11.12.1945
Sameinað þing: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

16. mál, fjárlög 1946

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. Finnur Jónsson er veikur, svo að ég hleyp hér í skarðið fyrir hann. Ég mun þó ekki ræða mikið um Falkurútgerð né ævintýrin í Landsbankanum, eins og síðustu ræðumönnum hefur orðið tíðrætt um, heldur ætla ég að nota þessar mínútur til þess að drepa á tryggingafrv. En áður en ég byrja á því, vil ég svara því, sem hæstv. atvmrh. var að dylgja með í sambandi við fisksölu í ráðherratíð minni. Það átti víst að verða hans afsökun, ef eitthvað var ábótavant hjá mér. En þessu er ekki til að dreifa, því að þegar ég var ráðh., var tilganginum algerlega náð og útvegsmenn fengu hið raunverulega verð, sem fyrir fiskinn fékkst. Færi betur, ef hæstv. ráðh. gæti sagt hið sama.

Í ræðu minni í gærkvöld gerði ég nokkra grein fyrir því, hverjum lágmarkstekjum tryggingunum væri ætlað að sjá þeim fyrir, sem af ósjálfráðum ástæðum, svo sem elli, örorku, slysförum eða veikindum, geta ekki aflað sér nægilegra tekna, svo og framlögum trygginganna til ekkna og munaðarleysingja og foreldra, sem eiga stóran barnahóp, eða fleiri en þrjú. Af þessum tekjutryggingum er ellilífeyririnn langsamlega mestur eða 2–3 millj. Mér finnst rétt að geta þess, að gamla fólkið hefur orðið að þola mikið, og það hefur sparað mikið og á þess vegna rétt á að fá að lifa áhyggjulausri elli. Í sambandi við tekjutryggingarnar verður að hafa það í huga, að það er engan veginn nóg að sjá þeim, sem veikjast eða verða fyrir slysum, fyrir tryggingu lágmarkstekna. Þessi atvik hafa jafnan í för með sér tilfinnanleg útgjöld, læknishjálp, lyf og sjúkrahúsvist, um leið og atvinnutekjurnar bregðast. Þess vegna er til þess ætlazt, að heilsugæzlan sjái um þetta á líkan hátt og sjúkrasamlög nú. Því er nauðsynlegt að auka heilsuverndina sem allra mest. Margir sjúkdómar orsakast af lélegri heilsuvernd. Auður þjóðarinnar er fólginn í heilbrigði fólksins.. Ekki er síður áríðandi að varðveita heilsuna en lækna sjúka. Það er betra að veikjast ekki en batna, þó að gott sé. Þjóðargróði afstýrir veikindum. Lega á sjúkrahúsum hefur kostað nú 400 þús. kr. á einu ári fyrir einstaklingana, og er það þó ekki nema lítill hluti af hinum raunverulega kostnaði. En von er um betri árangur, ef heilsuverndin verður aukin. Mér þykir rétt að lesa nokkrar tölur, er sýna lækkun sjúkdómstilfella samfara aukinni heilsuvernd. Árið 1893 voru 237 holdsveikir sjúklingar, en holdsveikraspítalinn var ekki settur á stofn fyrr en 1898. 40 árum síðar, eða 1938, er sjúklingatalan komin niður í 21, en ef sama hlutfall hefði átt að haldast, hefði tala sjúklinganna verið 385. Þetta er nú árangurinn af bættri heilsuvernd. Svipað er að segja um sullaveikina. 1911–15 dóu 89 menn úr sullaveiki og þar af 22 undir 20 ára aldri, en 1936–40 dóu 20 og af þeim 4 undir 20 ára aldri. 1931–40 var rannsakað, hvað sullar væru í mörgum af þeim, sem dóu, og það kom í ljós, að ekki fundust sullar í neinum, sem var yngri en 20 ára. Í mönnum 20–40 ára voru sullar í 0.6%, í 21–50 2.4% og yfir 70 ára 21% eða fimmti hver maður. En nú deyja menn varla lengur úr sullaveiki, því að hún er sjálf að deyja út. Þetta er einnig mikill árangur af bættri heilsuvernd. En e. t. v. er ljósasta dæmið um berklaveikina. Hún náði hámarki sínu 1931 og dóu þá 2.1% af allri þjóðinni úr berklaveiki eða 232, en 1939 dóu 94 eða 0.8%. Rannsakað hefur verið um berklatilfelli hjá börnum, og síðustu tölur gefa til kynna, að það séu 10% barnanna, sem hefur vott af berklum, en fyrir 15 árum var það 1/3 barnanna. Þetta sýnir nú, hvers má vænta af frv., hvað snertir heilsugæzlu og heilsuvernd.

