13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (3185)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson) :

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. neitt að ráði, en vil fyrst segja nokkur orð viðvíkjandi þessum tryggingum almennt og get svarað í senn þeim hv. 3. landsk. og hæstv. dómsmrh. Þeir tala um áhuga sinn fyrir þessum tryggingum og andstöðu mína. Ég get fullyrt með vissu, að þetta lægi ekki hér fyrir, ef ég hefði ekki lagt hönd að undirbúningi þess. Það var stöðvað, vegna þess að einn ágætur Alþýðuflokksmaður lagði til, að undirbúningur þess yrði stöðvaður, en ég og hv. 3. landsk. fórum til hæstv. ráðh. og báðum um að fá að halda undirbúningnum áfram. Ég hef aldrei verið á móti því að koma á heilbrigðu tryggingakerfi, eins og þetta bendir til. Hæstv. ráðh. gerði það fyrir okkar orð að halda þessu áfram. Ég held því, að þessar staðhæfingar hæstv. dómsmrh. séu rangar og hafi ekki við nein rök að styðjast. Annars ætla ég ekki að fara að þræta um þessi mál. — Þá sagði hv. 3. landsk., að það væri einkennilegt af dómara að vilja bregða fæti fyrir frv. vegna þess, að honum þætti mörg ákvæði þess gölluð. Þessa röksemd get ég ekki fallizt á. Við höfum ekki fengið að heyra nein rök fyrir því, að biðtíminn eigi að vera mislangur fyrir landsmenn. Ég hef ekki heyrt þá röksemd og tel, að hv. 3. landsk. geti ekki sannfært neinn um, að það sé vítavert, þótt dómari vegna galla á frv. vilji láta ræða það nánar og ná samkomulagi um sjálfsagðar greinar þess. — Ég mótmæli þeirri staðhæfingu, að l. verði misnotuð af sveitafólki, þótt biðtíminn væri sá sami. Það er ekki vegna þess, að ég vilji ekki breyta tryggingunum, að ég get ekki fallizt á þetta, heldur vil ég fá þetta leiðrétt um leið og frv. verður samþ.

Þá vildi ég minnast á eitt, sem fór fram hjá mér, en hv. 3. landsk. minntist á, en það er, hvernig hann ætlar að fyrirbyggja, að þeir, sem greiða iðgjöld á lægra verðlagssvæði, flytji á verðlagssvæði, þar sem iðgjöldin eru hærri. Engin leiðbeining kom fram um það, hvernig gera ætti mögulegt að hafa tvö verðlagssvæði. Nú færist stöðugt í það horf, að kaupgjald sé samræmt um allt land og framfærslukostnaður verði jafnari. Það yrði því ómögulegt að varast rangsleitni. Hins vegar kom það fram í n., að ef eitt verðlagssvæði væri, þá ykist kostnaðurinn við framkvæmd l. um 6–7 millj. kr., en aðeins 3 millj. kr. ynnust. Það er vitað, að ef ekki er ákvæði í l. um, að biðtími sé misjafn, þá hækka iðgjöldin. — Það er eitt atriði hér, sem vert er að athuga og gengið hefur verið fram hjá í umr., en það er ákvæði 17. gr. Það var mikið rætt í n. um að þá heimild, sem þar er, væri ógerningur að framkvæma, nema „qualificeraður“ meiri hl. væri fyrir hendi í Tryggingastofnuninni eða allt tryggingaráð samþ. hana. Og að því er ég hef heyrt eftir mönnum, sem unnið hafa í stofnuninni, um atkvgr. þar, þá er ég sannfærður um, að ógerningur er að veita þessa heimild. Hv. þm. Barð. sagðist aldrei ganga inn á heimildina nema allir í ráðinu væru sammála. Ráðgert er, að heimildin geti kostað hátt á þriðju. millj. kr. Það er því ekkert smáræðisvald, sem meiri hl. hefur, ef hann á að ráða og hann veitir undanþágur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka hér röksemdir mínar úr fyrstu ræðu minni. Reynslan verður að skera úr því, hvort ég eða hv. 3. landsk. hafi haft á réttu að standa. En ég. vil að lokum minnast á þá staðhæfingu hv. 3. landsk., að enda þótt þetta frv. væri staðfest, þá sé ekki kallað á „sósíalíseringu“. Hann gerði mikið úr því, að hér væri ekki verið að setja snöru á Sjálfsafl. Hann viðurkenndi að vísu, að ef atvinnuleysistryggingum yrði bætt við, þá yrðu þær naumast framkvæmdar nema með áætlunarbúskap. En þessar tryggingar og atvinnuleysistryggingar verður ekki hægt að standa við, ef harðnar í ári, nema koma á áætlunarbúskap.

Í þessu máli hefur þessi hv. þm. beitt kænsku eins og slyngur veiðimaður, sem er að eiga við óþekka gripi. Við getum seinna rætt um það, hvort afleiðingarnar verða ekki eitthvað á þá leið, sem ég hef bent hér á. Ég hygg, að reynslan muni skera úr því. En það verður ekki hægt að halda tryggingunum gangandi nema „sósíalísering“ komi til. En ég álít, að menn verði að gera sér grein fyrir þessu fyrirfram. En það á ekki að byrja aftan á verknaðinum, eins og hér er gert.

Ég skal svo láta útrætt um málið, til þess að tefja ekki fyrir atkvgr.