15.03.1946
Neðri deild: 88. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (3289)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 455 brtt. við þetta frv., ásamt hv. 4. þm. Reykv. Þessi brtt. fer í þá átt, að væntanlegur Selfosshreppur fái eignarnámsheimild á þeim löndum, sem hann kemur til með að ná yfir. Það hefur nú undanfarið verið rætt talsvert um eignarnámsheimildir, bæði almennt og í einstökum tilfellum. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér, heldur aðeins taka fram, að ég tel betra og heppilegra, að hreppar eigi þau lönd, sem þeir standa í: Hv. 2. þm. Eyf. taldi þessa brtt. okkar hv. 4. þm. Reykv. órökstudda. En mér finnst þetta vera svo- augljóst mál, að ekki þurfi að rökstyðja það: Hins vegar er mér kunnugt um, að um þetta mál eru mjög skiptar skoðanir.

Um frv. að öðru leyti og brtt. við það, sem eru næsta margar, finnst mér rétt að taka það fram, að mér finnst mestu skipta, að hinu nýja kauptúni verði séð fyrir nægu landrými, svo að þróunin þar geti orðið eðlileg, og því verði séð um, að togstreita um hreppamörkin verði ekki til þess að torvelda eðlilegar framkvæmdir.

Hv. 2. þm. Eyf. flytur hér brtt. í þá átt að skerða það land, sem væntanlegum Selfosshreppi er ætlað í upprunalega frv., með því að taka undan skika úr Hraungerðishreppi, sem frv. gerir ráð fyrir, að sameinist þessum væntanlega hreppi. Mér finnst þessi brtt. hv. þm. fráleit að því leyti, að sá skiki af Hraungerðishreppi, sem þar er um að ræða, á, legu sinnar vegna, að heyra undir Selfosshrepp, auk þess sem ýmsar framkvæmdir, sem til almenningsheilla horfa, svo sem bæði vatnsveita og væntanleg rafveita, eins og líka hitaveita, sem er í undirbúningi þar, hljóta að vera, sameiginlegt mál þeirra manna, sem búa á þessum skika, og hinna, sem búa í því eiginlega Selfosskauptúni sem nú er. Ég geri ráð fyrir, að þessu fólki, sem á þessum skika byggi, þætti hart að vera útilokað frá þessum sjálfsögðu þægindum, sem þarna væru rétt við bæjarvegginn hjá þeim. — Mér finnst því brtt. þessa hv. þm. svo fráleit, að ég leyfi mér að mæla gegn henni, en hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 545, þar sem ég legg til, að ekki aðeins þessi sneið af Laugardælalandi, sem nefnd er í 1. gr. frv., verði lögð undir þorpið, heldur að jörðin Laugardælir í Hraungerðishreppi falli undir hinn væntanlega Selfosshrepp.

Önnur brtt. er hér, sem hv. 2. þm. N.-M. flytur á þskj. 458, sem gerir ráð fyrir því, að Sandvíkurhreppur falli allur undir hinn nýja hrepp, að undantekinni svo nefndri Flóagaflstorfu sem tillögumaður leggur til, að leggist undir Eyrarbakkahrepp. Ég fyrir mitt leyti gæti vel fallizt á þessa brtt. hv. þm., og sérstaklega finnst mér allt mæla með því, að Eyrarbakkahreppur fái Flóagaflstorfuna, því hún hefur um margra ára skeið verið nytjuð af Eyrbekkingum.

Mér finnst, að hv. þd. eigi að láta þetta mál fá þá afgreiðslu, að hinum nýja hreppi verði ekki skorinn of þröngur stakkur, svo þröngur, að framkvæmdir til hagsbóta fyrir þetta kauptún tefjist þess vegna og þannig verði komið í veg fyrir eðlilega þróun þorpsins.

Hv. 2. þm. Eyf. talaði um, að mál þetta væri ekki nógu vel undirbúið og að leita þyrfti samkomulags þessara hreppa, sem lönd, sem eiga að mynda þennan nýja hrepp, verða tekin úr. En mér finnst ekki ástæða til að gera ráð fyrir, að samkomulag um þetta mál muni batna frá því, sem nú er heima í héraði. Því að við í félmn. höfðum tækifæri til þess að tala við oddvita þessara hreppa, og samkomulagið hjá þeim var þannig, að ekki er við því að búast, að til sátta dragi um þetta mál milli þeirra heima fyrir.