekki í hug enn að orða það, að kreppa í fjármálum muni koma meðan stríðsverðið helzt. Það var öllum fyrirsjáanlegt, þegar komið var fram í miðja þessa styrjöld, að verðlag hér mundi haga sér svipað og í næstsíðustu styrjöld. Og það var ekki það, sem við töluðum um 1941, að kreppa væri á næstu grösum, heldur hitt, að ef ekki yrði komið í veg fyrir verðbólguna meðan á styrjöldinni stæði, þá mundi koma kreppa stuttu eftir styrjöldina. Það var þetta, sem við bentum á. Okkur datt aldrei í hug að halda því fram, að kreppan kæmi 1941 eða 1942, meðan styrjöldin stæði, hefur aldrei dottið í hug að halda því fram, að hún kæmi á s. l. árum. En ég hef haldið því fram, að við værum smátt og smátt, með stöðugri verðhækkun og vaxandi verðbólgu, að búa okkur undir það að geta ekki tekið á móti verðfallinu, sem hlyti að koma eftir styrjöldina, þegar þjóðirnar hafa fyllt svanginn og við getum ekki lifað á því verði, sem við fáum meðan sulturinn sverfur að erlendis. — Ég get gengið inn á það með hv. 3. landsk., að það sé gott frá hans sjónarmiði að koma á tryggingum áður en allt fer í kaldakol, en það hlýtur það að gera, eins og bent hefur verið á, með þeirri fjármálastjórn, sem nú ríkir. Frá hans sjónarmiði er það alveg rétt, því að þá er búið að ákveða fyrir fram skiptingu þjóðarteknanna, sem þvingar menn inn á að standa við þessar skuldbindingar. En það er þó þetta, sem ég set út á þessa afgreiðslu, án þess að segja, hvort ég er honum ósammála um tryggingar eða ekki. Ég er honum ósammála um það að vera að smeygja snörunni á sjálfstæðismenn, ef svo mætti segja, án þess að þeir viti af því, hvað þeir eru að gera. Það má vera, að minn flokkur og margir þeirra, sem að standa, bæði þm. og kjósendur, væru reiðubúnir að gera þetta, samþ. þessa löggjöf sjáandi og vitandi það, hverjar yrðu afleiðingarnar, og standa við þær. Það má vera, að þeir mundu ganga inn á, að málið væri rætt, og menn gerðu sér ljóst, hvað hér er verið að gera. Því að það mun koma á daginn, þó að hv. þm. Barð. þyki það kannske einkennilegt og vilji ekki trúa því, að þegar harðnar í ári, verða tryggingarnar ekki framkvæmanlegar nema með gerbreyt. á fjármálakerfi okkar, og þess vegna finnst mér eðlilegt, að menn horfist í augu við veruleikann og vilji vita, hvað þeir gera, og geri þessar ráðstafanir samtímis og vitandi vits.

Ég skal svo að lokum koma aðeins örfáum orðum að fáeinum atriðum. Ég hef nú gert grein fyrir því með almennum orðum, hvers vegna ég lít svo á, að vél hefði mátt fresta afgr. þessa frv. nú á þessu þingi og taka það til umr. og athugunar þangað til næsta vetur. Það hefði t. d. verið tilvalið tækifæri í kosningunum að ræða málið, eftir að það hefur verið lagt hér fyrir, og ég fyrir mitt leyti er í engum vafa um, að þetta hefði verið miklu heppilegra fyrir málið. Og ef ekki hefði verið samið um að koma þessu máli fram fyrir kosningar, — og ég get vel skilið Alþfl. í því máli, að sá samningur verði haldinn, – þá fullyrði ég, að svona stórt mál, sem er frumsmíð, hefði verið lagt fyrir þetta þing og síðan rætt milli þinga. Þetta hefði verið sú bezta afgreiðsla, og svona mundi afgreiðslan áreiðanlega hafa verið undir venjulegum kringumstæðum.

