23.04.1946
Neðri deild: 117. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (3225)

139. mál, almannatryggingar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál kom til 1. umr. hér í d., þá var páskaleyfi að hefjast, svo að þm. stilltu sig mjög um það að ræða málið almennt, en vildu greiða fyrir því að koma því til n. — Ég mun nú við þessa umr. segja nokkur orð almennt um málið, um leið og ég ræði brtt., sem ég flyt við það á þskj. 938, og vænti ég þess, að hæstv. forseti hafi ekkert við þetta að athuga nú við 2. umr. málsins.

Það er öllum augljóst, að hér er um mjög stórt mál að ræða, og vafalaust má segja, að það sé í eðli sínu gott mál. Það er jafnvel, talað um það af ýmsum ræðumönnum og í blöðum stjórnarfl., að með þessu frv. eigi að gera hvorki meira né minna en skapa nýtt þjóðfélag og betra en hið eldra. Það fylgir þessu máli, sem nær til allra manna í landinu, — skattþegna landsins, — að um leið og það veitir þeim nokkur réttindi, leggur það þung gjöld á alla skattgreiðendur í landinu. Það er nú gert ráð fyrir því, að sú velta, sem skapast um þetta mál, muni nema meiru en helmingi þess, sem öll fjárlögin nema nú, og er þetta nokkur leiðarvísir um það, hvað hér er stórt mál á ferðinni: Ég dreg það ekki í efa, að þetta er í rauninni mjög gott mál, eins og ég hef þegar tekið fram, en ég held, að þar sem um svona stórvægilega breyt, er að ræða frá því, sem nú er, að þá sé ætlaður nokkuð naumur tími til afgreiðslu þessa máls, þar sem gert er ráð fyrir, að mér skilst, að Nd., þar sem sitja 2/3 þm., eigi aðeins að fá fáa daga til þess að fjalla um það. Ég held, að það sé þó enn þá meira áberandi, hvað fólkið, sem býr út um byggðir landsins, veit nauðalítið um það, hvað hér er á ferðinni, það hefur alls ekki fengið tækifæri til þess að kynna sér þetta mál til neinnar hlítar, því að gögnin í málinu hafa alls ekki verið lögð undir dóm fólksins og ekki kynnt því að neinu leyti. Hv. frsm. þessa máls sagði í ræðu sinni í dag, að þetta mál væri mjög vel undirbúið, og lagði á það nokkra áherzlu, en ég held, að þegar litið er á það, þá skipti mjög í tvö horn, eftir því á hverja hlið málsins er litið.

Á þinginu í vetur, alllöngu fyrir jól, var þm. afhent stór bók, sem er skýrsla um þetta mál, og ýmis gögn, sem að tryggingamálum lúta. Ég hef gluggað nokkuð í þessa bók, og dylst mér ekki, að það er merkilegt heimildarrit, sem hefur margt að geyma, og að þeir menn, sem það hafa tekið saman og athugað það efni, sem þar er skrásett, hafa vissulega lagt alúð við sitt verk og að það hefði ekki verið á allra færi að gera það jafnvel. En þegar litið er til þess, hvað fólkið úti um landið hefur fengið að kynnast þessu máli, þá kemur fram allt önnur mynd af undirbúningi þess, því að frv. er flutt og lagt hér fyrir þingið um það leyti, sem þm. voru að fara í jólafrí, og þá fyrst fengu þeir að lesa þetta frv. mitt í önnum fjárlagaafgreiðslunnar, og út um landið er þetta alls ókunnugt. Um þetta atriði skýtur mjög skökku við, þegar það er borið saman við þann undirbúning, sem ýmis önnur stórmál hafa fengið. Ætla ég sem dæmi um það að minnast á tvennt í því sambandi, þar sem mþn. hafa undirbúið málin. Fyrir stuttu starfaði hér póstmálanefnd, sem skipuð var eftir sérstakri till., sem samþ. var hér á Alþ., og hóf hún starf sitt á því að skrifa öllum sveitarstjórnum út um gervallt landið og leita eftir áliti þeirra um það, í hvaða horf ætti að færa það mál, sem n. var fengið til að gera till. um. Þegar þau svör eru komin frá sveitarstjórnunum, þá tekur þessi n. fyrst til starfa og byggir till. sínar að miklu leyti á þeim upplýsingum, sem hún fær utan af landi, og ég hygg, að þessi n. hafi kvatt á sinn fund hvern einasta þm. utan af landi til ráðlegginga um þær till., sem hún bar fram, áður en málinu var ráðið til lykta.

