24.04.1946
Neðri deild: 118. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (3232)

139. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Ég mun ekki blanda mér í þær deilur, sem hér fara fram, að öðru leyti en því, að ég vil ekki, að nafn mitt sé misnotað í þessum umræðum. Ég lýsi það algerlega rangt, að fram hafi farið einhverjir glæpsamlegir samningar í þessu máli milli Sjálfstfl. og Alþfl. Og sömuleiðis er það algerlega rangt og gripið úr lausu lofti, að ég hafi á nokkurn hátt ginnt Alþfl. eða neytt hann til sérstakra samninga. Sannleikurinn er sá, að það varð samkomulag um það milli Sjálfstfl. og Alþfl. að binda ríkinu ekki stærri bagga en 20 millj. kr. til trygginganna, en til þess þurfti að fella niður áætlun frv. um 4 millj. Til þess voru valdir utanþingssérfræðingar og málið síðan látið ganga til atkv. í Ed.

Í I. kafla frv. telja sósíalistar, að mér hafi yfirsézt og ég ekki tryggt, að vald Alþfl. gengi ekki úr hófi fram í sambandi við stjórn trygginganna. Ég vil taka þetta fram, þó að ég telji hins vegar ekki tíma til að fara nánar út í það atriði, að hér var um tvenns konar samning að ræða, annars vegar um efniskaflann eða lækkun á skuldbindingargjaldi ríkissjóðs, en hins vegar um l. kaflann eða valdakafla frv. Ég skal geta þess, að mér fyrir mitt leyti er alls ekki sársaukalaust að draga úr bótum til ekkna, frekar en sósíalistum, og ég tel víst, eins og fram hefur komið, að Alþfl. hafi ekki verið það geðfellt. Rætt var um þetta innan stjórnarveggjanna aðfaranótt 10. þ. m. Þar voru fulltrúar allra stjórnarflokkanna. Í þeim umr. bar fulltrúi sósíalista fram till. til hækkunar, en við það gat ég ekki sætt mig, þó að ég vissi hins vegar, að Alþfl. eða fulltrúi hans ætti erfitt með að vera á móti. Eftir miklar umræður lét fulltrúi sósíalista orð falla í þá átt, að hann gæti ekki sætt sig við, að dregið yrði úr styrk til ekkna, en hins vegar gæti hann til samkomulags sætt sig við, að felldir yrðu hinir tveir liðirnir, þ. e. um styrk til jarðarfara og atvinnustofnunina.

Ef sósíalistar telja fram hjá sér gengið af minni hendi, þá er við mig að sakast. En Alþfl. getur þá einnig sakazt við mig út af því, að ég hafi ekki borið undir hann það, sem ég hef verið að semja um við sósíalista varðandi hin mikilsverðustu mál, sem borin eru fram fyrir tilmæli hæstv. menntmrh.