23.04.1946
Neðri deild: 117. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (3224)

139. mál, almannatryggingar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í d. ræddi ég nokkur atriði þessa frv. og beindi þá til þeirrar n., sem fékk málið til meðferðar, nokkrum atriðum sérstaklega og átti gjarnan von á því að sjá í till. frá n., eða a. m. k. í framsöguræðu frsm. n., þessum atriðum gerð einhver skil. En mér sýnist málið koma þannig frá n., að lítið sé að þessum atriðum vikið, sem ég gerði að umtalsefni. Ég tel því fulla ástæðu til þess, með tilliti til þeirra umræðna, sem fram hafa farið í d., að víkja nokkuð frekar að sumum þessum atriðum og reyna að fá það fram, hvort það er virkilega meining meiri hl. þeirrar n., sem með málið hefur haft að gera hér í d., að taka í engu tillit til málsins í þá átt, sem ég talaði um við 1. umr., — hvort það er fyrirfram ákveðið af þeim í meiri hl., að málið fari í gegnum d. í lítið eða ekkert breyttu formi. Það er þá fyrst og fremst ákvæðið í I. kafla frv. viðvíkjandi stjórn, yfirstjórn og framkvæmd trygginganna, sem ég ræddi hér um, sem sé ákvæðið í 11. gr. frv. Hv. frsm. heilbr.- og félmn. lýsti því yfir, og það stendur einnig hér í nál. félmn., að n. hafi það til athugunar, hvort ekki muni nást samkomulag um að breyta ákvæðum 11. gr., og að sennilega verði það látið bíða til 3. umr. Ég verð að segja það, að ég kann mjög illa við þessa afgreiðslu og ég vil, að einmitt við 2. umr. málsins fái það að koma í ljós hér í d., hver er meirihlutavilji d. um þetta atriði, hvort það er meirihlutavilji fyrir því að láta Tryggingastofnun ríkisins þenja sig út um allt land og stofna skrifstofur í öllum kaupstöðum og þorpum landsins og svipta þar með bæjar- og sveitarfélög öllum möguleikum til þess að fá að hafa með framkvæmd trygginganna að gera. Við fyrri umr. málsins hér í d. minntist ég nokkuð á það í sambandi við þetta atriði, að það hefði komið fram, að ákveðnir menn í flokkum hefðu staðið hér að því að gera samning með sér um þennan kafla frv. og um framkvæmd þessara mála. Þá var þessu ekki mótmælt hér á neinn hátt, og ég skýrði frá einstökum þáttum þeirra samninga. En svo nú, við 2. umr., þá bregzt hæstv. dómsmrh. illa við, þegar á þetta er minnzt, og neitar því með öllu í rauninni, að það hafi farið fram þeir samningar, sem kunnugt er um og upplýst af hæstv. forsrh., að hafi farið fram einmitt um þetta atriði málsins. Ég vil því að gefnu tilefni fara nánar út í það, um hvað þarna hefur verið samið, og skal þá sýna fram á það, að það, sem hæstv. dómsmrh. gaf í skyn, fær á engan hátt staðizt. Við afgreiðslu málsins í Ed. var kunnugt, að Sjálfstfl. lagði á það áherzlu að fá annan forstjóra yfir þær stofnanir, sem hefðu með framkvæmd trygginganna að gera. Þetta mun flestum þm. vera kunnugt og að samningar við Alþfl., sem hæstv. forsrh. hefur nú skýrt hér frá, fóru einmitt fram um þessa hlið málsins. Þá var samið um það, sem við sjáum, að er nú í frv. eins og það kom frá Ed., — þá var samið um það, að það skuli skipaður sérstakur form. tryggingaráðs, sem átti að hafa miklu meira valdsvið en áður hafði verið gert ráð fyrir, og það er kunnugt mál, að í staðinn fyrir annan forstjóra yfir Tryggingastofnunina hafði Sjálfstfl. fengið það samþ. með samningum við Alþfl. að fá þennan formann, sem Alþfl. lagði kapp á að fá. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að þetta séu samningar Alþfl. og Sjálfstfl. En í staðinn fær svo áfram að standa í frv. það ákvæði, sem við urðum svo glöggt varir við hér í umr. um þetta mál og Alþ. heldur dauðahaldi í, sem er að Tryggingastofnun ríkisins, sem verður eflaust undir framkvæmdastjórn Haralds Guðmundssonar, fái að skipa menn til að starfa við framkvæmd trygginganna út um landið, til að stofna skrifstofur og raða þar upp embættismönnum að sinni vild. Þetta ákvæði á að standa áfram, og það leynir sér ekki, hver heldur fastast í það ákvæði, — Það er Alþfl.

