11.12.1945
Sameinað þing: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

16. mál, fjárlög 1946

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Háttvirtir áheyrendur. Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) var hér áðan og hæstv. atvmrh. í gær að narta utan í Alþfl. Skal ég ekki eyða tíma til þess að andmæla ummælum þeirra, því að til þess að gera þær sakir upp heyrir annar vettvangur. Þessar umr. eiga að fjalla um afstöðu núv. ríkisstj. til stjórnarandstöðunnar og á hvern hátt málum ríkisstj. hefur verið á haldið. Hv. 2. þm. Reykv. var að ræða um afstöðu Alþfl. til nýsköpunarinnar og að það hefði aðeins marizt í gegn, að hann hefði gengið til samstarfs um stjórnarmyndun. Því verður hins vegar hvorki neitað af honum né öðrum, að það var Alþfl., sem setti svipinn á allt samstarfið við stjórnarmyndun, en ástæðan fyrir því, að flokkurinn tók þátt í stjórnarmyndun, var eingöngu því að þakka, að þau mál fengust fram, sem Alþfl. lagði mesta áherzlu á. Ég ætla ekki hér að fara frekar út í að svara Sósfl. og tel, að það eigi ekki að gerast á þessari stundu.

Mér datt í hug í gærkvöld, er ég hlustaði á ræðu hv. þm. Str., að fár bregður hinu betra, ef hann veit hið verra.“ Verk ríkisstj. taldi hann vera með sjúkdóms- og feigðarmerkjum, og náttúrlega var ekkert fyrir þessa stj. misréttis, verðbólgu og dýrtíðar að gera annað en segja af sér og láta Framsókn taka við. Aðalinntakið í ræðu hans var þetta: Ríkisstj. hefur ekki hreyft hönd né fót til stöðvunar dýrtíðarinnar, þrátt fyrir að þessu var lofað við stjórnarmyndunina, en af þessu hefur leitt fjárhagslegt öryggisleysi og spákaupmennsku í stórum stíl. Þrisvar sinnum hafa stjórnarflokkarnir beinlínis hindrað Framsfl. í því að koma dýrtíðarmálunum í lag. Ríkisstj. hefur ekki getað hindrað verkföll og hefur þó orðið að láta undan kauphækkunarkröfum 50–60 félaga. Framlög til verklegra framkvæmda hafa verið dregin saman í hlutfalli við rekstrarútgjöld ríkisins. Nú er enginn peningur til og verður að taka lán, þegar hefja á framkvæmdir, sem nokkurs eru verðar, svo sem landshöfn og nýja Suðurlandsbraut. Tekjur ríkisins eru að 2/5 hlutum tolltekjur og 1/5 áfengistekjur. Skattarnir lenda fyrst og fremst á fátæklingunum, eins og veltuskatturinn, en þeir ríku sleppa með stríðsgróðann, sem hvergi í heiminum þekkist nema á Íslandi. Lífsafkoma og öryggi hinna vinnandi stétta væri gersamlega í molum, bæði sjómanna og bænda. Sjómannanna vegna þess, að allt verðlag væri of hátt, en bændanna vegna þess, að verðlag á framleiðsluvörum þeirra væri of lágt og allt vald væri af bændunum tekið yfir framleiðsluvöru þeirra. Nýsköpunin væri farin út um þúfur, vegna þess hve illa hefði verið staðið að þeim málum. Tvær nefndir hefðu unnið að togarakaupunum í stað einnar, þess vegna væri verðið komið upp úr öllu valdi, óútreiknanlegt, hve mörgum milljónum hefði verið sóað þar að óþörfu, og síðan fengist enginn til að kaupa skipin. Ýmislegt fleira sagði þessi hv. þm., svo sem að allur málarekstur í heildsölumálunum svo kölluðu hefði verið með afbrigðum skeleggur, og mátti greinilega skilja, að öðruvísi hefðu verið rekin tryppin, ef hann hefði með þau farið. — Vegna þess að ég hef aðeins nauman tíma til umráða, tekst mér sjálfsagt ekki að gera öllum þessum málum skil, en ég mun leitast við að drepa lítillega á það helzta.

