16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (3198)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Ég á hér brtt., sem ekki eru margbrotnar, og sízt af öllu þarf ég að hafa um þær langt mál, vegna þess að þær hafa verið ræddar áður í meginatriðum við 2. umr. — Það eru þessi ákvæði 42. gr., sem gera mun á hinum tryggðu mönnum eftir því, hvar þeir eru búsettir, hvort sem þeir eru atvinnurekendur eða launþegar. Ég hef áður lýst yfir því, að ég get ekki fallizt á það fyrirkomulag, sem var eftir 2. umr. Ég undanskil það, að eftir brtt. meiri hl. n. er gerð nokkur bót, þannig að menn eru jafnt settir, hvar sem er á landinu. En hins vegar er eftir sem áður gerður munur á því, hvort menn eru atvinnurekendur eða launþegar. Ég vil heldur, að settar verði ákveðnar reglur um það, hve miklu þurfi að vera sleppt af daggjöldum. Ef það er sannanlegt, að atvinnurekendur hafi tapað tekjum, þá gildi um þá sömu reglur og með launþega, t. d. einyrkja, sem tapað hefur atvinnutekjum sínum vegna veikinda. — Um þetta virðast vera skiptar skoðanir, en það ætti þó ekki að þurfa að vera. En atkvgr. sker úr um þetta. Ég fæ trauðla séð, að hægt sé að koma með sterk rök fyrir því, að einyrkjar eigi að vera öðruvísi settir en launþegar, er þeir missa tekjur sínar vegna veikinda.

Brtt. 1–2 við 44. gr. leiða af sér aðra brtt. Hún er um það, eins og hún ber með sér, að 107. gr. breytist þannig, að persónuiðgjöld lækki o. s. frv. Sams konar ákvæði er í núgildandi tryggingalöggjöf, og hefur þetta atriði verið mikið rætt og mælir mikið með því, að tekna sé aflað á þennan hátt. Annars er það svo með þessa löggjöf, að hún er ekki hrein tryggingalöggjöf, og er því sanngjarnt, að tekna sé aflað á þennan hátt. Ég hef ekki orðið var við það, að menn hafi verið óánægðir með þetta atriði í núgildandi löggjöf.

Um brtt. þær, sem hér liggja fyrir frá meiri hl. n., vildi ég segja það, að við samanburð á stuttum tíma virðast mér þær til bóta. En einkum við I. kaflann finnst mér þær bera þess merki, að samkomulag hefur verið gert, a. m. k. tveggja aðila, og hefur formaður tryggingaráðs vald, er nálgast vald forstjóra stofnunarinnar, og eru þannig að nokkru leyti 2 forstjórar, samkv. kröfu frá Sjálfstfl. — Ég vil segja það, að eins og frv. kemur til með að verða eftir að brtt. meiri hl. verða samþ., þá tel ég mikla galla á frv. í heild. En þeir gallar eru fyrst og fremst, að verðlagssvæðin skuli vera tvö. 17. gr. er líka mjög gölluð, eins og hún er nú. Einnig munur sá, sem gerður er á atvinnurekendum og launþegum og konum, hvort þær vinna utan heimilis eða innan. En ástæðan fyrir því, að ég ber ekki fram brtt. við önnur atriði frv., er sú, að það kom í ljós hjá hv. þm. Barð., sem taldi upp mörg óánægjuatriði, að þótt hann gæti ekki fylgt frv. ef þessi atriði væru samþ., þá hefði hann orðið að standa með því, og því var þýðingarlaust fyrir mig að koma með brtt. í þessa átt, þar eð þær hefðu fyrirsjáanlega ekki náð fram að ganga, þar eð Sjálfstfl. hefur horfið frá að fylgja þeim. Ég vil því ekki lengur tefja afgreiðslu málsins. En ég gerði mér vonir um það, að helzt væru líkindi til þess að fá áðurgreindum atriðum framgengt.