Ég ræddi þetta mál við 1. umr. og benti á, að það eru engin frambærileg rök fyrir því, að skipa þessu máli á þá lund, sem gert er í frv., það er engin frambærileg ástæða til þess að taka það vald af sveitarstjórnum og bæjarstjórnum, sem þar hefur verið fram til þessa og viðkemur framkvæmd trygginganna. Í sambandi við almannatryggingar, sem veita ákveðin réttindi, virðist vera einfaldast að leyfa t. d. bæjarstjórnum að kjósa á lýðræðislegan hátt þá n., sem á að hafa innan umdæmisins með framkvæmd málsins að gera, enda hefur því ekki verið mótmælt, að þetta hefur gengið svona til um sjúkratryggingarnar og örorkutryggingarnar, og hefur enginn fundið að því. En það er skiljanlegt, að Alþfl. líti það hýru auga að geta komið á svona skrifstofubákni út um allt land. Ég vil nú að gefnu tilefni vænta þess, að fram komi hjá hæstv. dómsmrh. og öðrum þeim, sem vilja hafa þetta mál á þessa lund, einhver skýring á því, að þeir telja svo nauðsynlegt, að Tryggingastofnun ríkisins fái að koma upp þessu embættismannakerfi út um allt land. En eins og ég sagði við fyrri umr., þá sættum við okkur ekki við þetta fyrirkomulag, sem erum fulltrúar staða utan af landi, þó að Sjálfstfl. hafi samið um það að fá hér form. tryggingan., nokkurs konar varaframkvæmdastjóra við hliðina á Alþfl. Enn fremur var samið um það við borgarstjórann í Reykjavík, Bjarna Benediktsson, að yfirtaka það starfslið, sem nú vinnur við sjúkratryggingarnar í Reykjavík, til að vinna áfram við Tryggingastofnun ríkisins, og við sættum okkur ekki heldur við slíka sérsamninga þeim til handa. Við viljum láta leggja til grundvallar í þessum efnum það, sem er eðlilegt og réttlátt, að fólkið í umdæmunum annist á venjulegan hátt framkvæmd trygginganna í sínu umdæmi, eftir því sem 1. og reglur mæla fyrir um, og við neitum því, að almannatryggingar eigi að standa undir einhverju skrifstofubákni, sem einn flokkur telur sér svo mikilsvert að koma upp, því að það verður ekki lítill fjárhagsbaggi og kostnaðarkerfi, sem þarna virðist vera á uppsiglingu. Í umr., sem fóru fram í dag, sagði hæstv. dómsmrh. með nokkrum þjósti, að það, sem 11. landsk. þm. hefði hér sagt um sérsamninga milli Alþfl. og Sjálfstfl. um afgreiðslu málsins, væri algerlega rangt. En það er nú alveg upplýst mál að þetta er fullkomlega rétt. Það er sem sagt rétt, að Alþfl. nær samningum við Sjálfstfl. um það að rýra allverulega bætur til mæðra og ekkna. Það er staðreynd, að Alþfl. náði þessum samningum, og það er enginn ágreiningur um það, að Sósfl. stóð ekki að þessum samningum. Það liggja fyrir upplýsingar um það, að Sjálfstfl. og Alþfl. sömdu um það, að annar þessi flokkur hefði nokkurs konar varaframkvæmdastjóra yfir tryggingunum og að starfslið sjúkrasamlagsins hér í Reykjavík skuli yfirtekið, en hinn flokkurinn haldi embættis- og skrifstofubákn, sem hann óskar eftir að koma upp. Þessar staðreyndir liggja fyrir, og þýðir ekki í móti að mæla. Þegar svo bæði ég og aðrir fara hér fram á það við 2. umr., að þessu ákvæði verði breytt í réttlátara horf og meira að óskum þess fólks, sem við tryggingarnar á að búa, þá virðist þar ekki hægt neinu um að þoka, og þá er sagt, að þetta megi bíða til 3. umr, og má þá búast við, að reynt verði að smeygja þessu fram af sér einnig við 3. umr., til þess að halda í þetta ákvæði, ef eitthvað mætti marka af því, hvað fast er í þetta haldið. Það er fullkomlega eðlilegt, að fólkið í tryggingaumdæmunum, sem stendur undir yfirgnæfandi meiri hl. kostnaðarins við framkvæmd trygginganna, sem verður að borga há iðgjöld til þess að halda tryggingunum uppi, og þeir fulltrúar, sem þetta fólk velur til þess að annast framkvæmd trygginganna, annist þetta starf, en ekki einhverjir stjórnskipaðir menn héðan að sunnan.

