24.04.1946
Neðri deild: 118. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (3228)

139. mál, almannatryggingar

Páll Þorsteinsson [frh.]:

Það munu vera um 30 til 40 ár síðan sett voru l. um ellitryggingar. Þeim l. var breytt árið 1936, er samin voru l. um alþýðutryggingar. Nú liggur hér enn fyrir breyt., annað frv. um almannatryggingar. Það er fróðlegt að athuga fyrirsagnir þessara trygginga, og bera þær saman. Fyrst eru ellitryggingar, svo alþýðutryggingar og nú almannatryggingar. Almannatryggingar er stórt orð, enginn greinarmunur er gerður á mönnum. Í 1. gr. segir svo:

„Allir íslenzkir ríkisborgarar, sem dveljast hér á landi, skulu tryggðir samkvæmt lögum þessum og njóta réttinda þeirra, er greinir í II. og III. kafla laganna, eftir því sem við á um hvern og einn, og bera skyldur samkvæmt IV. og V. kafla.

Um íslenzka ríkisborgara, sem dvelja erlendis, fer eftir ákvæðum 106. gr. laganna.“

Ef við svo flettum við blaðinu, kemur inn á það sama. Í 16. gr. segir svo:

„Sé greiðslum ellilífeyris frestað, hækkar árslífeyrir hins tryggða sem hér segir:

68

ára gamall maður fær

5%

í

viðbót

69

— — — —

10%

-

70

— — — —

15%

-

71

— — — —

20%

-

72

— — — —

25%

-

73

— — — —

30%

-

74

— — — —

35%

-

75

— eða eldri —

40%

-

Þeir, sem við gildistöku laganna eru eldri en 67 ára og taka lífeyri þegar í stað, hljóta lífeyri samkv. 15. gr. án hækkunar þeirrar, er um ræðir í 1. mgr. hér á undan. Ef þeir hins vegar fresta lífeyristöku, fá þeir 5% í viðbót fyrir hvert heilt ár, sem líður án þess að þeir taki lífeyrinn.“

Af þessu virðist rétt að draga þá ályktun, að ákvæði 16. gr. eigi að ná einnig til þeirra, sem komnir eru á þann aldur, þótt fullfrískir séu. Þannig er frv. allt. En þegar komið er að lokunum, kemur í ljós, að ekki er ætlað að framkvæma þetta þannig, því að í bráðabirgðaákvæðum er margt af þessu tekið aftur. Ef maður, sem kominn. er yfir 67 ára aldur, er svo klár, að hann geti unnið sér fyrir fæði, ef hann telur fram í skattaskýrslu 3000 kr., þá á að klípa af þessum lífeyri, sem hann hlýtur. Í Ed. var sett inn ákvæði um, að ef áætlanir standist ekki, eigi ekki að láta nægja þessa skerðingu, heldur eigi að lækka þessar tölur um 50%. Ef maður hefur 1200–1400 kr. á ári, þá á að fara að skerða lífeyrinn. Ef gamalmenni geta unnið fyrir tekjum, sem nema einni kýrnyt, 4 þús. kr., getur verið að lífeyririnn falli niður með öllu. Allir sjá, að hér er sýnd veiði, en ekki gefin. Sem betur fer eru til gamalmenni komin yfir 67 ára aldur, sem geta unnið sér inn fæði að einhverju leyti, en Þá fá þeir ekki styrkinn að öllu leyti. Þess vegna ber ég fram brtt., og fjallar hún um að víkka þetta ákvæði og miðar við umreiknaðar eða niðurfærðar tekjur. Ég kem með brtt. um, að lífeyrisgreiðsla falli ekki niður, þótt gamalmenni hafi hálft verkamannakaup, en ég get þó fallizt á till. hv. 2. þm. S.-M., og verði hún samþ., er hægt að skoða mína till. sem varatill.

