27.03.1946
Neðri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2088 í B-deild Alþingistíðinda. (3316)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að karpa við hv. 2. þm. N.-M. um gildistöku þessara l. En ég held, að hv. þm. hafi ekki ástæðu til að ætla það, að ég fari ekki rétt með það, að till. um gildistöku l. þessara sé flutt samkv. tilmælum Jónasar Guðmundssonar. Mér gæti þar ekkert gengið til að segja rangt frá. Ég mundi hafa látið gildistöku l., eftir því sem fyrir lá um það atriði í brtt., alveg afskiptalausa, hefði Jónas Guðmundsson ekki látið í ljós við mig, að sveitarfélögin, eins og þau verða eftir skiptinguna, mundu ekki verða tilbúin til þess að láta fram fara það, sem skiptingunni fylgir, fyrr en svo, að langt um eðlilegra væri að láta l. þessi ekki taka gildi fyrr en um næstu áramót. Og brtt. um þáð er flutt beinlínis að hans undirlagi. Ég tek hiklaust kunnugleika umsjónarmanns sveitarstjórnarmálefna gildan í þessu efni. Og þó að ég viti, að hv. 2. þm. N.-M. hafi nokkurn kunnugleika á þessu máli, verð ég að telja, að eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna, Jónas Guðmundsson, hafi þá miklu meiri, þar sem hann m. a. hefur verið þarna eystra til þess sérstaklega að kynna sér þessi mál. En hv. þd. sker úr um þetta gildistökuatriði. Og þó að frv. beri með sér, að til þess var ætlazt, að þessi 1. tækju gildi um s. l. áramót, þá ber þess þó að gæta í því sambandi, að bæjarstjórnarkosningar og sveitarstjórnarkosningar í þorpum, eins og hinni væntanlegu Selfossbyggð, var ákveðið, að fara skyldu fram í janúar þ. á., eins og líka varð. Þetta býst ég við, að hafi ráðið því, að ákvæði frv. um gildistöku l. voru með þessu sniði. Og hafi frv. verið áfátt með því fyrirkomulagi, sem upphaflega var gert ráð fyrir í þessu efni, þá sé ég ekki, að það sé alveg bráðnauðsynlegt, að hv. d. afgr. málið þannig, að frv. verði með ágalla áfram viðkomandi gildistökuákvæðinu, heldur beri að gefa viðkomandi sveitarfélögum nægan tíma til þess að koma öllu í lag, sem skiptinguna varðar, áður en kosningar fara fram í sveitarstjórnir í þessum sveitum eftir hinu nýja skipulagi þeirra.

Hv. 11. landsk. þm. vildi gefa í skyn, að ég mundi nú líta eitthvað öðrum augum á þetta mál en ég hefði gert áður. Ekki veit ég af hverju hv. þm. dregur þá ályktun. Ég hef bent á, hvað frv. hafi verið áfátt og hversu mjög illa væri frá því gengið, hversu undirbúningi heima fyrir hafi í þessum efnum verið áfátt og hve illa væri í frv. séð fyrir hag og réttindum þeirra, sem þessi skipting snertir. Ég er sömu skoðunar enn. Og ég er með mínum brtt. að reyna að bæta úr þessum ágöllum frv., eftir því sem frekast er hægt, áður en hv. d. afgr. málið frá. sér. Og lengra verður þá ekki komizt um það en að sá dómstóll, sem um þessi mál á að fjalla, sé sem sterkastur og óhlutdrægastur. Og það hélt ég, að væri kjarni málsins. Ég hef ekki mælt á móti því, að þessu kauptúni yrði skipt úr og það gert að sérstökum hreppi. En ég held, ef hv.11. landsk. hugsar betur um málið, að þá komist hann að þeirri niðurstöðu, að það er eðlilegt, að ég hefði margt út á þetta mál að setja, eins og það var flutt, og að mér var því skylt að benda á það og reyna að bæta úr því, og að með þessum brtt., sem ég flyt, sé nokkurn veginn séð fyrir hag allra aðila, sem hlut eiga að máli. Og þar er málið allt. Hv. 11. landsk. ætti að hugsa sig betur um, áður en hann kemur með dóma um það, að ég hafi skipt um skoðun í þessu máli. En mér þykir vænt um, að þessi hv. þm. ætlar að fylgja mér í þessu, sem vitanlega stafar af því, að hann sér, að mál þetta er miklu betur úr garði gert með því að samþ. mínar brtt.

Þá var það kostnaðurinn við gerðardóminn, sem hv. 11. landsk. þm. gerði að umtalsefni, þ. e. að ég vil gjarnan draga úr því, að þetta nýja hreppsfélag þurfi að borga allan kostnaðinn af hinum væntanlega gerðardómi. Ekki þarf hann að skírskota til þess, að hann hafi með sínum till. áður séð fyrir því, að þessi kostnaður lenti ekki á hinu nýja hreppsfélagi. Það dugir ekki að klóra yfir það, að þetta er ekki tekið fram í frv. Ef frv. væri samþ. óbreytt, hvernig yrði þá tilhögunin í þessu atriði? Það yrði farið eftir venju í þessum efnum. Og hver er sú venja? Hún er sú, að sveitarfélög, sem óska eftir, að slík skipti fari fram sem þessi, og standa fyrir málinu, þau greiða kostnaðinn. Í reyndinni hefði því Selfosshreppur orðið að borga þennan kostnað í þessu tilfelli. Meira að segja með l. hefur það beinlínis verið ákveðið, að hreppsfélag, sem óskar skipta, greiði kostnaðinn við skiptin. Af því að ég vissi, hvernig þessu hefur verið háttað, þorði ég ekki að bera fram brtt. um þetta. En ég er hv. 11. landsk. þm. og hv. 2. þm. N.-M, þakklátur fyrir að koma með þessa brtt., og ég mæli mjög eindregið með samþykkt hennar, því að hún er sanngjörn.

Hins vegar þykir mér mjög leiðinlegt, að hv. 11. þm. vill ekki taka til baka brtt. 455, um eignarnámsheimild fyrir hreppinn á jörðum og landspildum hreppnum til handa. En ég vonast þá til þess, að hv. þd, sjái um, að hún verði drepin, og losi þannig hv. flm. við ábyrgð af brtt. Og ég óttast reyndar ekkert, að hún verði samþ.