27.03.1946
Neðri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (3317)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það var aðeins stutt fyrirspurn til hv. 1. þm. Árn. Það hefur nú komið fram í umr, um þetta mál, að margir hafa haldið því fram, að þetta mál væri illa undirbúið í héraði. Mig langar nú til að spyrja um, hvort það hafi orðið samkomulag á milli íbúa Eyrarbakkahrepps annars vegar og íbúa Sandvíkurhrepps hins vegar viðkomandi því að skipta Flóagaflstorfu úr Sandvíkurhreppi og leggja hana undir Eyrarbakkahrepp. Ég hef ekki orðið þess var í meðferð málsins, að neitt hafi komið fram um, að slíkt samkomulag hafi átt sér stað. Um þetta langar mig til að fræðast.