En það er fleira en þetta, sem ég hef minnzt á. Ég verð þess var, að hv. þm. Barð. hefur nú tekið aftur, að hann segir til samkomulags, ýmis þau atriði, sem hann er sáróánægður með í frv., og hefur hann meira að segja tekið aftur brtt., sem hann ætlaði að gera um atriði, þar sem hann lýsti yfir í n., að hann gengi aldrei með frv., ef ekki fengjust þær breyt. fram, sem voru fleiri en ein og fleiri en tvær. Ég nenni því hins vegar ekki að fara að munnhöggvast hér við þennan hv. þm., þó að hann gusaði úr sér við komandi grg. minni. Ég nenni því ekki í kvöld og læt það bíða þangað til seinna. Hann lýsti yfir því, og ég ætla ekki að ráðast á hann fyrir það, að ekki kæmi til mála, að hann fylgdi frv., ef þessar breyt. fengjust ekki gerðar. En hann sagði: „Það hefur verið samið um þetta, og ég er bundinn við þá samninga,“ og get ég vel skilið, að hann beygi sig fyrir þessu. En ég geri mér vonir um það, að ef þetta frv. yrði rætt og reynt að ná samkomulagi, þá fengist þessum atriðum breytt, t. d. atriðinu, sem kom fram í 14. gr. frv. Við vorum sammála um það í n. ýmsir, að ekki væri gott að flokka þjóðina niður í tvo flokka, og ég segi ykkur það satt, að þjóðin verður ekki lengi ánægð með þetta. Hv. þm. lýsti yfir því, að hann gengi ekki að frv. nema þetta væri gert. En vera má, að það hafi verið af einhverjum praktískum ástæðum. — Svo kemur enn fremur upphæð lífeyrisins. Það er ákaflega vafasamt og meira en það, hvort rétt er að hafa lífeyrinn misjafnlega háan eftir því, hvort um hjón eða einstaklinga er að ræða. Nú er það svo samkv. 15. gr. frv., að hjón eiga að fá lægri lífeyri, ef þau búa saman, en ef þau búa ekki saman, fá þau hærri lífeyri. Þetta kemur einkennilega út. Ef fólk er orðið 67 ára, verður það að skilja, ef það vill fá fullan lífeyri á þessum aldri. Við vorum allir sammála um, að þetta næði ekki nokkurri átt. Hvaða sanngirni mælir með því, þegar hjón eru orðin 67 ára og geta ekki unnið mikið, að framfærsla þeirra sé svo miklu ódýrari, þó að þau búi saman? Það var a. m. k. ekki hægt að sannfæra okkur um, að greiða ætti í slíkum tilfellum lægri lífeyri en til einstaklinga. — Ég skal nú fara fljótt yfir þessi atriði. Varðandi 34. gr. vorum við sammála um, að einkennilegt væri að greiða ekki til kvenna, sem vinna innan heimilisins og vinna heimilisstörf eftir barneignina. Hvers vegna eigum við að meta konur, sem vinna á heimilunum, lægra en þær, sem vinna utan heimilanna? Við vorum sammála um, að þetta kæmi ekki til mála. — Þá kem ég að 42. gr., þar sem talað er um dagpeninga til giftra kvenna. Hvers vegna á að gera mun á þessu, giftum konum og öðru fólki, og borga þeim enga dagpeninga nema maðurinn geti ekki unnið fyrir konunni. Við vorum sammála um, að við gætum ekki gengið inn á þetta. — Þá eru það 44. og 45. gr., svo að tekin séu aðeins höfuðatriðin. Þar er kveðið svo á, að t. d. þeir, sem búa á Eyrarbakka, fái dagpeninga, er þeir hafa verið veikir í 8 daga, en t. d. Stokkseyringar eftir 28 daga. Og þeir, sem búa t. d. í Laugardælum, rétt fyrir ofan, fá ekki dagpeninga fyrr en eftir 28 daga. Það á að búa til cirkus utan um lækninn, 10 km, þannig að þeir, sem hafa þau hlunnindi að hafa lækni, eru tryggðir eftir 8 daga, en hinir, sem búa lengra í burtu, eru ekki tryggðir fyrr en eftir 