24.04.1946
Neðri deild: 118. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2009 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

139. mál, almannatryggingar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Við orð, sem hér hafa fallið, vil ég taka það fram, að á tveim fyrstu fundum þessarar hv. d. við eina umr. málsins leit út fyrir, að engum staf mætti breyta í frv. Ég fékk þó n. til að taka upp nokkrar breyt. á þskj. 936. Þetta ber vitni meðferðar málsins í Ed.Hv. 4. þm. Reykv. hefur lýst því svo, að frv. sé vel undirbúið. Það er nú svo. En þó þurfti að gera 11 leiðréttingar á því. Frv. var og aldrei lesið saman í n. Þetta sýnir hinn ágæta undirbúning, sem hv. 4. þm. Reykv. getur eigi nógsamlega lofað! Hann sagði, að sjálfsagt væri að hafa tvö verðlagssvæði á landinu. En hann gleymdi að rökstyðja þetta og gera frekari grein fyrir þessari skoðun sinni. Það stafar af því, að hann getur ekki réttlætt að gera þann mismun þegnanna, sem í frv. felst, mismun, sem er í því fólginn, að gera upp á milli manna eftir því, hvar þeir búa í landinu. Þessi hv. þm. er kominn í mótsögn við sjálfan sig. Menn fá sama persónufrádrátt í skatti hvar sem þeir búa á landinu. Hið sama gildir alls staðar. Þannig hefur það gengið í tvö ár, og heldur sjálfsagt áfram. Þá er kaupgjald orðið hið sama alls staðar. — Þetta misrétti, sem hér á að innleiða, byggist á því, að menn eyði misjafnlega miklu á ýmsum stöðum á landinu. En hv. þm. mun ekki sjá mikinn mismun á nettótekjum verkamanna hér í Rvík og einhvers staðar úti á landi, t. d. í einhverju smáþorpi. Hitt er laukrétt, að brúttótekjurnar eru miklu meiri í Rvík en annars staðar. — Ég tel, að verkamaður eigi ekki að fá meiri tekjur hjá tryggingunum, þótt hann búi í Rvík. — Svo skildi ég þögn hv. 4. þm. Reykv. um brtt. mína við 112. gr., að hann væri með henni, því að sagt er, að þögn sé sama og samþykki. En sú breyt. breytir algerlega grundvelli þeim, sem nú er byggt á, þ. e. kr. 1.50 fyrir hverja vinnuviku, hvort sem um ungling eða múrara er að ræða. Ég ætlast til þess, með því að breyta gjaldinu í prósentugjald af greiddu kaupi, að vinnuveitandinn greiði eftir gagni því, sem hann hefur af vinnunni. Verður að miða við það. Því er eðlilegt, að greitt kaupgjald sé látið ráða, því að ætla verður að vinnuveitandi hafi meira gagn af vinnu kaupdýra mannsins en hins. — Mér er mjög kappsmál að fá þessa till. samþ. Ég held, að hún hafi ekki verið mikið rædd í n., það hafi ekki fengizt.

Ég segi ekki neitt um brtt. hv. þm. V.-Húnv. Aðrir verða sjálfsagt með henni. — Ég legg ríka áherzlu á 10. brtt. mína, og er að því leyti hið sama um hana að segja og hina fyrri. Til eru stór svæði á landinu, þar sem það munar fjölskylduföðurinn um mikið, hvort hann greiðir 500 kr. eða 300 kr. á ári til trygginganna. Fer betur á, að nokkuð verði greitt sem prósentugjald. Mér skilst, að hjón eigi að borga 180 kr. að viðbættri vísitöluhækkun eða samtals um 300 kr. Ég get eigi skilið, að þess sé þörf. Samkv. till. minni verður þeim gert að greiða 120 kr. eða lægra en nú er ráð fyrir gert, nefnilega að viðbættri vísitöluhækkun 213 kr., og er þá tekinn með frádráttur barna.

Ég ætla ekki að blanda mér í deilur þær, er hér hafa komið upp. En ég varð var við, þegar ég starfaði í n. í Ed., að samkomulag var milli allra stjórnarflokkanna þriggja. Er ég kom í n. var þó ekkert samkomulag orðið um I. kaflann.

Ég læt þess getið, ef till. mínar verða samþ., að þá mun ég bera fram við 3. umr. málsins till. um 2–3 breyt. enn, sem verða bein afleiðing hinna. Þarf nauðsynlega að gera það.

Ég hef svo ekki þessi orð öllu fleiri. — Eins og ég tók fram áðan, eru í frv. ákvæði, sem gera þegnunum hróplegt ranglæti að ýmsu leyti. En af þessu leiðir svo ranglæti í fleiri myndum. Á hinn bóginn, nái brtt. mínar fram að ganga, þá lagast þetta. Og það, sem ég legg til málanna, er byggt á sama grundvelli og frv. sjálft. Það er eftir sem áður jafnöruggt fyrir hina tryggðu. Er og ekki um neina hækkun útgjalda að ræða. Till. mínar standast alveg við allt, sem til var ætlazt í frv.

Að lokum vona ég — með tilvísun í hól hv. 4. þm. Reykv. um frv., — að næst þurfi ekki að setja 11 leiðréttingar í það.