Verðlagsmálin eru margrædd, og skal ég því lítið minnast á þau. Það er rétt, að afstaða stjórnarflokkanna til þeirra er allt önnur en Framsfl. Framsfl. hefur fyrst og fremst krafizt kauplækkunar, en stjórnarflokkarnir hafa ekki viljað fara þá leið, fyrr en öll önnur sund væru lokuð. Með fullkomnari tækjum, hagnýtari vinnubrögðum og síðast en ekki sízt með því að fullvinna vörurnar í stað þess að selja þær hálfunnar eða óunnar hafa stjórnarflokkarnir viljað freista að ná endunum saman, og það verður a. m. k. reynt, áður en gripið verður til ráða Framsfl., sem eru neyðarúrræði. — Það er einnig rétt, að þrisvar sinnum hefur Framsfl. haft örlagarík áhrif á gang þessara mála, og í öll skiptin til óþurftar. Í fyrsta sinn 1940, þegar fyrir atbeina þess flokks voru slitin tengslin milli kaupgjalds og verðlags, sem þá höfðu gilt um skeið, eins og minnzt var á hér í gærkvöld, Í annað sinn, þegar gerðardómsl. voru sett 1942 í ársbyrjun, sem komu af stað hinni mestu aukningu dýrtíðarinnar, sem átt hefur sér stað hér á landi. Og í þriðja sinn, þegar 6 manna n. sáttmálinn var gerður 1943, sem Alþfl. hefur oft bent á, að byggir á mjög hæpnum forsendum. Allar þessar aðgerðir, sem örlagaríkastar og afdrifaríkastar hafa orðið fyrir verðlagsmálin og mest hafa ýtt upp vísitölunni, hafa því verið gerðar fyrir atbeina og frumkvæði Framsfl., og það eru afleiðingar þessara aðgerða, sem stj. og þjóðin eiga nú við að glíma, sérstaklega vegna verðlags landbúnaðarafurðanna, sem nauðsynlegt hefur verið að greiða niður úr ríkissjóði, til þess að kaupgjald þyrfti ekki að vera enn miklu hærra. Vísitölunni er haldið niðri með opinberum aðgerðum, greiðslum úr ríkissj., um 30–40 stig, eins og kunnugt er. Til þessa hefur orðið að greiða árlega hin síðustu ár svo milljónatugum skiptir úr ríkissjóði eða 20–30 millj. árlega. Ef ríkissjóður hefði ekki þurft að greiða þessa stórkostlegu fjárfúlgu, hefði vitaskuld verið hægt að auka að miklum mun framlög til verklegra framkvæmda, greiða upp skuldir ríkissj. og auk þess safna sjóðum. Nú koma framsóknarmenn og segja, að minna hafi verið greitt til verklegra framkvæmda en efni standa til. En ég vil þó leyfa mér að spyrja: Er það undarlegt, að það segi einhvers staðar til sín, er slíkar fjárfúlgur eru teknar til þessara greiðslna? Ekki er a. m. k. hægt að nota féð aftur til annars, sem einu sinni er búið að nota í þessu skyni til þess að greiða niður verðlag á landbúnaðarafurðum.