28 daga. Við vorum sammála um það, að slík ákvæði í löggjöfinni gætum við aldrei samþ. og að það stæði í vegi fyrir samþ. frv., ef ætti að halda því til streitu. Ég vænti þess satt að segja, þó að ég nefni ekki nema þessi dæmi til viðbótar þeim rökum, sem ég hef hér fært fram, að þm. sjái, að ég, sem er ekki bundinn af neinum samningum, hlýt með tilliti til þeirrar rangsleitni, sem ég hef sýnt, að farið er fram á í frv., m. a. í sambandi við 10 km cirkusinn utan um lækninn og fleiri atriði, — þá hlýt ég að gera mér vonir um, að ef þetta mál væri ekki afgreitt í flýti, þá mundi koma í ljós, að okkur er ekki óhætt að samþ. frv. svona. Og ég held, að ef það væri sent til þjóðarinnar og rætt meðal hennar, þá mundu þm. gera sér ljóst, að það er ekki hægt að ganga frá málinu svona. E. t. v. má segja, að hægt sé að prófa sig áfram á þennan hátt og hafa þetta svona til að byrja með. En þegar þetta er einu sinni orðið að l., getur orðið erfiðara að breyta því heldur en að setja skilyrði strax. Og þess vegna er það, að afstaða mín, með tilliti til þeirra raka, sem ég hef fært hér fram, er fullkomlega eðlileg. Ég vænti þess, að hv. þm. sjái, að eina eðlilega afstaðan í þessu máli er einmitt sú, sem ég hef tekið. Ég er líka sannfærður um það, að hv. þm. Barð. er ekki ákveðinn í að fylgja málinu eftir á þennan hátt, og að hann þarf bara til samkomulags að beygja sig fyrir þessu. Ég er ekki bundinn af slíkum stjórnarsamningum og get ekki verið samþ. því, sem er rangt, og þarf ekki að vera það.

Þá vil ég segja það í sambandi við þennan 10 km cirkus læknisins, að hv. 3. landsk. sagði eitthvað á þá leið, að það bæri ekki að skilja þetta svo, að endilega þyrfti að binda þetta við ákveðna vegalengd. En það hlýtur að vera ljóst öllum, að ef gera á einhvern mun á því, hvort menn fá dagpeninga, eftir því, hvar þeir búa, er ekki hægt að framkvæma l., ef framkvæma á eitthvað annað en það, sem stendur í l. Slíkt hlyti að leiða af sér eintómt handahóf. Á það að vera 1 km? Eiga það að vera 12 km? Öllum er ljóst, að slíkt er með öllu óframkvæmanlegt nema binda sig við ákvæði l., sem allir sjá náttúrlega, að er hreinasta fjarstæða. Og það get ég sagt ykkur, að þótt ekki væri öðru til að dreifa en þessu einasta atriði, yrði það eitt út af fyrir sig þess valdandi, að tryggingarnar yrðu aldrei vinsælar meðal þjóðarinnar. Þjóðin þolir ekki misrétti eins og þetta, og ég er undrandi yfir því, að þeir, sem vilja tryggingunum vel, skuli ætla sér að samþ. l. í þessu formi. — Ég hlýt þess vegna að koma fram með brtt. við 3. umr. þessa máls, og af alveg eðlilegum ástæðum hlýtur einnig atkvæði mitt að fara eftir því, hvort þetta grundvallarranglæti, sem ég hef bent á, verður leiðrétt eða ekki.

Ég sé svo ekki ástæðu til að minnast á þetta nánar. En ég kenni því beinlínis um, að þetta mál er afgr. nú, að samið var um það á einni kvöldstund, að það skyldi afgr. fyrir kosningar. Og ég kenni því beinlínis um, að þetta mál fær ekki nægilegar umr. og ekki nægilegan tíma til að tala um það, að gert skuli vera ráð fyrir að afgr. það á þann hátt sem nú er gert ráð fyrir. Með þeim orðum lýk ég máli mínu og vænti þess, að það ætti að vera hv. þm. ljóst, að ekki er óeðlilegt, þó að ég beri fram aths. við frv., sem á að fá slíka afgreiðslu.