24.04.1946
Neðri deild: 119. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2015 í B-deild Alþingistíðinda. (3252)

139. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Brtt. þær, sem ég hafði flutt við 2. umr. á þskj. 910 og 954, tók ég aftur til 3. umr. Vil ég óska, að þær komi til atkv. við 3. umr., án þess að ég leggi þær fram á ný. Ég vil enn fremur leyfa mér að leggja fram tvær skriflegar brtt. Sú fyrri er við 9. gr. frv. Ég vil leggja til, að upphaf 9. gr. orðist svo: Vinnuveitendafélag Íslands, Stéttarsamband bænda og Alþýðusamband Íslands skipa hvert um sig einn mann, o. s. frv. Ég flyt þessa brtt. vegna þess, að stéttarfélag bænda er ekki í Vinnuveitendafélagi Íslands né í Alþýðusambandinu. — Hin brtt. er við 64. gr. frv., en sú gr. hljóðar svo: „Fastir starfsmenn skulu aldrei missa neins í af launum sínum, í hverju sem þau eru greidd, fyrstu fjórtán dagana eftir að þeir forfallast frá vinnu sökum sjúkdóma eða slysa, en njóta skulu þeir kaupgreiðslu um lengri tíma, ef svo er mælt fyrir í sérstökum lögum, samningum eða slíkt leiðir af venju í þeirri starfsgrein.“ Ég tel þessa gr. ekki eiga heima í frv. Í samningum milli vinnuveitenda og launþega eru ákvæði um þetta, og standa þau áfram. Ég legg því til, að þessi gr. falli niður.

Ég gat þess við 2. umr., að ég teldi ástæðu til að gera breyt. við 112. og 113. gr., sem eru um iðgjaldagreiðslur atvinnurekenda. Ég taldi, að hægt mundi vera að hafa þetta einfaldara, með minni skriffinnsku og minni kostnaði. Ég hef ekki haft tækifæri til að bera fram brtt. við þessar gr., sökum þess hversu skammt er liðið frá 2. umr.