11.12.1945
Sameinað þing: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

16. mál, fjárlög 1946

Eysteinn Jónsson:

Þegar fimm mínútur voru eftir af ræðutíma hæstv. forsrh. í gærkvöld, sagði hann: „Nú ætla ég að snúa máli mínu í sókn.“ Fimmtíu og fimm mínútur fóru í vörnina og veitti ekki af. Sóknarlotan varð hvorki löng né hörð, og var rétt af ráðherra að taka það fram, hvenær sóknin hófst, annars hefði það víst farið fram hjá flestum. Ráðh. mun hafa tjaldað því, sem til var, í þessum tilburðum til gagnsóknar, og mun ég því minnast á það örstutt, áður en ég kem að aðalefninu.

Ráðh. sagði: „Stjórnarandstaðan er á móti öllu, og þess vegna er gagnrýni hennar marklaus.“ Hvað er nú hæft í þessu? Stjórnarandstaðan hefur fylgt þeim fáu góðu málum, sem stjórnin hefur beitt sér fyrir. Stjórnarandstaðan samþykkti lög um kaup á nýjum strandferðaskipum. Stjórnarandstaðan hefur fylgt tillögum um framlög til verklegra framkvæmda. Stjórnarandstaðan mun styðja bætt lánskjör útgerðarinnar, svo að dæmi séu nefnd. En jafnframt því, sem stjórnarandstaðan hefur veitt þessum málum fylgi, hefur hún barizt og mun berjast hart gegn meginstefnu stjórnarinnar og einstökum ofbeldisráðstöfunum, svo sem skipun búnaðarráðs, og mun gagnrýna hiklaust það, sem hún telur miður fara um afgreiðslu einstakra mála í höndum stjórnarinnar. Framsfl. er þannig t. d. ekki á móti báta- eða togarakaupum, síður en svo. Hann vill, að stjórnin greiði fyrir útvegun slíkra tækja. En hann hefur í því sambandi gert kröfur um tvennt: í fyrsta lagi, að menn gerðu sér grein fyrir því í samráði við þá, sem tækin eiga að nota og vit hafa á þessum málum, hvernig bátarnir og skipin ættu að vera, áður en kaupin væru gerð, og í öðru lagi, að þau tæki ein væru keypt, sem kaupendur væru að í landinu, enda væri fyrir fram ákveðið, hverja aðstoð ríkisvaldið og bankarnir ættu að veita mönnum við kaup tækjanna. Framsóknarmenn hafa gagnrýnt og munu gagnrýna framkvæmdir ríkisstj. í þessum efnum, sem kosta munu landið milljónatugi. Þessi mistök hafa stuðningsmenn stjórnarinnar viðurkennt opinberlega í þinginu, og hefði því forsrh. verið sæmst að gera slíkt hið sama og beiðast afsökunar, en í þess stað notar ráðh. þá aðferð að kalla réttláta gagnrýni óhróður og aðfinnslur út af meðferð málsins andstöðu við framfarir.

Sannleikurinn er sá, að það er stjórnarliðið á þingi, sem hefur tamið sér þau þokkalegu vinnubrögð að vera á móti öllu því, sem stjórnarandstaðan leggur til, án tillits til málavaxta. Þannig felldu stjórnarsinnar í fyrra till. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að kaupa strandferðaskip, sem stjórnarandstaðan flutti. En nokkrum mánuðum síðar sendu þeir út mann af sinni hendi til þess að kaupa strandferðaskip. Svo mætti lengi telja.

