04.04.1946
Efri deild: 99. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (3325)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það eina, sem ég vildi um frv. þetta segja, nú um leið og því væntanlega verður vísað til 2. umr. og sams konar n. og fór höndum um það í hv. Nd., heilbr.- og félmn., ef ég man rétt, er, að ég vil beina þeim tilmælum til þeirrar hv. n., að hún hraðaði málinu eftir því sem hún sæi sér fært. Það stendur þannig á, að þeim, sem að þessari lagasetningu eiga að búa, liggur á að fá að vita vissu sína um það, hvernig á að haga þar heima fyrir ummerkjum öllum, svo að þeir geti gert sínar ráðstafanir í samræmi við það. Ætti þessi hröðun á málinu að vera því auðveldari, þar sem frv. hefur gengið í gegnum mikinn hreinsunareld í hv. Nd. Og ég geri ráð fyrir, að þótt eitthvað megi gera að álitamáli um meðferð slíks máls, þá sé þetta mál nú komið þó í það horf, að engum þyki firnum sæta, en vera þolanlegt, að afgreiðsla þess fengi samræmanlega niðurstöðu eins og frv. hefur fengið í hv. Nd.