24.04.1946
Neðri deild: 118. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (3233)

139. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Ég hef áður gert grein fyrir brtt. minni á þskj. 910. Hv. 4. þm. Reykv., sem er frsm. n., ræddi nokkuð áðan um sumar af brtt. mínum, en hann talaði þó ekkert um fyrstu brtt., sem er við 34. gr. frv. — 34. gr. er, sem kunnugt er, um greiðslur til kvenna, sem eignast börn. Samkv. þessari gr. geta konur, sem vinna utan heimilis, fengið 500 kr. styrk auk vísitöluuppbótar, en þær, sem ekki vinna úti, fá ekki nema 200 kr. Þegar ég gerði grein fyrir þessari brtt. minni, þar sem lagt er til, að allar konur fái 300 kr., þá óskaði ég eftir, að hv. frsm. n. færði rök fyrir því, ef einhver væru, að gera þannig upp á milli kvennanna. Hv. 4. þm. Reykv. minntist ekkert á þetta, enda eðlilegt, því að ég hugsa, að rök fyrir þessu séu torfundin.

Um aðra brtt. mína, varðandi slysatryggingar, er það að segja, að samkv. frv. eru aðeins svokallaðir launþegar tryggðir, allir aðrir eru þar utan við, þar á meðal bændur landsins, 6000 að tölu, sem taldir eru atvinnurekendur, þótt þeir hafi enga menn í vinnu. En ef þetta verður ekki lagfært, þá er það rangnefni að kalla þetta almannatryggingar, því að þá eru þetta fyrst og fremst launþegatryggingar. Mér finnst, að ekki eigi þannig að gera upp á milli manna. Allir, sem slasast við vinnu, eiga að hafa sömu tryggingu.

Hv. 4. þm. Reykv. segir, að ef brtt. mínar verði samþ., þá raski það fjárhagsgrundvellinum, sem frv. er byggt á. Ég sé ekki, að sá hluti frv., sem fjallar um tekjuöflun, sé sá vísdómur, að ekki megi breyta neinu þar. — 112. og 113. gr. frv. eru um iðgjaldagreiðslur. Samkv. 113. gr. eiga menn að greiða óákveðið aukagjald auk þess gjalds, er 112. gr. fjallar um. Það á að flokka þetta niður eftir slysahættu við störfin. En ég fæ ekki séð, hvaða ástæða er til að skipta þessu í tvennt, í tvær frvgr. Ég held það ætti að vera auðvelt að finna heppilegra fyrirkomulag og losna við eitthvað af allri þessari skriffinnsku. Það væri einfaldara að láta atvinnurekendur greiða í einu lagi ákveðinn hundraðshluta af vinnulaunum eða tekjum. Það getur verið ef tími vinnst til, að ég athugi þetta nánar fyrir 3. umr. og kæmi með brtt. við þessar greinar.

Þá ræddi hv. 4. þm. Reykv. um sjúkratryggingarnar, en fór þar á tæpu vaði í sínum röksemdafærslum. Þessi ákvæði eru þannig nú, að þeir, sem starfa í annarra þjónustu, eiga rétt á sjúkrabótum frá og með 11. veikindadegi í kaupstöðum, en utan kaupstaða eiga þeir sama rétt, en þó því aðeins, að þeir liggi í sjúkrahúsi eða hafi verið rúmfastir heima samtals 4 vikur, ef um launþega er að ræða, en annars 8 vikur. En þó getur Tryggingastofnunin greitt þeim bætur, þótt þeir hafi ekki legið rúmfastir, frá og með 11. degi. Í öðru tilfellinu er skýlaus réttur, en í hinu möguleiki að fá sömu bætur, ef ráðsmönnum þessara mála þóknast. Samkv. þessu eru sjúkrabæturnar bundnar við, að hlutaðeigandi fari í sjúkrahús eða að atvinnurekstur hans stöðvist. En það getur nú verið erfitt að koma mönnum í sjúkrahús og einnig varhugavert, að þetta sé bundið því skilyrði, að atvinnurekstur stöðvist. Tökum t. d. bónda, sem á konu og börn. Ef bóndinn veikist, þá reynir konan í lengstu lög að halda við búskapnum, en þá fær bóndinn engar sjúkrabætur. Þetta er óviðunandi, og hv. 4. þm. Reykv. færði engin rök fyrir því, að þetta ætti að vera svona.