Ég minnist þess enn fremur, að mþn. í skólamálum mun hafa haft nokkuð svipuð vinnubrögð. Hún skrifaði sérhverjum kennara og skólan. og leitaði álits þeirra um viss atriði í þeim málaflokki, sem mþn. hafði haft til athugunar, og byggði svo störf sín að verulegu leyti á þeim svörum, sem hún fékk frá þessum aðilum utan af landinu, og þegar hún samdi frv., tekur hún eins mikið tillit til þessara svara og henni er auðið. Þó var frv. sent aftur til umsagnar og athugunar þessara aðila, bæði kennara og skólan. í landinu, og það er fyrst þegar þessi undirbúningur og athugun hefur farið fram, að frv. er lagt hér fyrir Alþ. til athugunar og samþ. Þegar þetta er borið saman við það stórmál, sem við nú fjöllum um, verður ekki annað sagt en að þarna sé mjög ólíkt að farið. Sveitarstjórnirnar úti um landið, sem verða að eiga sinn hlut í framkvæmd þessa máls og standa við þungar skuldbindingar og greiðslur í sambandi við það, þær vita nú alls ekkert um það, hvað hér er á ferðinni. Það þarf ekki annað en hitta mann utan af landsbyggðinni til þess að sannfærast um það, að mönnum fellur ekki þessi afgreiðsla málsins, og það þarf ekki annað en ganga hér í símaklefann og hafa samband við mann utan af landi, einkum þá, sem hafa það í hendi sinni að sjá farborða fátækum og fámennum sveitarfélögum, til þess að heyra, að það er ekki einhliða fögnuður hjá þeim yfir afgreiðslu þessa máls, — yfir því nýja þjóðfélagi, sem hér er verið að skapa, — heldur bera þeir mikinn ugg í brjósti um það, að hér sé verið að reisa landinu hurðarás um öxl og sveitarfélögum mjög þungar byrðar, sem menn vita þó óglöggt, hverjar eru, og eru gramir yfir því, að gersamlega hafi verið gengið framhjá þeim um undirbúning málsins.

Þessi aðferð og þetta flaustur, sem haft er um afgreiðslu málsins, þætti mér ekki ólíklegt, að kynni að valda því, að málið yrði í sjálfu sér óvinsælla úti um landið en kannske væri ástæða til, því að ég endurtek það, að eðli málsins samkvæmt er hér um gott mál að ræða. Það verður ekki framhjá því gengið, að þetta frv. leggur þungar byrðar á skattþegna landsins, bæði einstaklinga og sveitarfélög. Það er þá einnig til marks um það, hvað skortir á um fulla athugun og undirbúning málsins, að það er gert ráð fyrir því að leggja á sveitarfélög 4½ millj. kr. að viðbættri verðlagsuppbót og jafna því niður eftir vissum reglum, sem tiltekið er í frv., en þótt ég hafi flett nokkuð þeim gögnum, sem þessu máli fylgja, hef ég hvergi getað fundið skýringu á því, hvernig þessari upphæð skuli raunverulega skipt niður á sveitarfélögin hvert um sig. Og ég hef það fyrir satt, að jafnvel þeir, sem betur hafa kynnt sér þetta mál, eins og hv. 3. landsk. þm., vísasti maður hinna vísustu, geti ekki gefið skýringu á því, hvað miklar byrðarnar eru, sem lenda á hverri sýslu, og þeim mun síður á hvern hrepp. Það má segja, að það væri í rauninni lágmarkskrafa, þegar þm. eiga að greiða atkv. um jafnstórfellt fjárhagsatriði og það, sem hér er um að ræða, að það lægi fyrir einhver áætlun, einhver tilraun hefði verið gerð til þess að reikna það út, hvernig þetta mundi falla á sveitarfélögin í landinu. En það virðist ekki hafa verið gert, og verður að segja, að um þennan þátt málsins skorti mjög á, að undirbúningur sé svo fullkominn sem þörf hefði verið og æskilegt væri. Það er í rauninni óverjandi að bjóða þm. upp á að greiða atkv. um jafnmiklar byrðar og þetta án þess að þeir hafi hugmynd um, hvað þeir eru að gera gagnvart héraði sínu. Hefði ég fengið upplýst, hvað félli á það kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir, hefði ég staðið miklu nær að gera mér sjálfum grein fyrir því, hvað mundi falla á hvern hrepp fyrir sig, en þessu er ekki til að dreifa. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að leggja mjög þungar byrðar á sveitarfélög og það jafnvel enn meir en gert er með nokkurri annarri löggjöf, sem ég þekki til. Það er alkunnugt og ekkert óvenjulegt, að í löggjöf sé ákveðið, að sveitarfélög skuli greiða svo og svo mikinn part af vissum útgjöldum, en það fylgir jafnan, að bæjarstjórnir og sveitarstjórnir hafi sjálfsákvörðunarrétt um það, í hvaða framkvæmdir þau ráðist, og hafi þannig hönd í bagga um það, hve miklar byrðar þær taki á sveitarsjóðina. Ég man t. d. eftir því í sambandi við vegagerðir, að venjulega eiga sveitarfélögin að leggja fram fé til vegagerða, en greiða vissan part af framlagi t. d. sýsluvegagerðar, en sveitarstjórnirnar hafa það í hendi sinni, hver á sínum stað, hve mikið þær láta gera af vegum þetta og þetta árið, og þannig geta þær ráðið miklu um framkvæmd þessa atriðis.

