23.04.1946
Neðri deild: 117. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

139. mál, almannatryggingar

Páll Zóphóníasson:

Ég á hér brtt. á þskj. 937 og vil leyfa mér að fara um þær nokkrum orðum. 1. brtt. er við 11. gr. Eins og þetta er hugsað í frv., er ætlazt til, að í hverju umdæmi séu í rauninni tvenns konar n., eða a. m. k. einhvers konar stofnun, sem hafi tvenns konar verk með höndum. Það er ætlazt til, að önnur þeirra sé kosin af hreppsnefndum eða sveitarstjórnum og hún beri fyrir brjósti hina tryggðu. Samhliða því er ætlazt til þess, að Tryggingastofnunin komi upp skrifstofum eða hafi fulltrúa í umdæmunum, sem sjái um hagsmuni Tryggingastofnunarinnar. En í staðinn fyrir að hafa þessar tvenns konar n. eða stofnanir starfandi í hverju umdæmi legg ég til, að n. sé aðeins ein og sé kosin þannig, að tveir nefndarmenn séu kosnir af hreppsnefndum; tveir skipaðir af tryggingaráði og oddamaður skipaður af ráðh. Þessi 5 manna n. á að sjá um hagsmuni hinna tryggðu og einnig að sjá um hagsmuni stjórnar trygginganna. Ég álít, að með þessu geti þetta orðið eins vel af hendi leyst og ódýrara og hagfelldara fyrir heildina en að hafa tvær stofnanir starfandi, aðra til að sjá um hagsmuni hinna tryggðu og hina til að sjá um hagsmuni trygginganna. Að þessu lýtur sú brtt., sem ég hef gert við 11. gr. Á þeim fáu fundum, sem n. hélt, virtist mér vera miklar líkur til þess, að öll n. gæti orðið sammála um svipaða lausn og þá, sem ég fer fram á í mínum brtt., þótt ekki ynnist tími til að tala um það svo útséð yrði, hvort n. gæti á þær fallizt. Ég mun þess vegna, ef þess er óskað, taka þessa till. mína aftur til 3. umr., ef n. vill þá athuga þetta og reyna að ná samkomulagi um sameiginlega till., sem mér þykir líklegt.

Brtt. 2 lýtur að því að gera landið að einu verðlagssvæði. Það er í rauninni næsta undarlegt, að öll Ed., allir nm., sem hér starfa, og að því er virðist stjórnarflokkarnir skuli vera sammála um það að gera nú aftur mismun á fólki í landinu, eftir því hvar það býr. Það var barizt í mörg ár til þess að fá það ákvæði út úr skattal., og endaði það með því, að meiri hl. Alþ. féllst á, að skattfrádráttur skyldi vera jafn fyrir alla, hvar sem þeir byggju á landinu. Í fyrra fékkst það fram, að embættismenn skyldu hafa sömu laun, hvort sem þeir byggju í sveit eða kaupstað, en sömu þm., sem samþ. það í fyrra, vilja nú aftur mismuna fólki, eftir því hvort það býr í sveit eða í kaupstað, hvað tryggingarnar snertir, og þó mega allir vita, að menn flytjast á milli tryggingarsvæða, þannig að maður, sem borgar meginið af ævi sinni í tryggingarnar á 2. verðlagssvæði, en flyzt inn á 1. verðlagssvæði sem gamalmenni og tekur sinn styrk þaðan, á þá að njóta allt annars réttar þar en ef hann hefði ekki flutt sig til. Mér er þess vegna alveg óskiljanlegt, hvers vegna þetta ákvæði er haft á þennan veg. Sem afleiðing af þessu er það, að ég geri brtt. við 15. gr. um það, að menn skuli hafa sama lífeyri, hvar sem þeir búa. En hér var úr vöndu að ráða, hvaða lífeyri skyldi taka. Ég hafði tilhneigingu til þess að taka lífeyri, sem ætlaður var á 1. verðlagssvæði, og láta hann ná yfir allt, en það gerði ég þó ekki, og orsakirnar til þess eru þær, að ríkisstj., a. m. k. Sjálfstfl. og Alþfl., voru búnir að koma sér saman um það að loka þessu frv. í endann, — þ. e. a. s. hvað framlag ríkissjóðs til þessara l. mætti vera mikið. Ef ég hefði tekið 1. verðlagssvæði og látið það ganga yfir allt landið, þá hefði ríkissjóður þurft að bæta 7 millj. kr. við framlagið; og það sá ég mér ekki fært að gera till. um, eins og búið var að koma málinu fyrir. Þess vegna læt ég lífeyrinn vera: Fyrir hjón, þegar bæði fá lífeyri, kr. 1800 á ári. Fyrir einstakling og hjón, þegar annað fær lífeyri, kr. 1000. — Hér læt ég lífeyrinn vera þann sama yfir allt. Með þessu er að vísu heldur meira borgað út en eftir frv., en það munar litlu og skal ég koma að því seinna. Í sambandi við það, að ég geri landið að einu verðlagssvæði, þarf líka að breyta 20. gr., 30. og 38. gr., og breyta barnalífeyrinum og fjölskyldubótunum, og þar sem í vissum tilfellum þarf að borga ekkjum eftir 38. gr. Eins og áður fer ég bil beggja og nær því lægra, til þess að skapa ekki verulega aukin útgjöld af tryggingunum.