Þegar breyt. var gerð á grundvelli ellitrygginganna fyrir 10 árum, var einnig byggt á sjóðmyndun, þannig að einstaklingar yrðu að greiða í sjóð og safna innstæðum. Þess vegna var ekki hægt að láta lífeyrissjóðsgjaldið koma til framkvæmda þá þegar. En því var lofað þegar þau l. voru sett, að byrja ætti að greiða úr sjóðnum að 12 árum liðnum, enda er þetta staðfest í frv. því, sem nú liggur fyrir. Nú er sá tími óðum að nálgast. Það á að byrja að greiða úr þessum lífeyrissjóði, sem einstaklingar hafa safnað sér á þessum 10 árum, á sama tíma og sumir kaflar þessa frv. koma til framkvæmda, ef það verður samþ. Þegar á þetta er litið, er enn ósanngjarnara að skerða svo mjög lífeyrinn, að hann nái ekki til allmargra þeirra manna, sem komnir eru á þann aldur og ættu eftir eðli málsins að eiga fullan rétt á þessum greiðslum, því að því var heitið með hinum l., að allir ættu að fá þennan hlut, sem þeir gætu fengið, þegar lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum hæfust, sem ætti að verða 1948.

Nú kann einhver að segja, að það sé að vísu æskilegt, en það sé ekki, hægt nema með nýrri lagabreytingu og fyrirmælum og það hindri framkvæmd þessara l., sem nú er verið að ræða um að setja. En ég verð að segja það, að það hefur margur byrjað með minna en tug millj. kr. varasjóð þegar sett hefur verið á stofn ný stofnun. En nú er ætlunin með þessum l. að slá saman lífeyrissjóðnum, sem safnazt hefur á 10 árum, sem varasjóði trygginganna. En nú er ekki lengur byggt á sjóðsöfnun, heldur grípur ríkið inn í og á að greiða úr ríkissjóði og svo atvinnurekendur. Og vegna þess er með miklu meiri rétti hægt að fara fram á það og krefjast þess, að lífeyrisgreiðslur verði ekki skertar nú á fyrstu árunum.

Ég drap á það, þegar ég hóf mál mitt, að ég álít, að það sé ekki rétt, eins og stefnt er að í frv., að gera svona mikinn greinarmun á mönnum eftir stétturri og efnahag, og eru þar ekki öll kurl komin til grafar. Það hefur verið sýnt fram á það af öðrum hv. þm., og einna gleggst af hv. þm. V.-Húnv., að það á að gera æðimikinn greinarmun á greiðslum til manna eftir því, hvort þeir teljast atvinnurekendur, t. d. smáframleiðendur, eða hvort þeir teljast launþegar. Gildir það bæði um sjúkra- og slysabætur, og skal ég ekki lengja þær umr., með því að það hefur verið ýtarlega tekið fram af hv. þm. V.-Húnv., sem hefur skýrt frá þessu atriði. En ég vil þó til viðbótar segja það, að ég fæ ekki betur séð en þetta frv. sé þannig úr garði gert, að ef t. d. maður slasast eða fær fingurmein við fiskvinnu, einkum ef hann er ráðinn sem háseti á bát eða við aðgerðir fisks í landi, þá fái hann slysabætur, en bóndinn, sem fær t. d. handarmein við vinnu á búi sínu, fær samkv. þessu frv., eftir mínum skilningi á því, engan rétt til slysabóta nema hann kaupi þær sérstaklega, hafi þá fyrirhyggju, og þá með auknu iðgjaldi. En launþeginn á ekki að greiða nein iðgjöld vegna þessara slysatrygginga úr sínum vasa, heldur fyrst og fremst sá, sem ræður hann í vinnu. Þarna er um gífurlegan mismun að ræða, og mér er það lítt skiljanlegt, hvers vegna þessu er komið svona fyrir af þeim, sem beita sér einkum fyrir þessu máli.

Það er kunnugt, að með sexmannanefndarálitinu var gert ráð fyrir, að kjör bænda yrðu sambærileg við kjör verkamanna og sjómanna, og var þá gert ráð fyrir, að meðalbú færði bóndanum þær tekjur, sem þessar stéttir annars hefðu: Nú liggur ljóst fyrir, að til þess að halda uppi slíku búi, sem færir bóndanum þessar tekjur, þarf hann að hafa í sinni þjónustu einn karlmann og einn kvenmann og einn ungling mikinn hluta ársins. Nú verður bóndinn samkv. þessu frv. að greiða allmikil gjöld vegna þessa fólks í tryggingarsjóð, sem er atvinnurekendasjóður. Nú er mér ekki ljóst, og væri æskilegt að fá það upplýst frá þeim, sem að þessu máli standa, hvort bóndinn á að taka þessar greiðslur af sínu eigin kaupi og borga fyrir þetta fólk af þeim launum, sem honum ber sjálfum, svo að hann hafi svipaðan hlut og verkamaður og sjómaður. Ef leggja á þetta á framleiðsluna, ætla þá þeir, sem fyrir þessu máli standa, og ríkisstj. að beita sér fyrir því, að tekinn verði upp nýr liður í landbúnaðarvísitöluna sem þessu nemur?