Hið sama má segja t. d. um löggjöf um skólabyggingar, að sveitarfélögin skuli leggja fram svona og svona mikinn part af byggingarkostnaði, en þau hafa það í hendi sinni, hvort þau ráðast í þessar byggingar, og mega haga framkvæmdum í samræmi við vilja fólksins og aðstöðu á hverjum tíma. Ég verð að benda á það, að jafnvel þó að mörg sveitarfélög hafi tekið á sig miklar byrðar og mikla fórnfýsi í sambandi við byggingar skólahúsa, þá er það að miklu leyti vegna þess, að sveitarstjórnirnar hafa þetta frelsi. Þegar t. d. sveit eins og Árnessýsla lagði í það að reisa heimavistarskóla, þá var þetta átak fram komið að miklu leyti vegna þess, að þar var ekki gengið hart eftir peningagreiðslum einum, heldur var lögð fram vinna að nokkru leyti upp í kostnaðinn. Það er líka kunnugt, að ýmis héruð hafa gert stór átök á þessu sviði, en þau átök hafa fyrst og fremst verið gerð vegna þess, að fólkið sjálft hefur haft frelsi til þess að hafa þessi mál með höndum og hefur mátt leggja fram sinn hlut t. d. í vinnu og á annan hátt, en löggjafarvaldið bindur því ekki að fullu þessar byrðar með peningagreiðslum einum upp í þessi framlög.

Í sambandi við þetta frv. skilst mér, að forstöðumenn þessarar stofnunar eigi að jafna þessu framlagi niður á hreppana í landinu, án þess að sveitarstj. séu nokkuð um það spurðar. Þetta kemur eins og hár skattur ofan á öll önnur gjöld, sem sveitarstj. fá engu um ráðið, þær eiga að taka á móti þessu og greiða það eins og fyrir þær er lagt. Með þessum l. eru því sveitarstj. úti um landið settar skör lægra en í öðrum l., þar sem nokkurs er krafizt af þeirra hendi.

Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því, að þetta frv. gerir ráð fyrir að leggja allþungar byrðar á einstaklingana í landinu, þar sem eru fyrst og fremst hin föstu iðgjöld til trygginganna, auk þess sem allir atvinnurekendur eiga að greiða sérstakan skatt. Nú er það svo, og meðal annars liggur það fyrir í þeirri góðu bók, sem ég drap á áðan, að tekjur manna eru mjög misjafnar, bæði fer það eftir stéttum og eins eftir búsetu. Hér liggur það fyrir meðal annars, að á sama tíma sem skattþegn í Reykjavík hefur 11500 kr. tekjur, hefur t. d. skattþegn austur í Suður-Múlasýslu einungis 4700 kr. tekjur, og skattþegn í Dalasýslu 4300 kr. og í Skaftafellssýslu 4900 kr. Svona mætti rekja töfluna alla í gegn. Það liggur í augum uppi, að þessir menn, sem búa við svo misjöfn kjör og tekjur sem raun ber vitni um, hljóta að eiga misjafnlega auðvelt með að greiða föst iðgjöld, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er alveg óhugsandi að gera ráð fyrir því, að t. d. skattþegn austur í Suður-Múlasýslu, sem hefur 4700 kr. tekjur á sama tíma og Reykvíkingur hefur 11500 kr., eigi jafnauðvelt með að greiða þessi föstu gjöld. Ef gjöldin eru fyrst og fremst föst og miðuð við hvern einstakling í landinu, þá verður vitanlega að líta fyrst og fremst á hag þeirra, sem erfiðasta hafa aðstöðuna, og fyrst og fremst að miða þessi föstu gjöld við þá tekjulægstu í þjóðfélaginu, en seilast heldur til hinna eftir öðrum leiðum, sem betur mega sín. Ég verð að álíta, að þau föstu gjöld, sem sett eru í þessu frv., séu of há, en hitt hefði verið miklu nær, sem raunar brtt. liggja nú fyrir um frá ýmsum þm., að hafa þessi föstu gjöld mun lægri en hér er gert ráð fyrir, en láta heldur þá, sem betur eru staddir, greiða til sjóðsins á annan hátt, eftir öðrum reglum, með hundraðsgjaldi af tekjum, eins og till. hefur þegar verið flutt um. Ég vænti þess, að hv. þd. athugi það mál gaumgæfilega og reyni að skila þessu þannig úr hendi sér, að viðunandi verði að þessu leyti. [Frh.]