17.04.1946
Neðri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (3207)

139. mál, almannatryggingar

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. Það orkar ekki mjög tvímælis, að frv. það, sem hér er til umr., sé eitt af þýðingarmestu málum þingsins. Öllum er kunnugt, hvernig þetta mál er til komið, og með frv., sérstaklega eins og það lá fyrir, þegar það var flutt í Ed. á þessu þingi, var gengið mun lengra í öryggismálum þjóðarinnar en áður hefur verið hér á landi. Það fer ekki hjá því, að meðferðin í Ed. hefur ekki aukið þetta félagslega öryggi, sem frv. hafði upphaflega upp á að bjóða. Ed. hefur gert á frv. nokkrar breyt., og þær allflestar sem máli skipta, frekar til skaða en bóta. Þ. á m. t. d., að flestallar mæður skulu njóta sömu hlunninda og ekkjur með börn. Ég fæ ekki skilið þessa afgreiðslu hv. Ed., að þeir, þó að nú þurfi að fara að draga úr útgjöldunum, skyldu einmitt bera niður á þessum lið. — Annar liður, sem felldur hefur verið niður, jarðarfarastyrkurinn, hefur raunar alltaf verið hégómi. Eins og nú er, er okrað á jarðarförum, og hefði því þessi lági styrkur komið að litlu gagni. Virðist miklu heppilegri leið, að hið opinbera beiti sér fyrir því, að þessu okri verði af létt. — Tillag til atvinnustofnunarinnar var fellt niður, og er það ekki til bóta. Raunar má segja, að þetta tillag, sem átti að veita til hennar, hefði skammt hrokkið, ef atvinnuleysi hefði skollið á.

Ekknastyrkurinn var felldur niður, og það finnst mér hin mesta meinsemd, sem hv. Ed. hefur valdið þessu frv., þar sem hér eiga hlut að máli þeir þjóðfélagsborgarar, sem einna erfiðast eiga uppdráttar, ekkjur með börn, og gerir þetta þeim mjög erfitt að hafa í sig og á. Enda hefur þessi breyt. á frv. þegar vakið andúð, og Alþ. hafa þegar borizt bréf um þetta efni. Ég hef hér í höndum bréf frá mæðrastyrksnefndinni í Reykjavík og annað bréf, undirritað af nokkrum þjóðkunnum konum, og einnig bréf, sem kvenréttindafélagið sendi. Öll þessi bréf eru á einu máli um það að vita þessa breyt., sem Ed. hefur gert á þessu. Ég skal nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa bréfið frá kvenréttindafélaginu. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Kvenréttindafélag Íslands hefur áður sent Alþ. mótmæli gegn breyt., er samþ. hefur verið í Ed. þingsins á frv. um almannatryggingar.

Nú höfum vér síðan leitað álits ýmissa þekktra kvenna úr ýmsum flokkum og þá helzt formanna kvenfélaga og kvenfélagasambanda, og leyfum vér oss að senda hinu háa Alþingi nefnt mótmælaskjal. Vér þorum að fullyrða, að ef tími hefði unnizt til að leita til kvenna almennt, mundi skjalið nú vera undirritað, ekki aðeins af nokkrum konum, heldur þúsundum kvenna um land allt.“

Ég ætla ekki að þreyta menn á að lesa hin bréfin, en vildi ekki láta hjá líða, að menn sæju, hversu mjög er vanhugsuð þessi breyt., sem Ed. hefur gert á frv., og vænti ég, að Nd. sjái sóma sinn í að laga það.