Þá get ég ekki komizt hjá að drepa á þessi atvinnurekendaiðgjöld, sem hver maður á að greiða, ef hann hefur einhvern mann í sinni þjónustu. Þau eru á margan hátt ósanngjörn, að þau skuli vera lögð á í því formi, að þau koma þyngst niður á þeim, sem erfiðasta hafa aðstöðuna. Það er kunnugt og verður lengi .minnzt, hvernig sú lagasetning verkaði, sem sett var af núverandi hæstv. fjmrh. um veltuskatt á fyrirtæki, þannig að þau fyrirtæki, sem seldu vörur með lítilli álagningu, hafa orðið þyngst úti. Nú sýnist mér stefnt að því marki með þessi atvinnurekendaiðgjöld, sem fólgin eru í þessu frv. Maður, sem hefur haft aðstöðu til þess að búa vel um sig, t. d. bóndi, sem hefur mikið af véltæku landi og vinnur mikið að framleiðslunni með vélum og hefur þegar komið sér vel fyrir, — hann þarf fátt fólk að hafa í sinni þjónustu og greiðir þar af leiðandi lítil atvinnurekendaiðgjöld, sem falla í þennan sjóð. En bóndinn, sem á eftir að búa jafnvel um sig og þarf að gera stórt átak nú til þess að rækta landið til þess að geta unnið með vélum, þarf að ráða til sín marga menn og borga þar af leiðandi margfalt hærri atvinnurekendaiðgjöld, sem renna í þennan sjóð. Sama máli gegnir um iðnaðarmenn. Maður, sem komið hefur sér svo vel fyrir, að hann afkastar miklu meira með stórvirkari vélum en annar iðnaðarmaður, sem ekki hefur enn eins góðar vélar, borgar tiltölulega lægri atvinnurekendaiðgjöld. Þetta finnst mér óeðlilegt og öðruvísi en það ætti að vera.

