23.04.1946
Neðri deild: 117. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (3222)

139. mál, almannatryggingar

Eysteinn Jónsson:

Ég skal ekki vera langorður. Ég fór nokkrum orðum um þetta mál almennt við 1. umr. Og gat ég þess þá, að ég teldi ekki fært eða skynsamlegt að afgreiða þetta mál nú, og færði fyrir því nokkrar ástæður frá sjónarmiði stjórnarandstöðunnar í d. Ég benti á, að það væri óviðeigandi að setja svo stórfelldan lagabálk öðruvísi en að um leið væru gerðar ráðstafanir til þess að bæta úr margs konar misfellum, sem eiga sér stað að okkar dómi bæði viðkomandi atvinnumálum og fjármálum. Ég færði að því nokkur rök frá okkar sjónarmiði, að það ætti að miða setningu nýrra tryggingal. við einn lið í ráðstöfunum til stefnubreytingar á atvinnu- og fjármálum. Ég skal ekki endurtaka neitt af því, sem ég sagði um þetta. En ég vil aðeins bæta því við, að mér virðist, að þær umr., sem hér hafa farið fram um málið, og sú afgreiðsla, sem það fékk í heilbr.- og félmn., bendi til þess, að sú málsmeðferð sé skynsamlegust að afgreiða málið með velviljaðri rökstuddri dagskrá í því skyni, að það verði athugað fyrir næsta þing og reynt verði að komast að samkomulagi um helztu misfellurnar í trausti þess, að fyrir þann tíma verði menn viðræðanlegri um að gera víðtækar ráðstafanir í þessum málum, og þessi tryggingamál verði einn liðurinn í þeim víðtæku ráðstöfunum til stefnubreytingar. — Ég vil einnig benda á það, sem hv. þm. V.-Húnv., 2. þm. N. M. og fleiri hafa minnzt á, að það er mjög mikið í þessu frv. gagnvart sumum þjóðfélagsþegnum, sem litlar líkur eru til, að fáist leiðrétt, eins og nú standa sakir. Maður sér t. d. á afstöðu meiri hl. félmn., eins og hér hefur verið sýnt fram á, að ekki er í raun og veru að ræða um frv. til l. um almannatryggingar, nema frv. verði breytt verulega frá því, sem það er nú. Ég lýsi undrun minni yfir því, að það skuli ekki hafa hlotið betri undirtektir að gera þær breyt. á slysatryggingunum og sjúkratryggingunum, að þær yrðu alveg almennar og undantekningarlausar. En það virðist um það samið að stöðva þetta svona að sinni. — Ég skal svo ekki hafa fyrir þessu fleiri orð. Með leyfi hæstv. forseta mun ég lesa upp till. til rökstuddrar dagskrár, sem ég hef fært rök fyrir aðallega við 1. umr.:

Deildin telur nauðsynlegt, að þjóðin kynnist máli þessu betur en orðið er, áður en því er ráðið til lykta. Síðan verði það tekið til úrlausnar í sambandi við þær ráðstafanir, er gera þarf til stefnubreytingar í fjárhags- og atvinnumálum, m. a. til þess að skapa tryggingunum traustan fjárhagsgrundvöll. — Í trausti þess, að þannig verði á málinu haldið, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta dagskrártill.