Forsrh. talaði um neikvæða stjórnarandstöðu, sem ekki gerði till. um úrlausn mála. Þetta gefur mér kærkomið tilefni til þess að telja upp nokkur mál, sem Framsfl. hefur lagt fyrir þingið og sýna stefnu hans. Í Ed. liggur fyrir till. um niðurfærslu verðbólgunnar og um undirbúning þess, að fram fari í landinu allsherjar eignaframtal í því sambandi. Fyrir þinginu liggur frv. til nýrra jarðræktarlaga, frv. að nýjum l. um fiskimálasjóð, frv. um byggingarlán og styrki í kauptúnum og kaupstöðum og annað frv. um byggingarlán og styrki í sveitum, þáltill. um innflutning tilbúinna húsa til þess að bæta úr sárustu húsnæðisþörfinni, þáltill. um rannsókn á hag útvegsmanna og hlutarsjómanna, till. um allsherjar lausn raforkumálanna, og þannig mætti halda áfram að telja. Ég hélt nú satt að segja, að flest af þessum málum væru forsrh. of kunn til þess, að hann vildi gefa tilefni til, að þau væru talin upp og þá um leið skýrt frá því, að lið hans hér á þingi er önnum kafið við að þvælast fyrir þessum málum og tefja þau, þannig að þau fá ekki eðlilega þingafgreiðslu, og síðan að fella þau þeirra, sem komast svo langt, að ekki verður komizt hjá að taka endanlega afstöðu til þeirra.

Þá kom forsrh. að því, sem átti að vera aðalhöggið á andstæðingana. Hann tók sér fyrir hendur að sanna, að Framsfl. ætti aðalsökina á dýrtíðinni. Hann hefði ráðið því, að haustið 1940 var hætt við að reikna verðlag landbúnaðarafurða eftir vísitölu framfærslukostnaðar eða kaupgjaldsvísitölunni, eins og hún er kölluð. Þetta hafi verið upphaf og undirrót að allri verðbólgunni, Framsfl. hafi átt sök á þessu og þar með verðbólgunni. Á þessu sama hafa alþýðuflokksmenn klifað. En hvað er rétt í þessu? Till., sem ráðh. vísar til, var flutt á þingi 1940 eftir ósk þáv. ríkisstj., sem hann átti sjálfur sæti í. Hún var samþ. í Nd. þingsins með 23 shlj. atkv. Sjálfur greiddi þessi ráðh. atkvæði með till. Nú vill ráðh. hlaupa frá öllu saman og velur sér nú það hlutskipti að telja það glapræði, að þessi breyt. var gerð. Ekki er ráðh. öfundsverður af þessu. Fyrir utan lítilmennskuna, að renna frá því, sem hann hefur sjálfur gert, þá gerir hann sig nú beran að þeirri fávizku að halda því fram, að eðlilegast hefði verið, að verðlag landbúnaðarafurða breyttist á stríðsárunum eftir vísitölu framfærslukostnaðar, en ekki eftir því, hvernig framleiðslukostnaður landbúnaðarafurða breyttist. Það hefur verið reiknað út og birt í verkalýðsblaðinu Skutli á Ísafirði, að ef þessi regla væri við höfð, þá fengju bændur nú ekki grænan eyri fyrir sláturfjárafurðir sínar, allt andvirðið færi í kostnað við slátrunina, sölu, geymslu, frystingu o. s. frv. Kaupgjald í sveitunum hefur á stríðsárunum 10–12-faldazt frá því, sem það var áður. Forsrh. er fyrsti maðurinn, sem ég hef heyrt leyfa sér að halda því fram, að verðlag landbúnaðarafurða hefði á stríðsárunum átt að vera bundið við vísitölu framfærslukostnaðar, án tillits til þess hvað það kostar að framleiða vöruna. En það er fleira, sem þarf að benda á í þessu sambandi. Upp á síðkastið hefur stjórnarliðið og alveg sérstaklega forsrh. og málpípur hans deilt á Framsfl. fyrir það, að hann hafi á undanförnum árum viljað halda föstu afurðaverði og kaupgjaldi í landinu og bakað með því bændum landsins og launamönnum stórtjón. Sá sami forsrh., sem ætlaði sér í gærkvöld að sanna það, að Framsfl. ætti höfuðsökina á dýrtíðinni með því að standa fyrir hækkun afurðaverðs, lét blað sitt þann 31. júlí nú í sumar viðhafa eftirfarandi ummæli: „Flestir bændur eru orðnir skuldlausir af því, að framsóknarmönnum tókst ekki að halda óbreyttu kaupgjaldi og afurðaverði. Framsóknarvaldið hefur verið brotið á bak aftur á Alþingi. Hér er beinlínis hælzt um yfir því, að stefna Framsfl., ekki um sérstaka hækkun afurðaverðs, heldur um bindingu afurðaverðs og kaupgjalds, hafi verið brotin á bak aftur af flokki forsrh. og hjálparmönnum þeirra. Það mun vera fátítt, að í forsætisráðherrastóli finnist maður, sem hefur nógu mikið til að bera í senn af grunnhyggni og ófyrirleitni til þess að vekja að fyrra bragði máls á öðru eins og því, sem nú hefur verið lýst.

