24.04.1946
Neðri deild: 118. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

139. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er vitanlega þýðingarlaust að ræða þetta mál hér frekar. Það er þýðingarlaust vegna þess, að hv. 4. þm. Reykv. virðist hafa gefizt upp við að verja þær misfellur, sem bent hefur verið á, að séu á þessu frv. Hann sagði hér áðan, að mönnum væri mismunað eftir fjárhagslegri getu. Hv. þm. A.-Sk. hefur bent á, að þetta er ranghermi. Hér er alls ekki farið eftir fjárhagslegri getu. Margir þeir, sem erfiðast eiga, eru undanskildir réttindum frv.

En ég kvaddi mér einkum hljóðs í tilefni af því, sem hv. þm. N.-M. sagði áðan. Ég hef haldið því fram, að brtt. hans við 27. gr. verkaði þannig, að iðgjaldagreiðslur hækkuðu fyrir menn með meðaltekjur. Hv. þm. N.-M. kvaðst ekki geta skilið þetta, en ef hann vill taka dæmi af hjónum utan Rvíkur með tvö börn og 15 þús. kr. tekjur og reikna þetta út, bæði skv. frv. og sinni till., þá vænti ég, að hann sjái, að það var rétt, sem ég fór með, að hans till. þýðir hækkun. Miði maður við 16 þús. kr. tekjur, er hækkunin enn meiri. Till. hans stefnir og í þá átt að hækka gjöld á atvinnurekendum, en ég tel nóg á þá lagt í frv. Gert er ráð fyrir, að framlag þeirra hækki um 7,6 millj. kr. eða 181% frá því, sem áður var, og er það hlutfallslega langmesta hækkun á einum aðila af þeim, sem fé skulu leggja til trygginganna. — Það virðist vera orðið svo í seinni tíð, að orðið atvinnurekandi hljómi í eyrum margra sem skammaryrði, einkum er það svo hjá stjórnarflokkunum, og þykir sjálfsagt að gera þeirra hlut verri en annarra í þjóðfélaginu. Gildir þar sama um þá, sem hafa menn í þjónustu sinni, og hina, sem vinna mest sjálfir að sínum atvinnurekstri. Ég álít, að skv. frv. sé meira en nóg á þessa menn lagt og ekki ástæða að bæta þar neinu á.