13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (3189)

139. mál, almannatryggingar

Bjarni Benediktsson:

Ég vildi einungis mótmæla hinum þrálátu ummælum hv. þm. Str., um að samþykkt þessa frv. hlyti að hafa í för með sér víðtæka „sósíalíseringu“. Þessi ummæli hv. þm. túlka einungis skoðanir hv. þm. Str. á því, hvaða skilyrði það eru, sem skapa góðan efnahag hjá þjóðfélagsþegnunum, en góður efnahagur er vitanlega skilyrði fyrir framkvæmd þessara l. En hvort hann fæst með þjóðnýtingu eða frjálsu framtaki einstaklingsins, um það stendur deilan í stjórnmálum landsins. Af ræðu hv. þm. Str. varð ekki skilið annað en hann teldi, að þjóðnýting væri skilyrði fyrir góðum efnahag og þjóðfélagslegu öryggi. Við sjálfstæðismenn álítum aftur á móti, að almenn hagsæld og öryggi sé bezt tryggt með hinni frjálsu samkeppni.