Hér hafa að vísu komið fram nokkrar brtt., sem miða að breyt, á þessu atriði, sem ég hef gert að umtalsefni, meðal annars hefur hv. 2. þm. N.-M. flutt till. um að breyta þessari gr.brtt. er nokkuð til bóta, en er engan veginn fullnægjandi, eftir sem áður stendur það opið fyrir Tryggingastofnun ríkisins og framkvæmdastjóra hennar að raða upp þessum skrifstofubáknum út um allt land og að skipað sé trúnaðarmannakerfi og gengið með öllu fram hjá bæjar- og sveitarstjórnum, og full ástæða er til að búast við því, þó að hans till. yrði samþ., að slíku kerfi yrði komið upp. Ég álít sem sagt ekkert annað viðunandi í þessum efnum en að taka það skýrt fram, að umdæmin sjálf hafi rétt til þess að annast framkvæmd trygginganna hvert á sinum stað, og ég tel ekki sæmandi, að d. víki sér á neinn hátt undan því að taka skýra afstöðu til þess. Óskar Alþ. eftir því, að svona skrifstofubáknum verði komið upp og að framkvæmdin verði á þá lund, sem hér er gert ráð fyrir, eða vill það verða við því að heimila bæjar- og sveitarstjórnum, hverjum á sínum stað, að annast þessi mál?

Svo eru hér nokkur atriði, sem ég vildi minnast á frekar, og í því sambandi beina fyrirspurn til frsm. meiri hl. og hæstv. dómsmrh., og það er viðvíkjandi þessum trygginganefndum, sem ég annars geri lítið úr, eins og það er ákveðið í 11. gr. Þar er talað um, að þessar tryggingan. skuli kosnar af bæjar- og sveitarstj. í umdæmunum að nýafstöðnum kosningum. Hvernig er nú hugsað að framkvæma þetta, þar sem t. d. bæjarstjórnarkosningar fara fram á allt öðrum tíma en sveitarstjórnarkosningar í mörgum hreppum og annars staðar þar sem svo háttar til, að kaupstaður og t. d. 2–3 sveitahreppar liggja saman í tryggingaumdæmi, því sennilega er það á mörgum stöðum? Er þá ætlunin, að allar hreppsn. af þessum svæðum og svo bæjarstjórn kæmu saman til sameiginlegs fundar og kysu þá venjulegri hlutfallskosningu þá tryggingan., sem þarna er rætt um? Ég álít ekki verjandi að kasta höndunum svo til að setja ákvæði viðvíkjandi þessum trygginganefndum. Þá er annað atriði. Hvernig er ætlazt til, að farið verði með kostnað af störfum tryggingan., ef einhver yrði? Eru það bæjar- og sveitarstj., sem eiga að standa undir kostnaði af þeim tryggingan., eða eru það tryggingarnar sjálfar? Ég hef ekki getað fundið neitt ákvæði, sem segir til um það.

Svo er einnig ákvæði viðvíkjandi tryggingaumdæmunum. Það væri fróðlegt að heyra hér eitthvað um það, — hvernig yfirleitt þessi tryggingaumdæmi hafa verið hugsuð. Er meiningin að hafa alla kaupstaði sértryggingaumdæmi? Eða á að hræra kaupstöðunum saman við sveitahreppana, og er ætlunin að láta þessi tryggingaumdæmi vera mjög stór? Ég er sannfærður um það að ef farin verður sú leið að hafa tryggingaumdæmin stór, þá koma fram margvíslegir örðugleikar á þessari framkvæmd með tryggingan.