En hvernig er það svo með framlög ríkisins til opinberra framkvæmda? Því var haldið fram við 1. umr. þessa máls hér í haust af hv. 2. þm. S.-M., Eysteini Jónssyni, að þessi framlög væru í fjárlfrv. ríkisstj. óhæfilega lág, og þetta var endurtekið í gærkvöld af hv. þm. Str., Hermanni Jónassyni. Ég hélt því fram í haust, er ég svaraði hv. 2. þm. S.-M., að frv. gerði þvert á móti ráð fyrir meiri greiðslum í þessu skyni en tíðkanlegt væri, og enn fremur benti ég þá á, að venjan væri sú, að í meðferð þingsins væru þessar upphæðir ávallt hækkaðar verulega, og væri því ekki rétt að slá neinu föstu um þetta, fyrr en fjárl. væru afgreidd, en vitanlega eru það stjórnarflokkarnir, sem ráða því, hversu fer um þá afgreiðslu. Ég vil gera lítils háttar samanburð á því, hvernig fjárl. fyrir 1946 líta út í dag, en þau voru í öllum meginatriðum afgr. við 2. umr. í gær, og svo því, hvernig síðustu fjárl. fyrir stríð og í stríðsbyrjun litu út hvað verklegar framkvæmdir snertir. Mun þá koma í ljós, hvort dregið sé nú úr þessum framkvæmdum, sem raunar ekki væri óeðlilegt, þegar tekið er tillit til hinna gífurlegu greiðslna vegna landbúnaðarafurðanna.

1939

1940

1941

1946

Rekstrarútgjöld

18

18.5

18.5

124

(Hækkun '401

faldað

1939

1940

1941

1946

Til nýrra þjóðvega

0.54

0.60

067

7.2

(Hækkun '40)

12

faldað

Til brúargerða

0.070

0.030

0.030

1.62

(Hækkun frá '40)

50

falt

Til hafnargerða

0.3

0.280

0.255

5.0

Hækkun frá '40

18

falt

(Auk þess 2 millj.

lántökuheimild)

Til einkasíma í sveitum

0.020

0.010

0.010

0.80

Hækkun frá '40

80

falt

Til nýrra vitabygginga

0.055

0.065

0.030

0.700

Hækkun frá '40

11

falt

Auk þess koma svo allar byggingar, sem fé er ætlað til í fjárlfrv. Eru þar t. d. ætlaðar 8 millj. kr. til skólabygginga af ýmsu tagi, sjómanna-, bænda-, mennta-, húsmæðra-, iðn-, barna- og gagnfræðaskóla o. fl., en til þeirra var hverfandi lítið veitt síðustu árin fyrir stríð. Til ýmiss konar annarra framkvæmda eru enn fremur ætlaðar: til verklegra framkvæmda landssímans 3.0 millj., til vitamála og flugvallagerðar rúm 1 millj., til byggingar þjóðminjasafns 1 millj. kr. og ýmislegt fleira áður ótalið a. m. k. 5–8 millj., svo að óhætt mun að fullyrða, að gert sé á fjárl. ráð fyrir rúmum 30 millj. kr. til verklegra framkvæmda, eða fjórðungi af fjárlagaupphæð þeirri, sem á rekstrarreikningi er talin. — Til viðbótar þessu kemur svo, að næsta ár mun verða unnið á vegum ríkisins að meiri framkvæmdum í raforkumálum en nokkru sinni áður. Verða lagðar háspennulínur út frá Sogsvirkjuninni og Laxárvirkjuninni til nágrannahéraðanna, bæði kauptúna og sveita. Er gert ráð fyrir, að þær framkvæmdir kosti svo mörgum milljónum skiptir. Beint framlag ríkisins til þeirra er framlagið til raforkusjóðs, sem gert er ráð fyrir, að verði 2 millj. kr., ef frá þeim málum verður gengið eins og ríkisstj. hefur lagt til í frv. því til raforkul., sem lagt hefur verið fyrir þingið og nú hefur hlotið fullnaðarafgreiðslu í annarri þd. og verður væntanlega innan skamms afgr. í hinni. Lausn raforkumálsins, sem, eins og ég nú sagði, er vel á veg komin í þ., er áreiðanlega eitt af stærstu málum, sem þ. hefur til meðferðar, og þó að reynt sé að gera afgreiðslu þess tortryggilega af Framsfl., sem hefur verið að velta því fyrir sér og flækja í áróðursskyni svo að árum skiptir og aldrei gert neitt, þá veit ég, að þegar línurnar fara að teygja sig út um landsbyggðina, munu menn betur kunna að meta það en fánýtt orðaskak Framsfl.-manna um það, að stjórnarflokkarnir séu málinu andvígir og vilji gera landsmönnum mishátt undir höfði. Ég tel, að það megi nú þegar slá því föstu, að þetta mál verði leyst á hinn skynsamlegasta hátt, og að unnið muni verða að rafveituframkvæmdum á næstu árum eins ört og frekast eru möguleikar til, til hagsbóta fyrir alla þjóðina.

