27.03.1946
Neðri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (3319)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. Ég er hissa á því, að hv. 1. þm. Árn. skyldi finna að því við mig, að ég teldi, að hann hefði skipt um skoðun í þessu máli. Það er gott, að hann hefur gert það. Þessi hv. þm. hélt langar tölur í fyrri viku um það, hve ófært það væri að taka mjólkurbústorfuna undan Hraungerðishreppi. En nú hefur hann skipt um stefnu, því að eftir brtt. hans kemur þetta undir Selfosshrepp. Þetta eru sinnaskipti á betri veg, sem ég fagna. — Það er líka rétt, sem þessi hv. þm. sagði, að með brtt. sínum væri hann að reyna að bæta úr ágöllum frv. Hann hefur þannig stórum bætt afstöðu sína í málinu, því að hann viðurkennir með brtt. sínum, að rétt sé, að mjólkurbústorfan heyri til hinni væntanlegu Selfossbyggð, sem hann gat ekki fallizt á við 2. umr. Þá þótti honum ekki skipta neinu máli, að það fólk, sem býr í því hverfi — sem á sameiginleg hagsmunamál með fólkinu í Selfossbyggðinni að öðru leyti, svo sem um vatnsleiðslu, rafmagnsleiðslu, skolpleiðslu og svo skóla, svo að ekki sé fleira nefnt, — yrði í hinum nýja Selfosshreppi. En með brtt. sínum viðurkennir þessi hv. þm., að þetta eigi allt að verða einn hreppur, af því að það heyri saman, sem og rétt er.

Þá minntist hv. 1. þm. Árn. á brtt. mína og hv. 2. þm. N.-M. um kostnaðinn af gerðardóminum. Hann sagði, að það hefði verið venja að það sveitarfélag, sem krefðist skipta, bæri kostnaðinn af slíkum dómum. Nú er ég ekki svo kunnugur, að ég geti dæmt um þetta. En ég ber ekki þessum hv. þm. það á brýn, að þetta geti ekki verið rétt, þó að hann segi það. Og ég vefengi þetta ekki, sem hann sagði. Þessi hv. þm. sagði, að það væri ekki tekið fram í frv., en þetta mundi lenda á Selfosshreppi. Hvers vegna var þá hv. 1. þm. Árn. að leggja til í sínum brtt., að þessi kostnaður ætti að lenda á Selfosshreppi, ef það var fyrirfram vitað, að kostnaðurinn mundi lenda á þeim hreppi? — En fyrst þessi hv. þm. er því sammála, að þessi kostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þá er ekki ástæða til að karpa um þetta. En hins vegar segir sig sjálft í þessu máli, að ef einn hreppur ætti að greiða þennan kostnað, þá mundu hinir hrepparnir, sem hlut eiga að málunum, ekki horfa í það að heimta gerð í málinu, jafnvel þótt það kostaði talsvert fé.