13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (3186)

139. mál, almannatryggingar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég vildi sízt af öllu verða til þess að tefja tímann að óþörfu. En ég læt þó í ljós undrun mína yfir vinnubrögðum þeim, sem hér hafa verið viðhöfð. Nú er að ljúka lengsta þingi í sögunni. Aðeins mun einu sinni hafa verið haldinn fundur á laugardegi, og þá var aðeins stuttur fundur í Sþ. En nú hefur ekki einungis verið haldinn fundur á laugardag, heldur er haldið áfram á sunnudag. Þetta mun standa í sambandi við yfirlýsinguna um að ljúka þingi fyrir páska og löngunina til að kenna vantrauststill. um, ef svo verður ekki.

Einnig hefur því verið lýst yfir, að lokið verði við afgr. þessa máls fyrir páska. En slíkt er ekki hægt, ef þm. eiga að geta kynnt sér málið, því að vitanlega er ekki hægt að afgr. þetta fyrir páska með nokkurri gát á jafnstuttum tíma og nú er þangað til. En þetta vildi ég aðeins segja um meðferð málsins. Ég mun þó að sjálfsögðu beygja mig undir vilja meiri hl. og get vakað eins og aðrir. En þar eð málið hefur verið lítið upplýst, þrátt fyrir þessar umr., þá vil ég beina einni spurningu til hv. frsm. meiri hl.: Hvaða ástæða er til þess að skipta landslýðnum niður í tvo flokka, þannig að annar hefur meiri rétt en hinn, þó að skyldurnar séu að vísu í réttu hlutfalli þar við? Ég á við 14. gr., um að skipta landinu í tvö verðlagssvæði. Þetta kann að hafa átt rétt á sér á fyrri árum, að þá hafi verið dýrara á 1. verðlagssvæði, en nú mun það úr sögunni. Auk þess sem hv. þm. Str. benti á, að þeir, sem við meiri örðugleika eiga að etja, hafa minni rétt en hinir, sem betri aðstöðu hafa. Hv. 3. landsk. réttlætti þetta með því, að betra væri að hafa eftirlit með þeim, sem væru nær lækni. En ég álít, að miða beri að því að tryggja þeim, er fjær búa, jafngott lækniseftirlit. Ég vil benda á það, að enn er svo í l., að persónufrádráttur við skattaframtal er misjafn, eftir því hvar er á landinu. Einnig í þessu er grundvöllurinn annar en áður var. Þetta þyrfti fremur endurskoðunar við en hliðstætt ákvæði sé tekið upp hér í frv.

Hv. frsm. fór mörgum orðum um það, að dagskrártill. hv. þm. Str. væri sama sem að vísa málinu frá og það fyrir alla framtíð. En eins og hv. þm. Str. benti á, þá gætu þau réttindi, sem koma til gagns borgurunum, gengið í gildi nákvæmlega á sama tíma, þó að frv. verði ekki afgr. á þessu þingi. Ég vildi spyrja, hvaða gagn væri eiginlega í því að keyra málið í gegn á svona stuttum tíma með lítilli athugun, en réttindin kæmu til framkvæmda jafna hvor leiðin yrði farin? Ég hef ekki fengið það fram, hver munur væri á því, að frv. væri samþ. í apríl 1946 eða í nóvember 1946. Sá er þó munur, að ef dregin væri afgreiðsla málsins, hefði mátt athuga ýmis atriði þess vandlegar. Ég hef heyrt bæði hv. frsm. og hv. þm. Barð. segja, að ýmis atriði væru mjög flókin og þyrftu endurbóta við síðar. En einmitt þeim mun meiri nauðsyn er á því að athuga málið betur. Ég teldi gott, að þm. fengju að vita það, hvers vegna þörf er á því að afgr. málið nú, með margföldum afbrigðum.

Ég sagði í upphafi máls míns, að ég ætlaði ekki að tefja tímann hér með langri ræðu. En aðeins eitt atriði vildi ég fara nokkru nánar út í. Ég er hræddur um, að enda þótt tekjur almennings séu meiri nú en áður, þá muni samt mörgum reynast erfitt að greiða þau iðgjöld, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er víst, að þó að frv., ef að 1. verður, veiti borgurunum mikil fríðindi, þá muni samt mörgum veitast erfitt að greiða þessi gjöld, enda þótt þeim væri það ljúfara en með ýmis önnur gjöld. Svo er fyrir mælt, að ef ekki verði hægt að fá greidd gjöldin,, þá greiði viðkomandi sveitarfélag þau, en það mundi þá leiða af sér hærra útsvar.

Einnig vil ég geta þess, úr því ég kvaddi mér á annað borð hljóðs, að ef dagskrártill. hv. þm. Str. verður felld, þá mun ég greiða atkv. með 7. og 8. brtt. hv. 4. landsk., sem gengu út á það að lækka nefskattinn á hvern einstakling, en hafa hina tilhögunina, sem nú tíðkast, að nokkur hluti iðgjaldanna fari eftir tekjum manna. Ég vil þó ekki segja, að þessar till. séu í fullu samræmi við eðli trygginga, en samt held ég, að þessi tilhögun sé nauðsynleg, til þess að frv. verði framkvæmanlegt.

Hv. þm. Barð. sagði hér áðan, að hallæri mundi verða, ef Framsfl. yki fylgi sitt við næstu kosningar, og jafnframt sagði hann, að sú auðjöfnun, sem orðið hefur, væri að þakka núv. ríkisstj. En mér sýnist alls ekki vera um neina auðjöfnun að ræða, heldur aðeins minnkandi auð. Náttúrlega þakka ég ekki heldur fyrrv. ríkisstj. þann auð, sem við höfum safnað. Það eru utanaðkomandi öfl, sem þar hafa átt hlut að. En það er þó áreiðanlega eins sanngjarnt og sanngjarnara að þakka þetta þeirri stjórn en þeirri, sem nú situr. Ég held því, að það væri hollast fyrir hv. þm. Barð. að vera ekkert að slá um sig með þess konar ummælum, að við eigum núv. ríkisstj. allt að þakka.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að Framsfl. fái hreinan meiri hl. á Alþ. eftir kosningar. Þess vegna má búast við, að núv. stjórnarsamvinna haldist. En ef við hv. þm. Barð. eigum báðir hér sæti að 3–4 árum liðnum, þá getum við kannske rætt um auðjöfnun ríkisstj.