Þó að það mál heyri ekki beinlínis verklegum framkvæmdum til í venjulegum skilningi, vil ég þó í framhaldi af þessu nefna eitt mál, sem mikla þýðingu hefur sérstaklega fyrir fólkið, sem býr úti um land, en það er bygging nýrra strandferðaskipa. Ríkisstj. hefur lagt til og Alþ. samþ., að byggð verði nú þegar 3 ný strandferðaskip. Eitt svipað að stærð og gerð og „Esjan,“ en þó nokkru stærra, og tvö minni til vöruflutninga og verði tekið 7 millj. kr. lán í þessu skyni. Er þá meiningin, að stóru skipin gangi kringum land á 10 daga fresti hvort á móti öðru og flytji farþega og póst á allar hafnir, en vörur aðeins til þeirra staða, þar sem skipin geta lagzt að bryggjum. Vöruflutninga til hinna staðanna annast svo smærri skipin og geta enda tekið nokkra farþega líka. — Samgöngurnar út um land — strandferðirnar — hafa um langan tíma verið fyrir neðan það, sem hægt hefur verið að una við, en með þessari úrbót, hraðferðum tíunda hvern dag, ætti þetta að lagast mikið. Samningum um byggingu skipanna er nú langt komið, og verða að minnsta kosti samningar um stóra skipið undirritaðir bráðlega. Smíði þeirra er áætlað, að taki ca. 18 mánuði, og ættu þau að geta orðið tilbúin á miðju ári 1947.

Af öllu því, sem ég nú hef nefnt, tel ég, að ef hlutlaust er á málin litið og af sanngirni, sé ljóst, að til verklegra framkvæmda hafi af hálfu hins opinbera, ríkisins, aldrei í sögunni meira fé, hvorki raunverulega né hlutfallslega, verið varið til verklegra framkvæmda en einmitt nú. Það þarf því meira en meðal brjóstheilindi til að halda því fram, að hér sé dregið úr hlutfallslega frá því, sem áður var, eins og hv. þm. Str. gerði í gær. Getur þar ekki verið nema tvennt til. Annaðhvort hefur hv. þm. ekki kynnt sér málið, ekki lesið þskj., eða mælir á móti betri vitund, nema hvort tveggja sé.

Hv. þm. sagði, að ríkisstj. hefði lofað að halda verðlaginu í skefjum, en auðvitað svikið það eins og allt annað. Við skulum nú athuga málið. Vísitalan var 271 stig þegar ríkisstj. tók við. Vísitalan er raunar nú 284 stig, og hefur því hækkað á þessu tímabili um rúm 10 stig. Það er að vísu hækkun, en eftir atvikum og með hliðsjón af því, að gert er ráð fyrir að verja minna fé úr ríkissjóði en áður til niðurgreiðslna, tel ég, að hér sé ekki um neinn voða að ræða. „Sjómenn geta ekki gert út vegna dýrtíðar,“ sagði hv. þm. Um þetta er nú það fyrst að segja, að á þessari stundu er ekkert vitað um verðlagið endanlega á hraðfrysta fiskinum. Í öðru lagi var hægt á síðastliðinni vertíð að hækka verðið til fiskimanna á þeim fiski, sem út var fluttur ísaður, um 15%. Og í þriðja lagi hefur togaraútgerðin enn getað skilað góðum hagnaði. Það er því enn of snemmt að hlakka yfir því, að allt sé komið í þrot. — Hitt er svo rétt, að smáútvegsmenn ýmsir eiga erfitt uppdráttar, en það hafa þeir átt fyrr og án þess að róttækar aðgerðir hafi verið hafðar uppi af hálfu Framsfl. til að bæta úr því. Ríkisstj. mun eins og áður leitast við að aðstoða þennan atvinnuveg eftir ýtrustu getu sinni, leitast við að útvega honum markaði og sölur með bezta fáanlega verði, afla honum fullkomnustu tækja, sem völ er á, bæði skipa og vinnsluvéla í landi. Með þessum aðgerðum leitast ríkisstj. fyrst við að bæta úr, áður en aðrar leiðir eru farnar.

