14.12.1945
Neðri deild: 53. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (3270)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt inn í þingið eftir beiðni hæstv. félmrh., en nefndarmenn í heilbr.- og félmn. hafa óbundin atkv. um frv. og óbundin atkv. um brtt., sem fram kunna að koma, og sömuleiðis um að bera fram brtt. Frv. hefur verið lauslega lesið yfir í n., en það er samið af Jónasi Guðmundssyni, eftirlitsmanni sveitarstjórnarmálefna. Og hann hefur óskað eftir að koma á fund í n. og ræða við n. um frv. og ástæðurnar fyrir því, að það er fram borið. Og heilbr.- og félmn. mun þess vegna milli umr. taka frv. fyrir til gagngerðrar athugunar. — Þessa vildi ég láta getið og jafnframt hins, að ég óska þess, að hæstv. forseti taki ekki málið á dagskrá aftur fyrr en n. segir til um það, að hún sé búin að tala við Jónas Guðmundsson um það, og fram eru komnar brtt. við frv. frá n., ef um þær verður að ræða.

Það, sem þetta frv. fer fram á, er, að myndaður verði nýr hreppur í Árnessýslu, sem heiti Selfosshreppur. Tildrög þessa frv. eru þau, að þróun undanfarinna ára hefur verið sú, að kringum Ölfusárbrú hefur myndazt þorp, og þetta þorp er myndað þannig, að það hefur byggzt upp í þremur hreppum, en þó aðallega í Sandvíkurhreppi. Sá hluti þess, sem byggður er í þeim hreppi, er orðinn það mannmargur, að hann hefur að lögum rétt til þess að fá sig skilinn frá Sandvíkurhreppi sem sérstakan hrepp: Syðsti hluti þorpsins er í Hraungerðishreppi, og þeir menn, sem í þeim hluta þorpsins búa, stunda flestir atvinnu við Mjólkurbú Flóamanna, sem líka er í Hraungerðishreppi, — þó gera þeir það ekki allir. Nokkrir þeirra stunda atvinnu í þeim hluta þorpsins, sem byggður er í Sandvíkurhreppi. Sá hluti þessa þorps, sem byggður er hérna megin Ölfusár, er svo byggður í Ölfushreppi. Og þetta þorp, ,sem þarna hefur myndazt á hreppamörkum þriggja hreppa og stendur í þeim öllum að einhverju leyti, hefur, eins og gefur að skilja, ýmis sameiginleg mál, sem eðlilegast er, að þeir leysi sameiginlega, svo sem skólamál, vatnsleiðslumál, holræsagerð, vegalagningar og gatnagerð o. s. frv., sem erfitt er fyrir þorpsbúa að leysa sameiginlega, ef þeir eiga heima í þremur hreppsfélögum. Þess vegna er þetta frv. fram komið eftir óskum manna þeirra, sem búa í þessu þorpi. Hins vegar er það svo, að við þessa sameiningu þorpsins í einn hrepp missa Hraungerðishreppur og Ölfushreppur nokkra gjaldendur, og hreppsnefndir beggja þessara hreppa hafa lýst sig andvíga þessari breyt. á hreppaskipuninni. Það er því þannig, að þó að reynt hafi verið að ná samkomulagi viðkomandi hreppsnefnda um, að þarna myndaðist sérstakur hreppur, Selfosshreppur, þar sem öll Selfossbyggðin væri í hreppnum, hefur það ekki náðst. Og þess vegna hefur Jónas Guðmundsson talið nauðsynlegt og félmrh. líka, að málinu verði skipað með sérstökum l. Hvort þau svo eiga að vera alveg eins og frv. þetta eða hvort taka á tillit til álits viðkomandi hreppsnefnda, skal ég ekki segja um að svo stöddu. Um það hefur n. enga ákvörðun tekið. En það mun verða haldinn fundur um þetta í n., þar sem Jónas Guðmundsson verður til viðræðu um málið. Og má vel vera, að n. sjái líka ástæðu til að halda slíkan fund með oddvitum hreppanna,. sem eiga hlut að máli. — Ég óska að málið verði ekki tekið á dagskrá aftur fyrr en n. hefur, látið hæstv. forseta vita, að málið sé frá hennar hendi tilbúið til frekari afgreiðslu.