Þá er brtt. við 42. gr. Hún lýtur að því að láta sjúkrabætur ná til allra, sem sjúkir verða, jafnt hvort sem hann er kallaður vinnuþegi, launamaður eða hann starfar sjálfstætt. 8.–9. brtt. eru líka breyt. í sambandi við það, sem ég áður er búinn að segja, að landið verði gert að einu verðlagssvæði. En 10. brtt. er aftur um annað. Hún er um iðgjöldin, — í sambandi við það, að landið er gert að einu verðlagssvæði, þurfti að breyta iðgjöldunum, gera þau eins yfir allt landið og ákveða, hver þau ættu að vera. Hér er ákveðið, að þau skuli vera :

Fyrir hjón ……………kr.120 á ári

Fyrir ókvænta karla … — 96– –

Fyrir ógiftar konur ….. — 72 – –

Til þess að ná upp því, sem þarf, til að hafa tekjur á móti útgjöldum, sem tryggingunum er ætlað að standa undir, hef ég lagt til, að tekið yrði hundraðsgjald af nettótekjum framteljenda allra, og hef ég það misjafnt eftir nettótekjuupphæðinni. Þeir, sem hafa 15 þús. kr. nettótekjur eða minna, skulu greiða 1% af nettótekjum. Þeir, sem hafa milli 15 þús. og 30 þús. kr. nettótekjur, skulu greiða 1½%, og þeir, sem hafa yfir 30 þús. kr. nettótekjur, skulu greiða 2% af nettótekjum sínum. Ég hef hækkað persónufrádráttinn upp í það að vera þær tölur, sem greiddar eru í bætur eftir frv., þó er talan heldur hærri fyrir börn, sem nemur nokkrum krónum. Ég er þess alveg fullviss, að með þessu fyrirkomulagi á iðgjaldagreiðslum ná l. betur tilgangi sínum en ella. Með þeim iðgjöldum, sem ætlazt er til, að séu greidd eftir l. nú, eru þetta svo háar greiðslur, að það fer ekki hjá því, að það verði mörgum erfitt að greiða þau, svo að hrepparnir verða að greiða fyrir einhverja.

Ef iðgjöldin hins vegar eru tekin að nokkru leyti með prósentu af nettótekjum manna, eins og ég geri ráð fyrir í brtt. minni, orkar það ekki tvímælis, að það verður miklu léttara fyrir heildina að rísa undir því, og l. ná betur tilgangi sínum.