Í gærkvöld gerði ég einnig grein fyrir því, hversu mikill heildarkostnaður trygginganna yrði og hve miklu aukningin frá því, sem nú er lagt fram í sama skyni, mundi nema. Er þá eðlilegt, að spurt sé: Höfum við efni á þessu? Getur þjóðin risið undir þessum fjárframlögum? Ég mun nú leitast við að skýra þetta nánar, svo að hv. alþm. og aðrir geti skapað sér skoðun um þetta atriði. Er þá fyrst á það að líta, að hér er ekki um neinn aukinn kostnað að ræða fyrir þjóðina í heild umfram það, sem kjör þeirra, er trygginganna njóta, verða betri en nú er: Kostnaðaraukningin ætti ekki einu sinni að verða svo mikil, því að með bættu skipulagi, sem leiðir af, þegar öll þessi mál eru komin í eitt heildarkerfi, má gera ráð fyrir, að töluvert sparist. Sá tími er löngu liðinn, er gamalmenni gengu fyrir ætternisstapa til þess að íþyngja ekki börnum sínum, og barnaútburður til að spara uppeldiskostnaðinn er löngu úr tízku. Sjúkir menn, aldraðir og lemstraðir fá nauðsynjar og einhverja aðhlynningu, börnum er séð fyrir fæði og flíkum. Það, sem á skortir nú, að tryggingar og opinber forsjá ríkis- og sveitarfélaga hrökkvi til þessa, leggi einstaklingurinn fram af tekjum sínum eða eignum með misjöfnum hætti. Ölmusugjafir og bónbjargir er ekki eftirsóknarvert, hvorki fyrir þá, sem njóta, né fyrir hina, sem láta af hendi. Mörgu gamalmenninu er þungt í skapi, ef það þarf að leita hjálpar hjá börnum sínum, sem oftast eiga nóg með sig. Með frv. þessu er leitazt við að jafna þessum gjöldum niður á réttlátan og skynsaman hátt og tryggja mönnum ákveðinn rétt í stað gustukaverka og misjafns mats á verðleikum og ástæðum, enda lögð á hvern og einn vinnufæran mann sú skylda að leggja fram iðgjöld til trygginganna, þ. e. að tryggja sjálfan sig.

Við Íslendingar ættum að vera fremri í að setja fullkomna tryggingarlöggjöf, tryggja betur þjóðfélagslegt öryggi en flestar aðrar þjóðir: Ástæðurnar fyrir því eru þessar: Við höfum komizt hjá eyðileggingum og kostnaði styrjaldarinnar. Aðrar þjóðir hafa rúið sig inn að skinninu fjárhagslega í stríðinu, lönd þeirra, hús og mannvirki hafa verið eyðilögð. Þúsundir og jafnvel milljónir manna á bezta aldri hverfa heim sem aumingjar og örkumla menn. Fyrir þeim þarf þjóðin að sjá í viðbót við aðra þegna sína. Við höfum safnað fé, þær hafa safnað skuldum. Samt telja þessar þjóðir, eða e. t. v. þess vegna, það skyldu sína að byrja á því að koma tryggingarmálunum í gott lag. Í öðru lagi erum við minnsta fullvalda þjóð í heimi. Stundum er smæðin talin veikleikamerki. En í tryggingarmálunum er hún eða ætti að vera styrkur. Auðveldara er að hafa yfirsýn yfir þessi mál, bæði þörf og getu, í litlu þjóðfélagi; þar sem ekki er sama regindjúp milli auðs og örbirgðar og hjá stórþjóðunum, sem telja tugi eða hundruð milljóna. Í þriðja lagi höfum við fengið mikilvæga reynslu þau 10 ár, sem liðin eru síðan alþýðutryggingalögin voru sett, og safnað talsverðu fé, sem ætti að auðvelda framkvæmd laganna. Sjóðir trygginganna nema væntanlega á næsta ári eitthvað á milli 30-40 millj. kr., og á þeirri reynslu, sem fengin er, verða framkvæmdirnar byggðar: Talið er, að þjóðartekjur okkar hafi numið í heild síðasta ár a. m. k. 750–800 millj. kr. eða 6000 kr. á hvert mannsbarn í landinu. Áætlaður kostnaður trygginganna alls er 72 millj. kr. eða um 9% af öllum þjóðartekjunum. Áætlað er, að framlög ríkissjóðs til þeirra mála, sem tryggingarnar taka til, þurfi að hækka um 11.4 millj. kr. Það er 9% hækkun á fjárl. frá því, sem gjöldin eru áætluð í frv. því, sem nú liggur fyrir Alþ. Sveitarfélög og bæjarfélög leggja nú fram um 10 millj. kr. til þessara mála, aðallega til trygginga og til fátækraframfærslu, sem hefur verið mjög lítil hin síðari ár vegna trygginganna og einnig vegna þess, að atvinna er nægileg. Áætlað er, að framlög þeirra þurfi að hækka um 5 millj. kr. samtals á öllu landinu. Það mun láta nærri, að það svari til 10% hækkunar á útsvarsupphæðunum í heild fyrir allt landið. Fátækraframfæri sveitanna ætti að langmestu leyti að hverfa vegna trygginganna. Er það næsta mikilfenglegt fyrir sveitarfélögin, sérstaklega ef erfiðara verður í ári, því að þá er hætt við, að fátækraframfæri hækki aftur. Aðeins vandræðamenn, sem sjálfir eiga sök á því, að þeir verði styrkþurfa og fá eigi sitt til tryggingar, ættu að þurfa fátækrahjálparinnar við.

