23.04.1946
Neðri deild: 117. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (3217)

139. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Ólafur Thors):

Þar sem mitt nafn hefur verið dregið inn í þessar umr., þykir mér rétt að segja nokkur orð. — Það var á þriðjudaginn var, ætla ég sem stjórnarflokkarnir komu sér saman um að reyna að ná samkomulagi um afgreiðslu þeirra mála, sem afgreiða þurfti áður en þingi lyki. Sátu fulltrúar frá öllum þremur flokkunum á fundi fram á nótt og héldu áfram viðræðum næstu daga. Meðal þeirra mála, sem um var rætt, var tryggingalagafrv. Eðli málsins samkvæmt hefur það einkum fallið í minn hlut að samræma sjónarmið. Á fundinum aðfaranótt 17. þ. m. var samið um II. og III. kafla frv., en ekki I. kaflann eins og réttilega hefur komið fram.

Það er og rétt, að Sjálfstfl. taldi sér ekki fært að leggja á ríkissjóð þá byrði, sem frv. fór fram á, og mæltist til, að útgjöldin yrðu færð úr 12 millj. kr. niður í 8 millj. kr. Um þetta varð samkomulag milli Alþfl. og Sjálfstfl., að því er mér skildist með samþykki Sósfl. og með hans vitund, þótt hann áskildi sér rétt til að fylgja brtt. En eins og bent hefur verið á, var ekki unnt að semja um einstök atriði á svo skömmum tíma. Þannig mun það vera rétt, að einkum hefur verið samið um I. kaflann milli Alþfl. og Sjálfstfl., og má vera, að þar séu atriði, sem ekki eru öllum nægilega ljós, enda ekkert eðlilegra. Nú má um það ræða, hvort setja á mig eða Sjálfstfl. undir sök fyrir að semja við Alþfl. einan um þetta mál. Ég vil þó taka fram, að það var ekki ætlunin að lítilsvirða Sósfl. í þessum samningum. En ég áleit, að fyrst bæri að semja við þann aðila, sem forgöngu hafði um málið. Og hefur það sjónarmið einnig gilt um þau mál, sem Sósfl. hefur einkum beitt sér fyrir.