Þá er brtt. við 112. gr. Sú grein mælir svo fyrir, að fyrir hverja vinnuviku, sem unnin er hjá einhverjum ákveðnum manni, skuli sá, sem lætur vinna, greiða kr. 1,50 og verðlagsuppbót til trygginganna. Þetta er atvinnurekanda ætlað að greiða til trygginganna. Ég vil, að þessu gjaldi sé breytt þannig, að í staðinn fyrir að greiða ákveðið gjald af hverri vinnuviku, þá sé greitt 1% af kaupgjaldinu. Með því er greiðslunni hagað eftir því, hvort sá, sem vinnur, er kaupdýr eða ekki. Með því að greiða þetta þannig kemur það miklu jafnara niður en ef aðeins er miðað við tímann, sem unnið er.

Afleiðingin af þessari breyt., sem ég hef gert á 1. og 2. verðlagssvæði, er sú, að ég fæ ekki nægar tekjur, eins og frv. er nú orðið, til þess að standa undir þessum greiðslum, og verð þess vegna að gera brtt. við 116. gr. og hækka framlag ríkissjóðs úr 7 millj. í 7½ millj. kr. Þrátt fyrir það þó að ég hafi lækkað framlagið á 1. verðlagssvæði, þá eru hækkanirnar á 2. verðlagssvæði og hækkanirnar vegna sjúkrabótanna það miklar, að þær éta upp meira en lækkunina, og verður því að hækka framlag ríkissjóðs til þess að þessar brtt. geti staðizt hver fyrir annarri og allar saman.

Þá er síðasta brtt. mín, við bráðabirgðaákvæði. Í fyrsta lagi, að 1. tölul. falli niður. En hann gerir ráð fyrir því, að næstu árin verði bæturnar minni en l. gera ráð fyrir, og jafnvel verulega miklu minni, ef það reyndist svo, að bæturnar eftir l. færu fram úr þeim tekjum, sem l. mundu gefa. Mér þykir ekki réttlátt að láta þau gamalmenni, sem beðið hafa eftir lífeyri sínum og fengið hann skorinn við nögl undanfarin ár, halda áfram að bíða eftir þeim, og vil því láta l. koma strax til framkvæmda. — 2. brtt. er afleiðing af brtt., sem gerð er við 107. og 112. gr.

Þá er brtt. 13,c. Það er nýtt ákvæði, að ríkisstj. skuli enn fremur láta endurskoða lög um heimilisfang og leggja fyrir næsta þing frv. til l., er skyldi alla til að hafa vegabréf, er m. a. sýni, hvert sé lögheimilið. Lög um heimilisfang voru sett fyrir nokkrum árum, en eru hvorki fugl né fiskur. Það orkar ekki tvímælis, að til eru á hverju ári í landinu margir menn, sem hvergi eiga heimili, hvergi borga opinber gjöld og hvergi eru skráðir heimilisfastir. Þegar tryggingarnar koma til framkvæmda og hver maður þarf að hafa sitt tryggingarskírteini, komast þessir menn í vandræði og þeir munu reyna að hlaupa á milli hreppa og sýslna, eins og þeir hafa gert, án þess að greiða nokkurs staðar nokkuð. Ég vil þess vegna, eins og ég hef skýrt, bæta aftan við 8. tölul., að það skuli endurskoða l. um heimilisfang.

Ég er sammála meðnm. mínum um það, að þessi 1. séu ákaflega stór og marki merkilegt spor í okkar félagsmálum eða félagsmálaþróun. En ég tel, ef það á að verða hlutskipti okkar, sem á þingi sitjum, að afgr. þessi l. í því formi, sem þau liggja nú fyrir í, — í því formi að taka upp í þau og lögfesta sama misrétti milli þegnanna sem hefur verið tekið úr öðrum l., — þá sé það stimpill, sem þeir setja á sjálfa sig og ekki sæmir þm. nú 1946, þar sem þeir samþ. það gagnstæða 1945.