20.03.1946
Neðri deild: 91. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (3303)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil lýsa því yfir út af ræðu hv. 1. þm. Árn., — og vitna um það til grg., sem fylgir frv. því, sem hér er til umr., — að fullkominn undirbúningur hefur farið fram heima í héraði eins og ætlazt er til samkv. l., þegar um slík skipti eins og hér er um að ræða, en sá undirbúningur hefur ekki leitt til þess, að unnt væri að ná nokkru samkomulagi um það, svo sem grg. frv. ber með sér. Hreppsn. Sandvíkurhr. hefur átt fund með hreppsn. Hraungerðishr. og Ölfushr., en milli þessara hreppsn. hefur ekki náðst neitt samkomulag annað en það, að tilnefndir skuli 2 menn af hálfu hverrar hreppsn. til þess að semja um fjárskipti og þau atriði, sem málið varða, ef málið færi svo langt, að því yrði ráðið til lykta með l. frá Alþ. Að öðru leyti hafa hreppsn. ekki viljað ræðast við. Ölfushr. hefur samþ. að láta ekkert af hendi af landi hreppsins utan Ölfushr., og Hraungerðishr. hefur jafnvel gengið svo langt að neita að halda fund með hreppsstjórn Sandvíkurhr. um málið. Sýslun. hefur að vísu, eins og ég hef áður getið um, gert sérstaka samþykkt um, að málið væri ekki nægilega undirbúið, en eftir að sú samþykkt var gerð, hafa fundir verið haldnir milli viðkomandi hreppsn. og sýslumanns og hreppsnefndaroddvitar verið kvaddir á fund allshn., en allt hefur reynzt árangurslaust.

Hreppsn. óskaði viðtals. Lagði hún málið fyrir sýslumann og taldi rétt, að hann reyndi að leita samkomulags. En hreppsn. Hraungerðishrepps neitaði að eiga meira við málið. Það hefur heldur ekki náðst samkomulag annars staðar.

Allshn. hefur nú fjallað um málið. Margar till. frá n. geta orðið til þess að spilla fyrir, að sæmileg lausn fáist á því. Ég er sammála hv. 1. þm. Árn., að e. t. v. sé rétt, að menn tækju till. sínar aftur til 3. umr. En ég tel ósanngjarnt að fallast á tillögu hv. 2. þm. Eyf. og hv. þm. Ak. Ég tel, að eigi megi rýra það land, sem leggja á undir þetta sveitarþorp. Hv. þm. hljóta að sjá, að fráleitara er annað en láta þetta hreppsfélag hafa útsvörin. En þau nema nú um það bil kr. 50.725.00. Þar af er Mjólkurbú Flóamanna með 6 þús. kr., en öll útsvörin úr mjólkurbúshverfinu eru um kr. 17.000.00.

Menn nota skóla og vegi frá Sandvíkurhreppi, en hann hefur ekki átt sérstakar eignir. Ég tel misráðið að skera meira af landi þessu með því að draga Árbæ undan. Ég tel, að Alþ. eigi að veita þorpinu nauðsynlega aðstoð í þessu máli. — Engin ástæða er til, ef hentara þykir, að hafa ekki skólamálin að einhverju leyti sameiginleg. Eðlilegt er og, að hrepparnir ættu sér sameiginlegt sitt samkomuhús. Þorpið gæti orðið, enda ætti að verða, miðstöð byggðarinnar umhverfis. Hreppsstjórnin verður þó að vera sem mest aðskilin frá stj. sveitarhreppanna í kring.

Ég tel, að Alþ. beri að taka af skarið í þessum málum, ef ekki verður sett sérstök löggjöf, er hér að lúti, enda getur varla annað verið forsvaranlegt. E. t. v. mætti setja í frv. ákvæði um ákveðinn úrskurð ríkisstjórnarinnar. Sýslumaður gæti svo rætt við n. milli þess, er umræður færu fram.