„Verkföll hefur ríkisstj. ekki getað hindrað,“ sagði hv. þm. „og látið undan kaupkröfum til hækkunar hjá 50–60 félögum: Hið sanna er, að eina verkfallið, sem nokkuð hefur staðið að ráði, er farmannaverkfallið, sem nú er lokið. Er ekki óeðlilegt, að þegar felld er niður áhættuþóknun sjómanna í millilandasiglingum, eins og gert hefur verið að mestu, en hún nam 80 kr. á dag hjá skipverjum þessum, þurfi nokkurn tíma til að koma á jafnvægi á ný. Í útvarpsumr. í fyrra vetur sýndi ég fram á, að þær kaupbreytingar, sem orðið höfðu þá í tíð núv. ríkisstj., vöru yfirleitt allar til samræmingar móts við breytingar, sem áður höfðu verið gerðar hjá stærstu félögunum, og sízt hærri. Þeirri stefnu hefur yfirleitt verið haldið síðan, en út frá þessu var gengið, þegar ríkisstj. var mynduð, að þessar lagfæringar yrði að gera. Ég leyfi mér að efast um, að Framsfl. hefði getað varðveitt vinnufriðinn í landinu betur en gert hefur verið, sérstaklega ef hann hefði farið að framkvæma stefnu sína í dýrtíðarmálunum.

Þá minntist hv. þm. á tekjuöflun ríkisins og taldi fráleitt, að 2/5 teknanna væru teknir með tollum og 1/5 tekinn sem áfengisgróði. Út af þessu vil ég aðeins taka fram, að ef Alþfl. mætti einn ráða stjórnarstefnunni, mundi hann hafa þessi tekjuöflunarhlutföll öðruvísi, því að hann hefur aldrei farið dult með það, að hann vildi hafa beinu skattana hærri og þá óbeinu lægri og talið það réttlátara. Hann fékk því ekki ráðið, þegar hann hafði. stjórnarsamvinnu við Framsfl., og hann hefur ekki heldur samið um það nú, þar sem hann lét önnur mál sitja í fyrirrúmi, og þegar þrír flokkar starfa saman, getur enginn einn flokkur fengið öll sín mál fram. Því aðeins getur verið um samstarf að ræða, að allir slaki eitthvað til. Einnig vil ég mótmæla því, að stríðsgróðaskattur sé ekki tekinn í þessu landi, því að þegar tekjurnar hafa náð vissu marki, er tekið af þeim til opinberra gjalda í ríkis- og sveitarsjóði 90%, nema um nýbyggingarsjóði útgerðarfélaga sé að ræða. — Þá sagði hv. þm. Str., að veltuskatturinn kæmi þyngst niður á fátækum almenningi, en þetta er mjög fjarri því að vera rétt, því að samkv. gildandi verðlagsl. er ákveðið, hvernig vörur skuli verðlagðar, og er þar hvergi heimilað að taka veltuskattinn með. Veltuskatturinn er því fyrst og fremst skattur á verzlunarstéttina, en ekki á almenning. En þessi skattur er sá eini skattur svo að nokkru verulegu nemi, sem núv. ríkisstj. hefur á lagt.

