13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

139. mál, almannatryggingar

Bjarni Benediktsson:

Ég vildi nú taka undir með hæstv. ráðh. og þakka n. fyrir mjög mikið starf, sem hún hefur lagt í þetta mál, og ber mér ekki sizt að gera það, þar sem ég að réttum lögum var nm., en varð að víkja úr n. og meðferð þessa máls, af því að ég sá fram á, að störfin voru svo mikil, að ég gæti ekki annað þeim á þessum tíma sem skyldi, og varð því að ráði, að hv. þm. Barð. tæki sæti í n. í minn stað. Vil ég þakka honum sérstaklega fyrir þann óvenjulega dugnað, sem hann hefur sýnt í að setja sig inn í þetta mál og gera það ljóst, bæði fyrir okkur flokksmönnum sínum og fleirum, og. færa ýmis atriði til betri vegar. — Að öðru leyti skal ég ekki blanda mér í þær umr., sem hér hafa farið fram, og ekki ræða málið í heild á þessu stigi, heldur aðeins bera fram nokkrar aths. út af tilteknum gr., svo sem tíðkast að gera við 2. umr. máls.

Það er þá fyrst fyrirspurn út af 17. gr., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ef ellilífeyrisþegi þarfnast sérstakrar umönnunar sökum sjúkleika eða ellilasleika og getur því eigi komizt af með þann lífeyri, sem er ákveðinn í 15. og 16. gr., getur Tryggingastofnunin hækkað lífeyri hans, samkvæmt umsókn, um allt að 40 af hundraði eða séð honum fyrir vist á elliheimili.“ Ber þá að skilja þetta svo, að Tryggingastofnunin eigi þá að standa undir öllum kostnaði af dvöl hans á elliheimilinu? Þetta hefur þýðingu t. d. varðandi vist á elliheimilinu hér í Rvík, sem er svo dýr, að venjulegur ellilífeyrir hrekkur ekki til, og hefur þurft umframúthlutun til þeirra, sem þar hafa dvalið. Og þá er spurningin, hvort Tryggingastofnunin ætlar sjálf að greiða það, sem þar er umfram, eða ætlunin er, að sveitarsjóðirnir eigi að standa undir þessu. Ég skil ákvæði 17. gr. svo, að það sé Tryggingastofnunin, sem ætli sér að standa undir þessu.

Þá vildi ég aðeins minnast á fyrirmæli 116. gr. varðandi skiptingu gjalda milli sveitarfélaga. Ég sé nú hér í grg. frv., að þar er sagt, með leyfi hæstv. forseta : „Það hlýtur ávallt að vera álitamál, hvernig skipta beri útgjaldaupphæð sem þessari á öll sveitarfélög landsins. Svipaða skiptingaraðferð, þó í öðrum tilgangi sé, er að finna í framfærslulögunum.“ Ég hef nú skilið þetta svo, að skiptingarreglurnar væru þær sömu, en við athugun sé ég, að svo er ekki. Ég sé ekki annað sameiginlegt með þessu en það, að í báðum tilfellum er skipt á milli sveitarfélaga og reglur settar um það. Ég vildi nú spyrja, af því að nokkur reynsla er fengin fyrir því, hvernig 8. kafli framfærslulaganna hefur gefizt, 75. gr. þeirra l., hvort ekki mundi vera eðlilegt að hafa þá skiptingu, sem þegar er fengin reynsla fyrir, frekar en að taka upp nýja skiptingu. Og ég verð að segja, að ég sakna þess, að í grg. skuli ekki vera nokkur nánari skýring á því, hvernig þessi skipting verkar. Ég hefði talið mjög æskilegt, að tekin væru dæmi um það, hvað mikinn hluta kaupstaðir, þar á meðal Reykjavík, mundu þurfa að greiða af þeim gjöldum, sem hér um ræðir, og að einnig væru tekin fleiri sveitarfélög sem dæmi, svo að menn geti gert sér grein fyrir því. Ég er ekki svo glöggur, að ég geti reiknað þetta út, en vildi spyrja hv. frsm., hvort um þetta væru skýringar fyrir hendi. Og ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að mér sýnist, að samkv. þeim skiptingarreglum, sem eru í 116. gr., þá sé allmikið lagt upp úr skattskyldum tekjum einstaklinga og félaga, þar sem skipta skal tveimur fimmtu hlutum framlagsins í hlutfalli við skattskyldar tekjur einstaklinga og félaga í umdæminu samkv. síðasta skattaframtali. Þetta væri sanngjarnt, ef það væri sams konar skattaframtal, sem tíðkaðist um allt land. Nú vitum við, að það er eingöngu í stærstu kaupstöðunum, sem verulega er gengið eftir skattaframtölum. Strax í minni kaupstöðum og kauptúnum verður þetta allt töluvert veikara, og er ég ekki að segja það af fjandskap við sveitirnar, heldur vitum við allir, að skattaframtöl í sveitum eru með töluvert öðrum hætti og miðuð við aðrar reglur en í kaupstöðum. Hér er ekki um sambærilegt mat að ræða á öllum stöðum, og sé ég, að mælikvarðinn er sundurlaus og ekki sanngjarn. Væri hér betra að taka inn í frv. reglur úr framfærslul. Ég bendi á þetta, en það er máske erfitt að gera grein fyrir þessu.

Ég hreyfi því, að það væri eðlilegt, að Tryggingastofnunin tæki að sér innheimtu á barnsmeðlögum í stað sveitarfélaganna, og ég er andvígur því að dreifa ábyrgðinni um of. Eins verð ég að segja það, að ég er hræddur við 111. gr. frv. vegna sveitarfélaganna og finnst þetta vera of mikill og þungur baggi á þeim, og mér finnst, eins og hv. þm. Barð. sagði, ekki nógu vel búið um endana. Það er erfitt að ganga frá þessu án veilu, og ég mun ekki bera fram brtt., en bendi á annmarkana, sem sýnilegir eru.

Ég vil benda á, að við gildistöku l. þessara hlýtur hluti starfsmanna við framfærslumál að verða óþarfur, og þá einkum hér í Rvík, og mér er ljóst, að það lítur út fyrir, að fækka þurfi þeim um helming, en nú eru þeir 14, ef þessi l. gefast eins vel og gefið er í skyn. Í sambandi við það, ef Tryggingastofnunin yfirtekur þessi mál, þá vil ég beina þeirri spurningu til hv. frsm., sem nú er framkvæmdastjóri stofnunarinnar hvort það gæti ekki hugsazt, að þessir menn sætu fyrir með störf hjá Tryggingastofnuninni, og það ætti nú að vera eðlilegast, að stofnunin réði til sín fólk, sem er vant að vinna að þess konar málefnum, eða svipuðum. — Að öðru leyti orðlengi ég þetta ekki frekar, en þætti vænt um að fá hér upplýsingar hjá hv. frsm.