20.03.1946
Neðri deild: 91. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2080 í B-deild Alþingistíðinda. (3302)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég var að mestu leyti búinn að drepa á þau atriði, sem ég taldi miklu varða, í ræðu minni í gær, en átti þó nokkuð eftir.

Ég vil hér vekja sérstaka athygli á því, hvernig málið er undirbúið heiman að úr héraði og hversu erfitt hefur verið að taka á því sökum þess, hvernig undirbúningur, þar hefur farið fram. Þau gögn, sem fyrir liggja, benda líka til þess, að stjórnarvöldin í viðkomandi héruðum hafi fundið til þessa. Á aukafundi sýslun. Árnessýslu, sem haldinn var þann 29. okt. s. l., tók hún þetta mál fyrir, og segir þar í þeirri ályktun, sem þá var gerð, — með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar telur sýslun. undirbúningi málsins ábótavant, og leggur n. til, að sveitarstjórnirnar reyni að ná samkomulagi um öll atriði málsins, áður en því er lengra haldið.

Felur sýslun. oddvita sínum að kalla viðkomandi sveitarstjórnir saman til viðræðna um málið.“

Sýslumaður kveður síðan hreppsnefndirnar aftur á sinn fund, og eftir því sem séð verður af fskj., náðist ekki samkomulag um skiptingu milli hreppanna, og virðist svo sem frekari undirbúningur hafi ekki farið fram um málið, og ætla ég, að málið hafi ekki komið fyrir sýslun. síðan. Eftir þeim skjölum, sem hér liggja fyrir, virðist hreppsn. Ölfushr. og hreppsn. Hraungerðishr. hafa verið á móti öllum breyt., en af hálfu sýslunefndaroddvitans virðist ekki annað hafa verið gert, og þetta kalla ég mjög fjarri því, sem sýslun. í sinni ályktun ætlaðist upphaflega til, sem sé það, að sveitarstj. reyni að ná samkomulagi um öll atriði málsins. Mér þykir því, að slælega hafi verið að málinu unnið og alls ekki viðunandi.

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. ráðh., að það ættu að koma bætur, en allt liggur í lausu lofti um það, á hvaða grundvelli málið verði tekið í því efni. — Nú lét hæstv. ráðh. það í ljós, að hann vildi fyrir sitt leyti útkljá þetta mál þannig, að ekki yrði hallað á rétt hvorugs aðila við afgreiðslu málsins, og þótt mér heyrðist á nokkrum atriðum í ræðu hans, að hann legði fullmikla áherzlu á að koma málinu fram, þá þótti mér vænt um að heyra þessi ummæli hans um að óska eftir að afgreiða málið þannig, að á hvorugan aðila yrði hallað. Eins og málið liggur nú fyrir, eru horfur á, að annað sveitarfélagið missi 1/3 hluta af tekjum sínum, og engin vissa fyrir því, hve miklar bætur fáist í staðinn, en það verður undir því mati komið, sem kann að fara fram, en fyrirfram er allt í óvissu með þetta, og þótt þeir menn, sem kunna að taka þetta mat að sér, vildu sýna sanngirni, þá er engan veginn víst, að niðurstaða þeirra yrði rétt, án þess að betri undirbúningur fari fram í þessum efnum. — Hæstv. ráðh. drap á það, að þótt málið gengi fram við þessa umr., þá mætti taka það til nákvæmari athugunar milli umr., en af því, hve margvíslegar till eru, sem fyrir liggja, og ganga sitt í hverja áttina, og getur enginn sagt fyrir um það, hvernig atkv. kunna að falla, þá sýnist mér tilhlýðilegt að leyfa málinu að ganga óbreyttu í þetta sinn til 3. umr. og láta ekki fara fram atkvgr. um neinar brtt., sem fyrir liggja við málið, en tryggja síðan betri úrlausn á málinu milli umr., þannig að afgreiðsla þess verði sú að lokum, að hagsmunir beggja aðila verði tryggðir. Vil ég beina þessum ummælum mínum fyrst og fremst til hæstv. ráðh. með ósk um, að hann láti í ljós skoðun sína á þessu atriði, þótt ég þykist fyrirfram vita, að hann sé þessu ekki mótfallinn. Sömuleiðis vil ég beina því til hv. n., hvort hún geti ekki fallizt á að taka sínar till. aftur við þessa umr. og láta atkvgr. bíða um þær, þar til við 3. umr., en athuga málið milli umr., hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi, sem geti tryggt sanngjarnari afgreiðslu málsins en ef atkvgr. væri nú látin fara fram um frv. og brtt. við það.

Ég viðurkenni fullkomlega þörf á afgreiðslu þessa máls og skil vel óskir þeirra manna, sem búa kringum Flóabúið, eins og ég lét hér í ljós í gær, en jafnframt verður að tryggja, eftir því sem verða má, hagsmuni sveitarfélags þess, sem þeir skilja við.