En hvað segir frv. þá um atvinnutryggingar? Um þau mál segir svo í grg. frv.:

„Í frv. eru engin ákvæði um atvinnuleysistryggingar eða framlög til öryrkja undir 75%. En n. hefur til athugunar fyrrnefndar tillögur Jóns Blöndals um Atvinnustofnun ríkisins. Samkv. þeim till. er þessari stofnun ætlað að sjá um vinnumiðlun almennt og til öryrkja undir 75% sérstaklega, svo og að annast um greiðslu atvinnuleysisbóta (dagpeninga) til öryrkja, ef ókleift reynist að útvega eða sjá þeim fyrir vinnu, og til annarra, sem atvinnuleysistryggingin nær til og eins er ástatt um. N. gerir ráð fyrir að geta innan skamms gert grein fyrir athugun sinni á nefndum tillögum.

N. er það ljóst, að eitt meginskilyrði þess, að tryggingar nái tilgangi sínum, er það, að starfsorka þjóðarinnar sé notuð til gagnlegra framkvæmda, en ekki sóað eða gerð verðlítil vegna atvinnuleysis, ófullkominna starfstækja eða skorts á skipulagi. Markmið almannatrygginganna er að útrýma skorti, en afkoma og lífskjör þjóðarinnar í heild eru undir því komin, að starfsorka hennar komi að sem fyllstum notum. Skorti lífsnauðsynja má útrýma með tryggingum, ef atvinnuleysi er haldið í skefjum. Útrýming atvinnuleysisins er í rauninni þýðingarmesta forsendan fyrir því, að takast megi að skapa félagslegt öryggi. Tryggingarnar eru ekki einhlítar í því efni, ef þjóðartekjurnar bregðast, en þær hljóta að rýrna, ef vinnuaflið er ekki hagnýtt, og því meir sem kveður að atvinnuleysinu.“ Og enn segir svo í greinargerðinni:

„Þegar litið er til þess, hversu mörg og stór verkefni bíða hér óleyst á fjölmörgum sviðum, hversu hagur okkar gagnvart útlöndum nú er góður, og jafnframt hafðar í huga þær stórfelldu ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar og verið er að gera til þess að afla landsmönnum nýrra, fullkomnari framleiðslutækja, ætti ekki að þurfa til slíks að koma, ef réttilega og skynsamlega er á málunum haldið.“

Þetta segir í grg., en í yfirlýsingu hæstv. núv. ríkisstj. er komizt svo að orði, að meginstefna hennar sé að tryggja það, að allir landsmenn geti haft atvinnu, eða m. ö. o. að afstýra atvinnuleysi. Hafa nú þegar verið gerðar ráðstafanir til útvegunar nýrra og fullkomnari framleiðslutækja, sem nægja til að veita a. m. k. 3000 manns atvinnu beinlínis.

Ég hef í þessum umræðum einkum gert þrjú mál að umræðuefni, mál, sem Alþfl. hefur óslitið frá upphafi barizt fyrir, og tvö þeirra voru gerð að skilyrði fyrir þátttöku hans í ríkisstj. Mál þessi eru:

1) Ráðstöfun stríðsgróðans. Nota erlendar inneignir til að kaupa framleiðslutæki. Lækka framleiðslukostnaðinn með því að nota hinar fullkomnustu vélar, sem völ er á.

2) Útrýming atvinnuleysis, en ég gerði grein fyrir því í síðustu ræðu minni.

3) Alþýðutryggingar. Það var Alþfl., sem gerði alþýðutryggingalögin að skilyrði fyrir stjórnarsamvinnu við Framsfl. 1934. Þau voru sett 1935, en gengu í gildi 1936 og voru þau stórkostleg framför frá því, sem áður var. Sú tryggingarlöggjöf getur ekki haldizt óbreytt. Hún verður að breytast eftir því, sem tímarnir breytast. Það, sem var við hæfi, getu og aðstæður okkar 1935, á ekki lengur við 1945. Nú eru aðrir tímar. Það er meiri þörf og geta fyrir víðtækari löggjöf.

Það er verið að tala um, að þetta muni draga úr sjálfsbjargarviðleitni okkar, og það er verið að tala um síðasta naglann í líkkistu sjálfstæðis okkar í sambandi við það, sem hér hefur verið rætt. En ég fagna því, að samkomulag hefur náðst um lausn þessara mála nú þegar á þessu þingi. Íslendingar geta ekki skipað sess meðal þjóðanna sem frjáls og fullvalda þjóð eingöngu vegna fornrar sögufrægðar og ritsnilldar. Sá kvarði, sem við verðum mældir á um það, hvort við verðskuldum að vera frjáls þjóð, er annar. Og við getum verðskuldað það, ef við viljum það.