Forsrh. fimbulfambaði nokkuð í ræðu sinni um valdagræðgi okkar hv. þm. Str., og bar þá fyrir sig Ófeig. Síðan skýrði hann frá því, að við hefðum verið hlunnfærðir, þegar stjórnin var sett á fót, og að við hefðum verið sammála stjórnarstefnunni, áður en stjórnin var mynduð. Þar næst upplýsti hann, að þegar til kom, hefðu hinir valdagráðugu ekki viljað taka þátt í stjórn, skorizt úr leik, eins og hann orðaði það, og að lokum fullyrti ráðh., að ekkert væri að marka það, sem við segðum um þjóðmál, og sérstaklega um stjórnarframkvæmdir, af því að við værum svo sárir yfir því að vera ekki í stjórn. Samræmið í þessu er nú sér á parti, það er nú ekki verra en vant er. En þetta er götudrengjatal og jafnast á við, að sagt væri: Ég höndlaði hnossið, þið öfundið mig, og þið ættuð að þegja. — Hvers vegna geta menn ekki rætt þessi mál eins og manneskjur og byggt umr. á því, sem allir vita, að er kjarni málsins? Framsfl. hefur ekki tekið þátt í stjórn síðan 1942 vegna þess, að hann hefur verið mótfallinn þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið í dýrtíðarmálum og fjármálum. Um það ætti síðan að ræða, hvor stefnan væri réttari í þessu máli, sú, sem Framsfl. hefur haldið fram, eða hin, sem stjórnarliðið fylgir. Nei, þannig fást ekki málin rædd. Allt verður að dragast niður á lægsta planið, þar sem forsrh. hefur tekið sér stöðu með hjálparmönnum sínum.

Það er ekki ástæða til að fara mörgum orðum um ræðu hæstv. atvmrh. Hún var undarlegt sambland af kveinstöfum og hótunum í garð meðráðherra hans, ef þeir ekki sæju að sér og byggju að Landsbankanum eins og kommúnistar segðu fyrir um. Það er nú broslegt að heyra þetta tal ráðh. um baráttu við landsbankavaldið. Hann situr í ráðherrasæti við hægri hlið æðsta yfirmanns Landsbankans, sem hefur verið bankastjóri bankans þangað til fyrir nokkrum dögum. Í bankaráði bankans eiga sæti forsrh., Magnús Jónsson og einn fulltrúi frá Alþfl., Jónas Guðmundsson. Nú hefur ráðh. allt í einu uppgötvað, að stjórnin geti engu komið fram vegna Landsbankans. Manni finnst, að hann hefði átt að uppgötva þetta fyrr. Eða fór hann í ríkisstj. án þess að geta þar nokkru ráðið vegna Landsbankans? Ég geri ráð fyrir því, að fjmrh. muni svara árásum ráðh. á bankann, sem í raun og veru eru árásir á hann og forsrh., og fer ekki út í það, en margir munu spyrja: Hvað átti þetta tal atvmrh. að þýða? Kannske sér hann nú fram á, að eitthvað muni verða öðruvísi um efndir á nýsköpuninni en lofað hafði verið, og er þess vegna farinn að segja gömlu, þekktu söguna um rýtinginn í bakið, sem öll lítilmenni hafa á reiðum höndum, ef þau hafa sagt meira en þau geta staðið við? Ráðh. er svo smekkvís að fara mörgum niðrunarorðum um Jón Árnason í tilefni af ráðningu hans í Landsbankann. Það er nú ekki tóm til þess að fara langt út í það mál, en hitt vil ég bara segja, að Jón Árnason er einn af þekktustu framkvæmdamönnum landsins og þolir vel samanburð við oddamanninn í Falkurútgerðinni, þ. e. hæstv. ráðh. Ráðh. var að reyna að rógbera Framsfl. og Alþfl. fyrir stjórn þeirra 1934–'38. Ég geri nú ráð fyrir, að Alþfl. taki upp hanzkann fyrir sig, enda hafa þeir til þess nógan tíma, en ég vil aðeins segja það einu sinni enn, að á þessu tímabili voru meiri framfarir í landinu en á nokkru öðru tímabili fram að þeim tíma þrátt fyrir alveg óvenjulega erfiðleika. Á þessu tímabili var lagður grundvöllur að þeirri velmegun, sem þjóðin hefur búið við á stríðsárunum.