Þá voru hér nokkur önnur atriði, sem ég minntist á við fyrri umr., t. d. viðvíkjandi iðgjaldagreiðslum. Mér skilst, að n. sú, sem hefur fjallað um málið, sé ekki til viðtals um það að breyta því, sem farið hefur verið fram á, að iðgjaldagreiðslurnar skuli breytast, og verður þá að koma hér fram við atkvgr., hvernig meiri hl. lítur á það. Ég fyrir mitt leyti vil undirstrika það sem áður, að ég tel sjálfsagt, þegar komin eru þetta há iðgjöld, eins og hér er gert ráð fyrir, í þessum tryggingum, þá sé verulegur hluti af gjöldunum tekinn eftir tekjuhæð þeirra, sem eiga að greiða gjöldin, þannig að þeir tekjuhærri ættu að greiða mun hærri iðgjöld en hinir: Ég mun því styðja till., sem fer í þá átt. Svipað sýnist mér hafa farið um það atriði, sem ég drap á við 1. umr., sem er viðvíkjandi sjúkrabiðtíma fyrir smáframleiðendur. N. virðist ekki hafa fengizt til að ræða um þetta efni. Er það meiningin að ganga þannig frá þessari löggjöf, að t. d. smáframleiðendur, eins og þeir, sem vinna víða í sjávarþorpum landsins við smábátaútveg, verði settir í hóp með atvinnurekendum og látnir bíða 5–6 vikur, þar til þeir koma til greina við dagpeningagreiðslur vegna veikinda? Er meiningin að flokka alla bændur líka í hóp atvinnurekenda og láta þá bíða í jafnlangan tíma? Eins og ég lýsti við fyrri umr., tel ég þetta misráðið, enda get ég ekki séð, að það sé nokkur frambærileg ástæða fyrir því að haga þessu á þessa lund, smáútvegsmenn og bændur eiga algerlega að vera samhliða launþegum í þessum efnum. Hitt skal ég svo viðurkenna, að það er rétt að láta nokkuð annað gilda um stærri atvinnurekendur, fyrst á annað borð er gengið inn á þá braut, eins og víða er gert í þessu frv., að taka tillit til efnahagsástæðna og þeirra kjara, sem menn eigi við að búa, í sambandi við greiðslur til trygginganna. Það kom hér fram í framsöguræðu hv. frsm. n., að það yrði að fara varlega með þetta mál hér á Alþ., vegna þess að það væri mikil hætta á, að málið næði ekki fram að ganga, ef einhverjar breyt. yrðu gerðar á því: Ég get ekki skilið það, eins og undir þetta mál hefur verið tekið hér á Alþ. og eins og það virðist vera vel valdað með stjórnarsamningnum, að það sé nein óskapleg hætta á því, að málið nái ekki fram að ganga, þótt breyt., sem miða að því að gera ákvæði frv. réttlátari, verði samþ. Ég held, að þetta sé aðeins fyrirsláttur. Ég er sannfærður um, að þó að breyt. yrðu gerðar á þessu frv. og það færi til Ed., þá mundi það samt ná fram að ganga. En ég met það mjög mikils, að þetta mál nái fram að ganga, og tel það alveg sjálfsagt, en slíka afgreiðslu eins og það, að setja alla smáútvegsmenn og bændur í flokk með atvinnurekendum landsins, það tel ég enga þörf í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Enn þá síður sé ég ástæðu til þess að taka þann rétt af bæjar- og sveitarstj. að annast framkvæmd trygginganna í sínu umdæmi og koma upp því embættisbákni, sem hér virðist vera kappsmál nokkurra manna, — enn þá síður sé ég ástæðu til þess, að frv. verði afgr. á þá lund.

Ég hef sem sagt dregið það við mig að flytja hér brtt. um þau atriði, sem ég hef hér aðallega rætt um, vegna þess að ég gekk út frá því sem gefnu, að n. mundi taka þessi mál til afgreiðslu og ræða þau og skýra frá því, hvernig afstaða hennar væri til þeirra hér við 2. umr. En nú hefur hún gengið framhjá þessu atriði og segist ætla að láta það bíða til 3. umr. Þess vegna vil ég sjá við 2. umr., hvernig meiri hl. d. tekur þessu máli. Hitt skal ég svo taka fram, að ég hefði talið æskilegt, að það hefði verið reynt að semja um þau atriði, sem hér er deilt um. En ég mótmæli því algerlega, að stjórnarfl. hafi samið um málið á þá lund, sem það liggur hér fyrir nú, enda er það upplýst, að Alþfl. og Sjálfstfl. virðast hafa samið um stjórn þessara tryggingamála og að einungis þeir tveir flokkar stóðu að þeim samningum, sem fjalla um lækkun á hlunnindum eða rétti samkvæmt þessum tryggingum, og ég tel mig ekki skuldbundinn til þess að draga mig til baka um það að flytja brtt. við frv. á þessa lund,. og mun fylgja því eftir, að breyt. nái fram að ganga á frv. í þessa átt.