26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2018 í B-deild Alþingistíðinda. (3266)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. Nd. hefur gert nokkrar breyt. á frv. þessu frá því, sem það var afgr. hér í þessari hv. d. Flestar þeirra eru leiðréttingar á tilvísunum, sem ég hirði ekki að rekja. En þær, sem um annað fjalla, eru í fyrsta lagi breyt., sem gerð var á 11. gr., að aftan við 2. mgr. bætist: „eftir ákvörðun tryggingaráðs.“

Þá var breytt. 42. gr. (miðað við núverandi greinatölu á þskj. nr. 980). Samkv. frv., eins og það fór héðan frá hv. d., var gert ráð fyrir því, að heimilt væri að greiða sjúkrabætur til atvinnurekenda eftir sömu reglum og til launþega, ef þeir lægju veikir og væru frá störfum. Þessu var breytt í hv. Nd. þannig, að þeir smáframleiðendur, sem liggja á sjúkrahúsi, skuli, ef þeir falla undir ákvæði 2. mgr. 39. gr., eiga sama rétt eins og launþegar um sjúkratryggingar og eftir sömu reglum.

Þriðja breyt. er sú, að bætt er nýju bráðabirgðaákvæði aftan við frv., sem er nr. 11 á þskj. 980. Samkv. því eiga stjórnir sjúkrasamlaga í kaupstöðum utan Rvíkur að fara með störf trygginganefnda til ársloka 1947 og annast til sama tíma skrifstofuhald og umboðsstörf fyrir Tryggingastofnunina, samkv. samningum, er tryggingaráð samþykkir.

Ég hef borið mig saman við hv. meðnm. mína í heilbr.- og félmn. þessarar d., og meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það hefur komið frá hv. Nd. En einn hv. nm., hv. þm. Str., hefur ekki látið uppi afstöðu sína til málsins.