20.03.1946
Neðri deild: 91. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (3305)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Sigurður E. Hlíðar:

Mér var tjáð, að, hæstv. félmrh. hefði lagt spurningu fyrir félmn., en ég var ekki við á þingfundi, þegar hún kom fram. Það getur raunar verið, að annar hafi svarað henni. En hún er þess efnis, hvort íbúar Hraungerðishrepps á þeim svæðum, er leggjast eiga undir hið nýja hreppsfélag, séu fúsir til þess. Fyrir liggja ummæli margra manna, óskir um að fá að fylgjast með í Selfosshreppi.

Önnur fyrirspurn er um það, hvort Mjólkurbú Flóamanna sé samvinnufélag. Því má svara játandi. Eins og hæstv. ráðh. sagði, greiðir það 6 þús. kr. í útsvar. En mjólkurbússvæðið allt greiðir samtals 17 þús. kr. á ári í útsvör. Svarar það til tæps 1/3 hluta tekna hreppsins.

Hv. 1. þm. Árn. óskaði þess, að allar þær brtt., sem fram eru komnar, væru teknar aftur og málið látið ganga til 3. umr. Ég er meðmæltur þessu. Ég á hér eina till., en dreg hana fúslega aftur til 3. umr., ef aðrir gera slíkt hið sama.

Ég hef þessi orð svo ekki fleiri og læt máli mínu lokið.