Þá get ég ekki komizt hjá því að minnast á það, þó að það liggi ekki beinlínis fyrir í brtt., að með þessu frv. er á yfirborðinu stefnt að því að veita allri alþýðu manna svipuð réttindi og embættismenn ríkisins hafa um lífeyri. En þegar betur er að gætt, er þó allmikill munur gerður þar á eftir stéttum í þessu efni, þó að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Og er þá ekki aðeins um það að ræða, sem ég hef gert að umtalsefni áður, hvernig takmarkaður er lífeyririnn fyrstu árin, heldur einnig, að hann á að koma síðar til útborgunar til alþýðu manna heldur en til embættismanna. Nú hafa verið til lög, sem varða embættismenn ríkisins, sem láta af störfum 65 ára, og samkvæmt þeim er þeim tryggður lífeyrir um leið og þeir láta af störfum. En á sama tíma, við 65 ára aldur, á bóndinn og verkamaðurinn að borga full iðgjöld í þennan lífeyrissjóð. Það er ekki aðeins, að þeir fái ekki fullan lífeyri, heldur eiga þeir að greiða full iðgjöld. Þetta finnst mér ekki sanngjarnt. Mér hefði fallið miklu betur, að frv. hefði verið byggt þannig upp, að það hefði a. m. k. verið horfið frá því að innheimta iðgjöld eftir að menn hefðu náð 65 ára aldri. Það hefði þó strax verið bót, ef menn hefðu ekki þurft að standa undir slíkum greiðslum eftir að þeir væru komnir á sjötugsaldur. Hins vegar sé ég, að það mundi valda nokkurri röskun á frv., eins og það er byggt, að koma þessari breyt. á, en ég teldi það í alla staði fara betur í þessu máli, að sú regla yrði upp tekin. — Í sambandi við þetta vil ég drepa á það, að á meðan l. um ellitryggingar giltu, var aldurstakmarkið miðað við 60 ára aldur. Það var fyrst þegar l. um alþýðutryggingar voru sett, að tekið var að miða við 67 ára aldur, sem byggt var á því, að þá átti að vera um sjóðstofnun að ræða, og var einmitt miðað við það að ávaxta sjóðinn um þetta árabil. En nú er miklu minni ástæða til þess að halda fast við þetta, þar sem það er ekki byggt á sjóðstofnun, heldur lagður nýr grundvöllur og farin önnur leið til þess að afla þessa gjalds. En á meðan l. um ellitryggingar voru í gildi, höfðu sveitarstj. framkvæmt þetta þannig að veita þessar greiðslur fólki, sem komið var yfir 60 ára aldur, þó að það hefði ekki náð 67 ára aldri. Þegar l. um alþýðutryggingar gengu í gildi, ráku sveitarstj. sig á það, að með þessari breyt. varð útundan töluvert af fólki, sem hafði fengið styrk áður. Og þetta atriði var þá tekið svo alvarlega af þeim, sem höfðu stjórnað þessum málum, að gefin voru út brbl. um þetta ákvæði. Það féll í hlut hv. 3. landsk. þm., sem þá var ráðh., að hlutast til um, að þessi brbl. væru sett í sínum tíma: Þau er að finna í Alþt. frá 1937, og af því að hér er um örstutt mál að ræða, ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp, á hverju þau voru byggð og hvaða atriði voru tekin þar til úrlausnar. Þar segir: „Vér Christian hinn Tíundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg, Gjörum kunnugt : Atvinnu- og samgöngumálaráðherra Vor hefur þegnlega tjáð Oss, að við framkvæmd alþýðutryggingal. hafi komið berlega í ljós, að nokkuð af fólki á aldrinum 60–67 ára, sem undanfarið hefur notið ellistyrks, komi nú ekki til greina við úthlutun ellistyrks né örorkubóta, þar sem starfsorka þess sé ekki rýrnuð um meira en 50%, en að þetta fari í bága við þá tilætlun Alþingis, er alþýðutryggingal. voru samin, að gamalmennum yrðu tryggð meiri hlunnindi en áður, og hvergi yrðu skert áður fengin hlunnindi, og þurfi því að laga þetta, áður en komi til úthlutunar styrks í haust. Teljum Vér með skírskotun til framanritaðs brýna þörf að setja brbl., samkv. 23. gr. stjskr., þessu til lagfæringar.“ — Og l. eru svo, að aftan við 2. málsgr. 81. gr. l. bætist: „Enn fremur fólk yngra en 67 ára, sem áður hefur notið ellistyrks samkv. l. nr. 17 9. júlí 1909, um almennan ellistyrk.“ Mér er kunnugt um, að í skjóli þessa ákvæðis hafa ýmsar sveitarstj. framkvæmt þetta þannig, að til greina, við úthlutun ellistyrks hafi komið fólk, sem var á aldrinum milli 60-67 ára, ef um erfiðar heimilisástæður var að ræða, fátækt eða því um líkt. Eins og kunnugt er, hafa sveitarstj. haft á valdi sínu að ákveða upphæð styrkjanna og ákveða, hverjar kæmu til greina af umsóknum um styrkina. En með þessu frv. á að breyta því, það hverfur úr höndum hreppsn. og Tryggingastofnun ríkisins greiðir hverjum aðila beint heim til hans þá upphæð, sem l. ákveða. Nú vildi ég mega leitast fyrir um það hjá hæstv. félmrh. og frsm. þessa máls, hvernig þetta atriði sé frekar í þessu frv., sem hér er til umr. Ég hef ekki orðið þess var, að í því standi ákvæði, sem taki þetta með í reikninginn, en vel má vera, að svo sé, og væri æskilegt að fá skýringar um það. En ég sé það ekki, og tel ég fulla ástæðu til þess fyrir 3. umr. málsins að gefa því gaum, hvort ekki væri ástæða til þess að flytja brtt. í þessa átt, því að mér sýnist, að annars sé hér að skapast alveg sama viðhorfið nú og þegar brbl. voru sett fyrir 10 árum síðan.

Ég skal svo fara að stytta mál mitt. Ég hef drepið hér á nokkur atriði og sýnt fram á,. að því miður vantar nokkuð á, að þetta frv. sé svo úr garði gera, að það sé alls kostar viðunandi eins og það liggur fyrir. Og ég skal að lokum aðeins minna á það, að hið sérstaka gjald fyrir iðgjaldaskírteini verði ekki innheimt sérstaklega, heldur skoðist það sem hluti af iðgjaldi þess árs. Þarna er að vísu ekki um stórt atriði að ræða, en þó þykir mér eðlilegt, að þessi breyt. nái framgangi, og vænti þess, að henni verði vel tekið hér í hv. d.

Ég skal svo láta þessar aths. nægja, a. m. k. að sinni.