Forsrh. beindi nokkrum orðum til bænda í gærkvöld. Aðalefni þeirra var á þessa lund: Ef bændur fylgja Framsfl., þá er seint eða aldrei viðreisnar von. Ég aðvara því bændur. Ég heiti þeim fyrir hönd stjórnarinnar öllu góðu, ef þeir starfa með ríkisstj. Þetta er boðskapur nýja tímans, sagði ráðh. Þetta er mesti misskilningur hjá ráðh. Þetta er ekki boðskapur hins nýja tíma, þetta er gamall boðskapur, sem er allt of vel þekktur. Þetta er boðskapur ofbeldis og kúgunar. Þetta er hugsunarháttur, sem allur bezti hluti mannkynsins hefur barizt við að útrýma á undanförnum árum. Þetta er kölluð skoðanakúgun á réttu máli. Þetta er boðskapurinn um, að þeir, sem fylgja valdhöfunum, eigi allan rétt, en hinir, sem hafa aðrar skoðanir en valdhafarnir, séu réttlausir í þjóðfélaginu. Þetta er sami boðskapur og atvmrh. flutti bæn um á síðasta þingi. Forsrh. misskilur hugsunarhátt Íslendinga, ef hann hyggur, að menn falli frá skoðunum sínum vegna hótana hans. Hvorki hótanir né fagurgali mun megna að fá bændur landsins til þess að leggja á hilluna baráttuna fyrir rétti sínum.

Þegar ríkisstj. var mynduð, þóttist hún ætla að gera mikið fyrir sjávarútveginn. Fylgismenn stjórnarinnar fóru út og suður og lýstu yfir því hátíðlega, að sjávarútvegurinn, útgerðarmenn og fiskimenn hefðu ævinlega gleymzt af stjórnarvöldunum, en nú ætti þetta að breytast, svo um munaði. Nú skyldi muna eftir þessum mönnum og þessari atvinnugrein, og æ síðan hefur hvorki linnt smjaðri stjórnarliðsins fyrir sjávarútveginum né „skrum“auglýsingum stjórnarinnar um framkvæmdir í þeim málum. En lítum nánar á, hvað gerzt hefur. Ríkisstj. hefur reynt að telja sér það til gildis, að nokkur hækkun varð á fiskverði á síðustu vetrarvertíð. Er þá spurningin þessi: Er þessi hækkun, sem endanlega fékkst, ekki meiri en hún þó varð, ríkisstj. að þakka? Í þessu sambandi er þá fyrst að minnast þess, að ríkisstj. vildi s.l. vetur framlengja fisksölusamninginn við Bretland frá árinu 1944, en það þýddi, að Bretar hefðu tekið fiskinn frá stærstu verstöðvunum í flutningaskip eins og áður og borgað hann sama verði og áður. Þessu fékk stjórnin ekki framgengt. Bretar vildu ekki kaupa fiskinn þannig, þeir vildu fá hann fluttan til Englands. Jafnframt lækkuðu þeir nokkuð verð á frystum fiski. Sannleikurinn er því sá, að vegna þess að stjórnin kom því ekki fram, sem hún vildi, kom tækifæri til þess að hækka fiskinn. Hvernig notaði svo stjórnin þetta tækifæri? Hún auglýsti 15% verðhækkun á fiski og innheimti sem því svaraði hjá miklum þorra útgerðarmanna sem verðjöfnunargjald. Í framkvæmd hefur hækkunin hins vegar ekki numið 15%, heldur tæplega helmingi þess. Það er ríkjandi skoðun, að með ráðstöfunum ríkisstj. í þessum málum hafi ekki náðst til handa útgerðinni nándar nærri öll verðhækkun, sem unnt hefði verið að ná. Ríkisstj. dró von úr viti að semja um heppileg flutningaskip og þurfti að lokum að sæta þungum kostum í samningum við Færeyinga um óhentug skip til flutninganna. Samningarnir við Færeyinga voru hafnir svo seint, að fiskveiðar voru byrjaðar. Fiskurinn lá á bryggjunum, og gátu því Færeyingar sett kostina. — Framan af vertíð síðasta vetur ríkti slíkur glundroði um fisksölumálin, að til tjóns varð fyrir útgerðina, og allan tímann ríkti áberandi hringlandaháttur um framkvæmd flutninganna, sem varð að verulegu tjóni.