Ég á 3 nýjar brtt. á þskj. 954, og vildi ég vekja athygli hæstv. forseta á því, að eftir er að leita afbrigða fyrir þeim. Þessar brtt. mínar eru við brtt. á þskj. 937, frá hv. 2. þm. N.-M. Hann flytur brtt. við frv. í 13 liðum, og tel ég, að ekki sé hægt að samþ. sumar þeirra. Í 10. till., við 107. gr. frv., er lagt til, að iðgjöldin séu jöfn um allt land, og er ég samþ. því, og er það í samræmi við till. hans um, að allt landið verði eitt verðlagssvæði. Hv. þm. leggur til, að þeir, sem hafa 15 þús. kr. tekjur eða minna, skuli greiða 1% af nettótekjum sínum. Þeir, sem hafa milli 15 þús. og 30 þús. kr. tekjur, skulu greiða 1½%, en þeir, sem hafa yfir 30 þús. kr. tekjur, skulu greiða 2% af tekjum sínum. Samkvæmt þessu, ef samþ. verður, hækka iðgjöld á þeim, sem hafa meðaltekjur. Ég hef reiknað út, að eftir þessu þurfa hjón, sem búa utan Rvíkur með 2 börn á framfæri sínu og með 15 þús. kr. tekjur, að greiða hærri iðgjöld en samkv. frv. óbreyttu. — Þá tel ég ekki rétt að leggja þessi gjöld á félög. Ég legg því til, að liðurinn orðist svo:

„Iðgjöld skulu vera sem hér segir:

Kvæntir karlar ........ kr.120.00 á ári

Ókvæntir karlar . . . — 96.00 — —

Ógiftar konur . . . . . . — 72.00 — —

Auk þessara iðgjalda skulu einstaklingar greiða árlega 1% af hreinum tekjum sinum að frádregnum kr. 3000.00 og persónugjaldi, er sé kr. 1200.00 fyrir hvern einstakling yfir 16 ára aldur og kr. 800.00 fyrir hvert barn, allt að viðbættri hækkun samkvæmt vísitölu kauplagsnefndar.“

Ef þessi brtt. mín verður samþ., þá er tryggt, að gjöldin á fólki með meðaltekjur verða ekki hærri en frv. nú gerir ráð fyrir.

2. brtt. mín á þskj. 954 er við 11. lið, sem er brtt. við 112. gr. Hv. þm. N.-M. leggur þar til, að „hver sá, er hefur í þjónustu sinni launþega, einn eða fleiri, sem rétt eiga til slysabóta, sbr. 45.–58. gr., skal greiða Tryggingastofnuninni eina krónu fyrir hverjar hundrað krónur, sem hann greiðir í kaup til launþega sinna.“ Ég er sammála hv. 2. þm. N.-M. um að gera breyt. á 112. gr. En ég vil þó undanskilja þá menn gjaldinu, er hafa nánustu venzlamenn sína í vinnu. Það á ekki heldur að taka smáupphæðir með í reikninginn. Það er ekki ástæða til að innheimta, hvað lítið sem um er að ræða. Gerir það framkvæmdir allar erfiðari. Ef menn taka fólk í vinnu, á skv. frv. að borga kr. 1,50 á viku að viðbættri vísitölu. Er mikil vinna að snapa þetta saman. Ég legg því til í minni till., að gjald þetta reiknist ekki nema kaupgreiðslurnar fari árlega yfir 10 þús. kr. — Með þessum breyt. gæti ég fylgt brtt. hv. 2. þm. N.-M. Annars tel ég, að steypa ætti saman 112. og 113. gr.

Loks er 3. brtt. mín, og er hún við 13. brtt., við lið b. Þar stendur: „sbr. 197. gr.,“ en á að vera: 107. gr. Ég geri og þá breyt., að við bætist: og 112. gr. Sé ég enga ástæðu til að bæta hækkun skv. vísitölu ofan á það prósentugjald. (PZ: Sbr. breyt. forseta frá í gær).

Hv. 2. þm. Reykv. flutti ræðu um mál þetta áðan. Henni var að mestu leyti beint til hv. 4. þm. Reykv., og eru mér viðskipti þeirra óviðkomandi. En hv. 2. þm. Reykv. talaði þó um, að það væri rangt hjá framsóknarmönnum, að fjárhagsgrundvöllinn vantaði undir þessa lagasetningu. Það þýðir að mínu áliti lítið að byggja slíka kastala nema á traustum grundvelli. Verður ekki hrakið með fullyrðingum hans, að slíkt er lítilsvirði. En ég vil bara minna hv. þm. á ummæli hv. 6. landsk., flokksbróður hans, fyrir einni viku við 1. umr. málsins. Sá hv. þm. sagði, að athuga þyrfti, hvaða möguleika sveitarfélögin hefðu til að rísa undir þessum gjöldum. Hann efaðist um getu sumra þeirra til þess. — Ég held, að málið hefði gott af því, að þetta yrði athugað betur, áður en frv. verður í l. tekið. Bæði yrði fjárhagshliðin athuguð nánar og svo misfellurnar. Þótt hv. 4. þm. Reykv. tali um, að vel sé frá frv. gengið, er þó hægt að koma auga á áberandi og mjög freklegt misrétti. Við þetta er alls eigi unandi, og er nauðsynlegt, að sú hlið málsins verði enn frekar tekin til athugunar.