27.03.1946
Neðri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (3314)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti: Hv. 1. þm. Árn. hefur nú þegar gert að umtalsefni brtt. okkar, áður en nokkur framsaga eða grg. var komin fram fyrir henni. Það hefur ekki verið síður á Alþingi, en það getur kannske sparað ræður að gera það, og má því vel vera, að það væri rétt að taka þann sið upp.

Ég vil þá fyrst geta þess, að brtt. á þskj. 458, sem ég stend að, og brtt. á þskj. 454, sem n. öll stendur að, eru teknar aftur, herra forseti, ef hann heyrir það, — þær eru teknar aftur. (Forseti: Um hvað eru þær?) Ég var að segja það. Það eru brtt. á þskj. 454 og 458, þær eru teknar aftur.

Þá skal ég minnast á brtt. á þskj. 641, sem ég flyt með hv. 11. landsk. þm., og 642, sem n. stendur að. Þess er þó að geta, að hv. 4. þm. Reykv. mætti ekki á fundi og hv. 2. þm. Eyf. ekki heldur, svo að eiginlega eru það ekki nema þrír menn úr heilbr.- og félmn., sem standa að þessum till., en við stöndum að þeim báðum. Í síðari brtt. á þskj. 642, sem við flytjum við brtt. hv. 1. þm. Árn., leggjum við til, að fyrir 1947 komi 1946. Vil ég biðja hæstv. forseta að taka það til athugunar. — Þá skal ég snúa mér nánar að þessum brtt.

Fyrri brtt. á þskj. 642 er eingöngu til að taka af tvímæli. Okkur fannst, eins og frv. er orðað nú annars vegar og till. hv. 1. þm. Árn. hins vegar, að það komi ekki nógu skýrt fram, og það er eingöngu til að taka af tvímæli, hvernig dómurinn í þessu tilfelli skuli vera skipaður, sem þessi brtt. er gerð. Ef mönnum finnst það nógu skýrt eins og það er, þá skal ég ekkert við því segja, þá er mér sama, aðalatriðið er, að það komi maður inn í dóminn frá hvorum aðila, þegar ágreiningsmál eru tekin fyrir milli Selfosshrepps og Sandvíkurhrepps, sem tæplega var nógu skýrt áður.

2. brtt. er um, að l. komi til framkvæmda 1. júní 1946 í staðinn fyrir 1. jan. 1947. Hv. 1. þm. Árn. taldi þessa brtt. mjög til hins verra og bar fyrir sig Jónas Guðmundsson, sem hann segir, að telji ekki nægan tíma til þess, að þessi skipti verði komin í framkvæmd fyrr en um áramót. Það mun hafa verið 11. desember í vetur, að heilbr.- og félmn. flutti þetta frv. fyrir ósk ráðh. að tilhlutun Jónasar Guðmundssonar, og þá átti frv. að komast í gildi 1. jan, 1946. Nú segir hv. 1. þm. Árn., að ekki þýði að láta það ganga í gildi fyrr en 1. jan. 1947, þó að það sé samþ. nú. Svo langan tíma þarf til að gera — ég veit ekki hvað, — líklega til að kjósa hreppsnefndina, ég veit ekki, hvað það er. Það, sem kom okkur til að flytja brtt., var það, að það á að kjósa hreppsnefndir í öllum hreppum landsins í júní í vor, og þá fannst okkur alveg sjálfsagt, að þá yrðu um leið kosnar hreppsnefndir í þessum nýju hreppum. Það er öllum vitanlegt, og ég held, að það hafi aldrei komið fyrir, að búið hafi verið að gera fjárskipti, áður en skiptingin byrjaði. Þau byrja á þann hátt, að kosnar eru nýjar hreppsnefndir í hinum væntanlegu nýju hreppum, og svo er byrjað að gera það, sem á eftir á að koma. Og ég tel, að það verði sá eðlilegi gangur málsins, að það verði nú í júní, þegar kosnar verða hreppsnefndir í flestum hreppum, þá verði kosin hreppsnefnd einnig í þessum hreppum, eins og l. gera ráð fyrir, að þeir verði, Þá þarf ekki annað en að færa til á kjörskrám mannanöfn, af kjörskrá Ölfushrepps menn, sem búa hérna megin Ölfusár, í Hellislandi, og færa þá á kjörskrá Selfosshrepps. Og það er ekki svo mikil vinna, að ekki sé hægt að gera það fyrir hreppsnefndarkosningarnar, sem eiga að fara fram í vor. Viðkomandi alþingiskosningum þyrfti þá að gera sömu breyt. á kjörskrám á þessum stöðum. Og þetta er svo auðvelt og sjálfsagt, að mér finnst ekki koma annað til greina en að gera þetta. Væri það ekki gert, yrði það þannig, að þá yrði kosið í hreppsnefndir í þessum hreppum í vor samkvæmt þeirri hreppaskipun, sem nú er, en svo bara yrði í vetur að kjósa á ný í hreppsnefndir í þessum hreppum, eins og þeir verða samkv. þeim l., sem hér er verið að undirbúa og verða sett. Ég sé ekki, að slík tilhögun sé neitt betri, því að þá yrði að búa til nýjar kjörskrár, því að þá ýrðu komnir nýir menn, sem inn á kjörskrár þyrfti að taka, m. a. sem væru búnir að ná kosningaaldri, en ekki hafa hann í vor. Þá þyrfti að fá nýtt sálnaregistur frá presti, sem ekki þyrfti að gera, ef kosið væri strax í vor í hreppsnefndir í þessum hreppum samkv. hinni nýju hreppaskipun eftir þessum væntanlegu l. um sameiningu Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag.

Varðandi fjárskipti milli hreppanna álít ég, að kjósa megi í hreppsnefndir fyrst í þeim, án þess að það komi neitt að sök, þannig að þegar búið er að kjósa í hreppsnefndir þessar, kemur sá gerðardómur, sem þarna á að starfa, — ef ekki næst samkomulag um þessi fjárskipti á annan hátt milli hreppanna, sem ég geri mér ekki heldur vonir um að náist, eftir því, sem mál þetta hefur gengið heima í héraði, — og gerðardómurinn mundi þá starfa í sumar að þessu eða á þessu ári og fjárskipti koma svo á milli hreppanna eftir því, hve fljótt dómurinn vinnur sín störf.

Þá er brtt. á þskj. 641, sem mér virðist alveg sjálfsagt að samþ., um að kostnaður af gerðardómi þessum greiðist úr ríkissjóði eftir úrskurði ráðherra, — a. m. k. ef annars á að láta einn hrepp bera kostnað af þessum gerðardómi, eins og hv. 1. þm. Árn, hefur ætlazt til samkv. brtt. á þskj. 628,4.c. Sú brtt., að ríkissjóður greiði þetta heldur, er svo sjálfsögð, að ég hygg, að ekki þurfi um hana að ræða frekar. — Ég mun fylgja brtt. hv. 1. þm. Árn. með þeim breyt., sem felast í brtt. á þskj. 641 óg 642. En þó mun sjást við atkvgr., að einstakar brtt. eru mér betur að skapi en brtt. hv. þm. Árn., þó að ég víki ekki, sérstaklega að þeim nú.