Það rétta um fiskverðið er því það, að það hækkaði dálítið vegna þess, að stjórnin fékk ekki fram það, sem hún vildi, og varð þó hækkunin minni en orðið hefði, ef með málið hefði verið skynsamlega farið og eingöngu frá því sjónarmiði, að útvegs- og fiskimenn fengju sem bezt verð fyrir fiskinn. Ekki þorði forsrh. að segja það berum orðum í gærkvöld, að íslenzka stjórnin réði fiskverði í Bretlandi og það væri henni að þakka, að ekki væri orðin verðlækkun á fiski. — En hann gaf það í skyn, að gott hefði það verið, að þeir, sem hefðu spáð hrakspám um fiskverðið, hefðu hvergi komið nærri, og dylgjaði í Leitis-Gróu-stíl um framsóknarmenn í því sambandi. 31. nóv. 1943 sagði maður nokkur um fiskverðið: „Um hið háa verðlag á höfuðútflutningsvöru okkar skal það eitt sagt, að það mun ekki standa deginum lengur, eftir að Bretar og aðrar þjóðir að nýju hefja fiskveiðar að ófriðarlokum. Og þá mun verðfallið fyrr en varir verða svo mikið, að óvíst er, hvort við fáum meira en 1/5 eða jafnvel 1/10 hluta þess verðs, er við nú berum úr býtum . . . . “.

Sá maður var núverandi forsætisrh., Ólafur Thors. Af þessu sjá menn, hve gott það er, að Bretar hafa ekki tekið meira mark á forsrh. en við gerum.

Síðan ríkisstj. komst til valda, hefur framleiðslukostnaður sjávarafurða farið síhækkandi. Liggja fyrir vitnisburðir um það, hvernig komið er, frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, fiskiþinginu og fundum útvegsmanna víðs vegar að af landinu. Er því af öllum þessum aðilum slegið föstu, að rekstrarhagur útgerðarinnar hafi farið síversnandi undanfarið og óhugsandi sé, að útgerðin geti haldið áfram að óbreyttum aðstæðum. Er fróðlegt að bera saman þessa vitnisburði við fullyrðingar hæstv. forsrh., er hann tók við stjórnartaumunum og endurtók í gærkvöld um það, að framleiðslan gæti mjög vel þolað framleiðslukostnaðinn og það væri augljós firra að ætla sér að fara að hefja lækkun afurðaverðs og kaupgjalds í landinu.

