18.03.1946
Neðri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2072 í B-deild Alþingistíðinda. (3293)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Mér virðast þau vandræði, sem skapazt hafa út af því þorpi, sem hefur vaxið þarna upp á þrem hreppatakmörkum, verði á engan hátt leyst nema með löggjöf, og ef hv. Alþ. skýtur sér undan því að leysa þessi vandræði, verða þau óleyst um ófyrirsjáanlegan tíma. — Í þorpi, sem rís upp á þrem hreppatakmörkum, er — eins og hv. 11. landsk. (STh) benti á — ekki hægt að koma við nauðsynlegum heilbrigðisráðstöfunum, sem alls staðar í þéttbýli er þörf á, svo sem vatnsveitu, skolpleiðslu o. fl. þess háttar, enn fremur er vissa fyrir því, að þorpið rís þarna upp, án þess að á því verði nokkurt skipulag. Þess vegna er það ábyrgðarhluti fyrir hv. Alþ. að skjóta sér undan því að kveða upp úrskurð í þessu máli. Mér finnst, að hv. 1. þm. Árn. ætti frekar að leggjast með því, að hv. Alþ. kveði upp úskurð í málinu, en að vera með þann undandrátt, sem fram hefur komið hér í ræðum hans. Vitanlega er hv. þm. leyfilegt að hafa sína skoðun, en þar sem hér mun hafa hlaupið nokkur hreppapólitík í þetta mál, og það svo mikil, að ekki virðist nein leið að fá það afgr. í héraði, þá er komið til kasta hv. Alþ. að gera skyldu sína í því.

Það hefur hvað eftir annað í komið í ljós viðvíkjandi sveitaþorpum, sem eiga þó flest að mestöllu leyti afkomu sína undir sjávarútvegi, að þeim hefur upphaflega verið skammtað of lítið landrými. Hvað mundi þá verða um þorp uppi í landi, sem þarf miklu meira á landrými að halda en sjávarþorp, sem eiga afkomu sína undir sjávarútveginum?

Það má vel vera, að rétt sé að vísa að einhverju leyti til vissra stjórnarl. um hreppaskiptingar, en þeim verður ekki við komið hér, því að til þess að ákvæði sveitarstjórnarlaga um hreppaskiptingu geti komizt í framkvæmd, þarf samþ. hreppsn. og sýslun., en hér er hins vegar engu slíku til að dreifa. Eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna hefur leitað eftir því við sýslunefnd Árnessýslu og viðkomandi hreppsyfirvöld að ná samkomulagi um þetta mál, en í því hefur ekki orðið. Enn fremur hefur hv. félmn. boðið hreppsyfirvöldunum á fund hjá sér og haft tal af sýslumanni Árnessýslu, en niðurstaðan hefur orðið sú sama, að ekki hefur verið unnt að komast að viðunandi samkomulagi um málið. Ef við eigum því ekki að þurfa að horfa upp á, að þarna rísi upp skipulagslaust þéttbýli og án nauðsynlegra heilbrigðisráðstafana, getur hv. Alþ. ekki skotið sér undan því að afgreiða löggjöf um þetta.

Nú þegar liggja fyrir ýmsar brtt. við frv., og stefna sumar þeirra í þá átt að gera þetta þorp, sem er að vaxa upp í einni blómlegustu sveit sunnanlands, svo landlaust, að íbúar þess hafi enga möguleika á að hverfa til moldarinnar í frístundum sínum, og það undarlega skeður, að það eru einmitt þm. sveitanna, sem bera fram slíkar till., að frátalinni till. hv. 2. þm. N.-M. (PZ), sem stefnir í gagnstæða átt og virðist geta orðið til mikilla bóta, ef samþ. yrði. Ég hef þó haft um þessa till. þau ummæli við umr. í hv. d. áður, að ef til vill væri heppilegt að sameina það, sem eftir verður af Sandvíkurhr., Hraungerðishreppi, en nú hefur sýslumaður Árnessýslu upplýst, að a. m. k. verulegur hluti af íbúum Sandvíkurhr. muni heldur kjósa að tilheyra hinum nýja Selfosshr., og virðist því réttara að samþ. brtt. hv. 2. þm. N.-M. eins og hún liggur fyrir frekar en að sameina það Hraungerðishr., sem eftir verður af Sandvíkurhr.

Þá langar mig til að spyrja hv. form. heilbr.-og félmn. að því, hvort það sé ekki rétt, að hér liggi fyrir yfirlýsing og undirskriftir frá meiri hluta þeirra manna úr Hraungerðishreppi eða jafnvel flestöllum, sem búa í grennd við Mjólkurbú Flóamanna, um að þeir óski eindregið eftir því að sameinast Selfossbyggðinni. Enn fremur vildi ég spyrja hv. form. nefndarinnar, hvort ekki sé rétt, að Mjólkurbú Flóamanna sé samvinnufélag, og hvort það sé ekki útsvarsskylt.

Ég skal geta þess í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að samkomulag hefur orðið um að skipta Hveragerði úr Ölfushreppi. Þau skipti urðu nauðungarskipti fyrir Hveragerðishrepp. Ákvæði laganna eru þannig, að Alþingi hefur ekki leyfi til að skipta hreppum nema með samþykki sveitanna. Íbúar Hveragerðis töldu sér svo mikinn ávinning í að koma á skipulagi hjá sér og ýmsum hreinlætis- og heilsuatriðum, að þeir kusu heldur þennan nauðungarkost en að vera áfram í sveitarfélaginu. Nú liggur ekki fyrir, að Selfossi sé veittur þessi nauðungarkostur, vegna þess að ekkert samkomulag fæst í héraði hjá sveitarstjórnum og sýslunefnd. Mér var mjög nauðugt að skilja Hveragerði eftir landlaust, en ég gat ekki skorazt undan eindregnum tilmælum þeirra: Þar sem svo er ástatt eins og hér, að ekki er hægt einu sinni að gefa Selfossi slíka úrkosti og Hveragerði, en þörfin hins vegar mikil, þá ætti Alþingi að sjá sóma sinn í því að samþ. þetta frv. Það verður ekki gengið á rétt neins sveitarfélags með því. Ég tel þó, að það mundi verða mildasta lausnin á þessum deilum að samþ. brtt. frá hv. þm. Ak. og hv. 2. þm. Eyf. um að fella orðið „Árbæ“ burt.

Ég tel að bezt verði séð fyrir þessu máli með því, að Alþ. samþ. frv.