13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

139. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Ég get verið stuttorður að þessu sinni. Ég vil aðeins benda á það viðvíkjandi því, sem hv. 4. landsk. sagði, að ef bæta ætti upp mæðrastyrkinn, veitti ekki af að fella niður allar fjölskyldubæturnar, og svo verður hv. 4. landsk. að gera sér það ljóst, að verði brtt. hans samþ., bylta þær um þeim grundvelli, sem frv. er byggt á, og stofna málinu í hættu. Vil ég láta það koma hér fram nú, að ég tel mig og Sjálfstfl. óbundinn í þessu máli, ef horfið verður frá þeim grundvelli, sem um var samið.

Ég skal svo geyma all næstu umr. að svara því, sem hv. þm. Str. og hv. þm. Eyf. beindu til mín. Ég vil taka það fram, að þótt ég hafi fallizt á afgreiðslu, sem þetta mál fékk í n., fyrir hönd míns flokks, þá er ég persónulega óánægður með margt, eins og fram kom í ræðu minni í dag.