Forsrh. sagði í gærkvöld, að fram að þessu hefði þjóðin haft nær einhliða gróða af dýrtíðinni. Hún hefði orðið öllum þorra manna til hagnaðar. Síðan fór hann mörgum orðum um þá fjarstæðu, að það væri tímabært að gera kröfu um lækkun verðbólgunnar. Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að lofa mönnum að heyra, hvað þessi sami ráðh. hefur áður sagt um þessi efni. í marz 1942 sagði ráðh. í þingræðu :

„Í öllum siðmenningarlöndum er nú háð hörð barátta gegn dýrtíðinni. Og alls staðar er þeirri herferð hagað á sama hátt. Allir stefna öllum árásum á sömu tvo höfuðóvini, hækkun kaupgjalds og hækkun afurðaverðs. Hvers vegna? Það er vegna þess, að allir hafa fyrir löngu gert sér ljóst, að það er þetta tvennt, kaupgjaldið og afurðaverðið, sem skapar verðbólguna“

Enn fremur sagði ráðherrann:

„En sá, sem berst fyrir dýrtíðinni, er ekki aðeins fjandmaður sparifjáreigenda, gamalmenna, ekkna og munaðarleysingja og annarra, er afkomuvonir hafa byggt á peningaeign eða peningakröfum. Nei, hann er einnig böðull framleiðenda og launamanna og raunar alþjóðar.“ Og nokkru síðar, eða 4. febrúar 1943, sagði þessi sami maður: „Um eitt virðist þó ríkja full eining innan Alþingis, en það er, að öll verðbólgan og dýrtíðin sé eitthvert hið ægilegasta þjóðarböl, er yfir Íslendinga hefur verið fært . . . . En hvað er þá þessi dýrtíð, þetta hræðilega böl, sem helzt er jafnað til svarta dauða eða stórubólu eða, svo mildara sé að kveðið, hallæris og hungurs?

Þegar svo er komið sem nú er í okkar þjóðfélagi, að ýmist er framleiðsla útflutningsvara þegar stöðvuð eða komið á fremsta hlunn með, að svo verði, beinlínis vegna þess, að verðlag afurðanna, sem ekki er sjáanlegt að verði hækkað, rís engan veginn undir kaupgjaldinu og öðrum tilkostnaði í landinu, þá er það alveg óumflýjanleg nauðsyn að stöðva dýrtíðina.

Af þessum ástæðum, þó einar væru, verður að hefta vöxt dýrtíðarinnar og hefja öfluga bar áttu til að lækka hana, en margt annað mælir auk þess með, að slík barátta sé hafin.“

Þessu er ekki til neins að mótmæla. Þetta eru hans eigin orð. Er hægt að hugsa sér dýpri niðurlægingu en að standa svo hér nú og halda því fram, að sú lækkun verðbólgunnar, sem þessi ráðh. fyrir nokkrum tíma síðan taldi óhjákvæmilega nauðsyn, sé nú augljós firra og fundin upp af fjandmönnum verkalýðsins og stefnt gegn honum? Og hver eru svo fyrirheitin, sem sjávarútvegurinn fékk hjá hæstv. ráðherra? Hann sagði, að menn gætu verið alveg vissir um það, að Sjálfstfl. mundi ekki „til langframa horfa aðgerðalaus á, að bátaútveginum blæði út,“ nei, ekki til langframa, en hvað lengi ætlar hann að horfa á, að bátaútveginum blæði út? Það er spurningin. Annars geta menn nú ímyndað sér, hvað ráðh. muni nú hafa í huga og hvers muni vera að vænta, með því að bera þessi ummæli saman við þær fullyrðingar um lækkun verðbólgunnar, sem ráðh., viðhafði, áður en hann fór í ríkisstj., og rifja síðan upp, hverjar efndirnar urðu á því heiti, og ímynda sér svo, hvers virði muni verða yfirlýsing þessa manns um, að ekki verði til langframa horft á, að bátaútveginum blæði út. Annars virðist hugsunarháttur ráðh. vera þessi: Leggið þið fram allt, sem þið getið við ykkur losað í ný atvinnutæki, nýjar framkvæmdir nú, meðan allt er á toppinum, og takið lán, mikil lán. Á meðan held ég uppi verðbólgunni. Síðar, þegar ég fæ leyfi til þess frá kommúnistum, þá lækka ég allt saman, og þá eigið þið að standa undir lánunum, sem þið fenguð, á meðan verðbólgan var sem mest. Þetta er boðskapur stjórnarinnar. Þetta er fjármálaspeki Ólafs Thors, það er að segja, þetta ætlar hann öðrum að gera. Sjálfur virðist hann ætla sér annað hlutskipti, því að enn sem komið er er ekki vitað um, að hann hafi óskað eftir kaupum nema á einum, — ég segi einum togara af þeim 30 skipum, sem ríkisstj. hefur keypt.