Ádeilum hv. þm. Str. á framkvæmdir ríkisstj. í nýsköpunarmálunum þarf ég ekki að svara. Það gerði hv. forsrh. í gærkvöld. Aðeins vil ég benda á, að nú hafa þær ádeilur tekið á sig annað form en þær höfðu í upphafi. Fyrst eftir stjórnarmyndunina var því nefnilega haldið fram af Framsfl., að úr þessum framkvæmdum, skipakaupum og öðru, mundi ekkert verða. Þetta væru aðeins innantóm orð á „plötunni,“ sem væru markleysa ein. Nú, þegar kaupin hafa verið gerð og allt gengur eins og lofað hafði verið, dugar sú mótbára ekki lengur. Þá er gripið til þess að gagnrýna aukaatriði. Tvær nefndir hafi verið sendar í stað einnar til kaupanna, skipin verði of dýr, enginn fáist til að kaupa þau og gera út, betra hefði verið að bíða o. s. frv. Þegar þessi gagnrýni reynist einnig haldlaus, eins og brátt mun sýna sig, sé ég ekki, að Framsfl, eigi eftir nema eitt vígi til að verjast úr, og það er að halda því fram, að allt þetta hafi verið sér að þakka. Framsfl. hafi fyrir löngu verið búinn að gera áætlanir um þessar framkvæmdir, og því sé það raunverulega stefnumál Framsfl., sem verið sé að framkvæma. Þetta hefur komið fyrir áður og getur hæglega endurtekið sig. Þegar Alþfl. gekk til núv. stjórnarsamstarfs, var honum ljóst, að hann mundi ekki fá framkvæmdan nema takmarkaðan hluta af sinni stefnuskrá. Hann gekk til stjórnarsamvinnunnar um lausn ákveðinna mála, sem hann út af fyrir sig taldi svo þýðingarmikil, að það væri ávinningur fyrir alþýðu manna í þessu landi að fá þau fram, þó að önnur yrðu að bíða. Aðalmálin, sem samið var um, voru :

1) Afgreiðsla launalaganna.

2) Varðveizla þess fjár, sem þjóðin hafði eignazt til kaupa á nýjum framleiðslutækjum.

3) Ný alþýðutryggingalög.

4) Setning nýrrar stjórnarskrár.

Þegar dæma á ríkisstj., verður hún að dæmast eftir því, hvernig hún hefur leyst þessi verk af hendi. Fyrsta málið er afgreitt, eins og samið var um. Annað málið er svo langt komið, að sjá má, að einnig verði við það staðið að fullu. Þriðja málið hefur nú verið afgr. til Alþ. og bíður nú afgreiðslu þess. Fjórða málið er í undirbúningi, og er ekki annað vitað en það leysist einnig eins og til var ætlazt.

Ég tel mig nú hafa svarað að nokkru gagnrýni hv. þm. Str., Hermanns Jónassonar, en get að vísu varla ætlazt til, að stjórnarandstaðan láti mig eða aðra í ríkisstj. njóta sannmælis, því að Framsfl. hefur haft það fyrir reglu að segja aldrei gott um neitt, sem andstæðingar hans gera, en bera hins vegar taumlaust oflof á allt, sem flokksmenn hans koma nálægt, eins og þeir vita bezt, sem Tímann lesa. Þessi aðferð endist þeim þó ekki að eilífu, og einhvern tíma kemur að því, að hinir óbreyttu liðsmenn Framsfl. komast að raun um það, að málflutningur forsvarsmanna flokksins er ekki alltaf sannleikanum samkvæmur. Þess vegna tek ég ekki gildan dóm framsóknarmanna. Þjóðin mun á sínum tíma dæma, og ég efast um, að hún verði samdóma áliti Framsóknar.