Lítum svo á, hvernig viðhorfið er við sjávarsíðuna til stjórnarstefnunnar.

Það sanna er, að verðbólgustefnan liggur eins og mara á sjávarþorpunum. Sífellt verður erfiðara að fá menn á vélbátaflotann. Margir bátar lágu aðgerðarlausir allt s.l. sumar. Í flestum eða öllum sjávarþorpum landsins vantar báta og margs konar aðrar framkvæmdir í sambandi við sjávarútveg. Smálestin í vélbát, er smíðaður er hér innanlands, kostar tíu þúsund krónur, og kostnaður við byggingu nýrra iðnfyrirtækja við sjávarsíðuna er stórkostlegur. Flestar ráðstafanir ríkisstj. hafa bætt gráu ofan á svart í þessum efnum og gert mönnum erfiðara fyrir með „nýsköpun“ og nýjar framfarir. Menn hika við að leggja fjármuni sína í sjálfa framleiðsluna, og farið er að grípa til þeirra úrræða að draga saman fé til framkvæmdanna með eins konar samskotum, en útvegsmenn, sem brjótast í því að gera samninga um nýja báta eða leggja í nýjar framkvæmdir, verða að fleygja öllu samanspöruðu fé sínu í verðbólguhítina til þess að taka kúfinn af stofnkostnaðinum, en taka samt lán ofan á lán. Öll ný fyrirtæki verða skuldum vafin í byrjun. Þannig vinnur stefna ríkisstj. gegn heilbrigðri nýsköpun atvinnuveganna.

Sannleikurinn í þessum málum er sá, að þær framfarir, sem nú verða í sjávarútveginum, að ég nú ekki tali um í landbúnaðinum, eiga sér stað þrátt fyrir stefnu og ráðstafanir núverandi ríkisstj., en ekki vegna þeirra. Allir sannir framfaramenn í landinu verða að heyja harða, þrotlausa orrustu við verðbólgustefnu ríkisstj., og það er vegna óbilandi kjarks og framfaravilja fólksins víðs vegar um land, að framfarir hafa ekki ennþá stöðvazt, en ekki vegna þess, að ríkisstj. eða hennar stefna hafi örvað menn eða hjálpað þeim. Það, sem ríkisstj. hefur lagt til þessara mála, er lítið annað en smjaður fyrir útgerðinni og stöðug herhvöt til manna um að taka nógu mikil lán til framkvæmdanna.

En þetta er ekki nóg. Ofan á þetta bætist, að þeim framfaramönnum, sem klífa þrítugan hamarinn til þess að ráðast í framkvæmdir og nýsköpun, er skapraunað með því að verða að hlusta á hið auvirðilega gort forsrh. og stjórnarliðsins um það, að þessar framkvæmdir, þær séu framkvæmdir stjórnarinnar. Ef bóndi kaupir vél, þá er það nýsköpun stjórnarinnar, ef útgerðarmaður eða fiskimenn kaupa báta, þá er það af náð stjórnarinnar.

Framsfl. vildi fara allt aðra leið en ríkisstj. Hann vildi lækka verðbólguna og létta þannig framfarabaráttu fólksins. Þá vildi Framsfl. efla nýjungar í sjávarútvegi með auknum framlögum ríkisins til fiskimálasjóðs. Höfum við hv. þm. N. Þ. flutt frv. í þessu skyni á því þingi, sem nú stendur yfir. Það er gert ráð fyrir, að fjármagn fiskimálasjóðs verði margfaldað og stuðningur hans að sama skapi aukinn við margs konar framfaramál sjávarútvegsins, og þá ekki sízt til þess að koma upp nýjum iðnfyrirtækjum í þorpunum og auka bátastólinn. Stjórnarliðið hefur tekið afstöðu á móti þessu frv., og nær það sýnilega ekki fram að ganga á þessu þingi og þá sennilega meðal annars vegna þeirrar sjálfheldu, sem fjármál ríkisins eru komin í. Það eina, sem frá stjórnarliðinu hefur komið til fyrirgreiðslu í þessa átt, er frv. um fiskveiðasjóð, þar sem gert er ráð fyrir auknum lánum og lægri vöxtum en áður. Þetta frv. er nokkuð góður vitnisburður um það, hvert skulda- og verðlagsstefnan er komin með sjávarútveginn, og hefði lánsþörfin betur verið minni en nú er orðið. En sízt veitir af vaxtalækkunum eins og komið er, og mun ekki standa á stjórnarandstæðingum í því efni.

Ekki tekur betra við, ef litið er á einstök framfaramál sjávarútvegsins og borin saman orð og efndir stjórnarliðsins.

Nokkrum dögum fyrir stjórnarmyndunina gaf að líta í blöðum kommúnista harða gagnrýni á þáverandi stjórn fyrir það, að hún hefði ekki notað lagaheimild til þess að taka olíugeyma olíuhringanna eignarnámi til hagsbóta fyrir samtök útvegsmanna. Í sama blaði var krafa um, að öllum innkaupamálum útvegsmanna væri í skjótri svipan komið í það horf, að útvegsmenn fengju vörur sínar með réttu verði.

Nú hefur atvmrh. kommúnista setið að völdum í eitt ár, og hvað hefur hann gert í olíumálunum? Því er fljótsvarað. Hann hefur ekkert gert. Ekki hefur hann tekið olíugeyma hringanna leigu- eða eignarnámi. Þvert á móti er ástandið þannig, að samlög útvegsmanna geta ekki starfað og olíugeymar þeirra standa tómir, en hringarnir hafa einkarétt á olíuverzluninni.

Hvað hefur sami hæstv. ráðh. aðhafzt í innkaupsmálum útgerðarinnar? Auðvitað ekki neitt. Þar situr allt við það sama og áður var.

Fyrir stjórnarmyndunina klifuðu kommúnistar mikið á því ólagi, sem væri á beitumálunum, og töldu löggjafar þörf í því efni. Í því máli hefur ekkert verið gert. Sama er að segja um vélamál útvegsins. Verzlun með mótorvélar hefur verið í megnasta ólagi mörg undanfarin ár. Mþn. í sjávarútvegsmálum hefur þó undirbúið frv. um bæði þessi mál, en hæstv. ráðh. lagzt á þau.

Meðan kommúnistar voru í stjórnarandstöðu, töluðu þeir ósköpin öll um að bæta kjör hlutarsjómanna og vildu láta ríkissjóð greiða uppbætur á hlutina, þangað til tryggingar væru komnar í framkvæmd. Síðan kommúnistar komust í ríkisstj. hefur þetta ekki heyrzt nefnt fyrr en nú í haust, að atvmrh. skipaði nefnd í málið, enda er nú farið að nálgast kosningar.

Þannig er allt á eina bókina lært í þeim málaflokki, sem stjórnin þóttist þó ætla að sinna sérstaklega.

Í stuttu máli er saga ríkisstj. í sjávárútvegsmálum sú, að hún þóttist ætla að hlynna sérstaklega að sjávarútveginum, en hefur brugðizt því loforði svo rækilega, að það er orðið sérstakt vandamál, hvernig skuli koma í veg fyrir stöðvun útvegsins, en samdráttur þegar orðinn víðs vegar. Má segja, að ríkisstj. hafi tekizt það ótrúlega að búa til kreppu í mesta góðæri og við hagstæðustu viðskiptaskilyrði, sem landsmenn hafa þekkt.